Húsbandið F.v.: Gísli Gíslason, Bogi Sigurðsson, Gunnar Sigurðsson, Sigurður Sumarliðason og Gísli Einarsson.
Húsbandið F.v.: Gísli Gíslason, Bogi Sigurðsson, Gunnar Sigurðsson, Sigurður Sumarliðason og Gísli Einarsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Bogi Sigurðsson frá Akranesi hefur þanið nikkuna í ríflega hálfa öld og verður á sínum stað í fimmtugustu skötuveislu Hins íslenska skötufélags, eða The Icelandic Skate Club eins og félagsskapurinn er kallaður í Færeyjum og víðar, í Fjörukránni í Hafnarfirði á morgun.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Bogi Sigurðsson frá Akranesi hefur þanið nikkuna í ríflega hálfa öld og verður á sínum stað í fimmtugustu skötuveislu Hins íslenska skötufélags, eða The Icelandic Skate Club eins og félagsskapurinn er kallaður í Færeyjum og víðar, í Fjörukránni í Hafnarfirði á morgun.

Emil Guðmundsson og Sigurður Magnússon stofnuðu Íslenska skötuklúbbinn, sem lengi vel var kallaður Skötuklúbbur Emils, 1971. Félagar hafa hist árlega til skiptis á Akranesi og í Hafnarfirði en covid hindraði hitting undanfarin tvö ár. „Það er alltof langt síðan síðast en þessar samkomur hafa ævinlega verið mikil upplifun enda ávallt gaman að hitta fólk og sjá ný andlit,“ segir Bogi. Hann er í húsbandinu ásamt Gísla Gíslasyni, formanni HÍS, Gísla Einarssyni, Sigurði Sumarliðasyni, Ásgeiri Guðmundssyni og Jóni Karli Ólafssyni auk Gunnars Sigurðssonar söngvara.

Guðfinna Svavarsdóttir, móðir Boga, lærði á orgel og spilaði auk þess á píanóharmóníku, en Sigurður Bjarnason Sigurðsson, faðir hans, spilaði á hnappaharmóníku. „Pabbi spilaði í hljómsveit sem hét Kátir strákar, en hinir voru Guðjón Bjarnason og Theódór Einarsson,“ upplýsir Bogi. „Ég byrjaði að fikta á harmóníkuræfil sem mamma átti, en eignaðist fyrst harmóníku þegar konan mín gaf mér eina frá Kína í 30 ára afmælisgjöf.“ Hann hafi síðan átt þær nokkrar og hafi nýlega fjárfest í einni ítalskri. „Hún kostaði 700 þúsund, sem vinir og ættingjar réttu mér, en það má fá þær fyrir allt að þrjár milljónir. Ég spilaði lengi á hnappaharmóníku sem pabbi átti en gaf Byggðasafninu á Akranesi hana og í fyrra gaf ég bróðurdóttur minni kínversku nikkuna, sem ég eignaðist fyrst. Nú á ég bara tvær eftir.“

Af fingrum fram

Fólk í sambýli í Roðasölum í Kópavogi hefur fengið Boga í heimsókn á þriðjudögum í nokkur ár. „Þá spila ég en fólkið dansar eða syngur eða gerir það sem það vill. Þetta er ágætis tilbreyting fyrir það og mig.“ Þegar hann var virkur í skátunum spilaði hann gjarnan á skátamótum og einnig hjá Kleinuhringjunum. „Eftir því sem fleiri krakkar frá Akranesi fóru til Reykjavíkur í framhaldsnám var ákveðið að stofna félagsskap fyrir sunnan. Við vorum fjórir eða fimm sem mættum á fyrsta fundinn, fengum okkur kleinuhringi með kaffinu og þannig varð nafn hópsins til.“

Bogi spilaði fótbolta með ÍA, lengst af í vörninni. Hann var fyrst Íslandsmeistari í 3. flokki 1958 og næst komu Íslandsmeistaratitlar í 2. flokki og meistaraflokki 1960. „ Ég spilaði einn B-landsleik, í 10:0 sigri á Færeyjum, en nú á A-landsliðið í vandræðum með Færeyinga.“ Skömmu eftir að hann hætti í boltanum 1967 fór hann að leika af fingrum fram á nikkuna. Hann tók lengi á móti skötufélögum með harmóníkuspili þegar þeir gengu í salinn og hefur verið nefndur hirðskáld félagsins síðan hann orti ljóð og fór með á 40 ára afmælinu auk þess sem hann hefur flutt það nokkrum sinnum síðan. Skötudrápa hans er líka alltaf við hæfi á þessum árstíma en þriðja erindið er eftirfarandi: Eins og hellt úr heilli fötu/af hlandi þá er lykt af skötu/og þetta er ekkert reykelsi eða myrra/meira að segja sterkari en í fyrra/þá lyktin entist alveg fram á góu/og allar lýs í hári mínu dóu.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson