Markaðsherferðin sem gerð var fyrir áfangastaðinn Ísland og margir þekkja sem Öskurherferðina, var valin sú besta í flokki ferðaþjónustu á Global Effie Best of the Best verðlaunaafhendingunni sem fram fór í vikunni

Markaðsherferðin sem gerð var fyrir áfangastaðinn Ísland og margir þekkja sem Öskurherferðina, var valin sú besta í flokki ferðaþjónustu á Global Effie Best of the Best verðlaunaafhendingunni sem fram fór í vikunni. Herferðin hófst í júlí 2020 og bauð tilvonandi ferðamönnum til Íslands að tengja sig við landið og losa um Covid-tengda streitu með því að öskra heima hjá sér, en streyma öskrinu í gegnum netið í hátalara í íslenskri náttúru.

Herferðin vakti mikla athygli erlendra fjölmiðla, en alls var fjallað um 800 sinnum um herferðina í erlendum miðlum. Umfjöllunin náði til um 2,6 milljarða neytenda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þá heimsóttu um 2,5 milljónir manna vef verkefnisins.