Gæslan Varðskipið Þór sést hér á mikilli fart en stefnan var þá sett á Grindavíkurhöfn.
Gæslan Varðskipið Þór sést hér á mikilli fart en stefnan var þá sett á Grindavíkurhöfn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Leggja þarf mat á viðbragðsgetu Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og gera ráðstafanir til að tryggja vöktun landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sinna löggæslu á hafinu og leitar- og björgunarþjónustu. Er þetta á meðal þess sem fram kemur í skýrslu forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Leggja þarf mat á viðbragðsgetu Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og gera ráðstafanir til að tryggja vöktun landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sinna löggæslu á hafinu og leitar- og björgunarþjónustu. Er þetta á meðal þess sem fram kemur í skýrslu forsætisráðherra um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.

Landhelgisgæslan fer með löggæslu á hafi og sinnir þar öryggisgæslu og eftirliti, m.a. löggæslu, leit og björgun og eftirliti með ytri landamærum Schengen-svæðisins. Löggæslan lýtur einkum að ólöglegum fiskveiðum, losun meng­andi efna, siglingum innan landhelgi, smygli og mansali. Þá fylgist LHG einnig með umferð um efnahagslögsögu í lofti og á sjó á leitar- og björgunarsvæði Íslands. Svæðið nær yfir 1,9 milljónir ferkílómetra og ber LHG ábyrgð á því að hefja og stýra öllum aðgerðum vegna flug- og sjóatvika á þessu svæði.

Helstu öryggismál á hafsvæðum við Ísland tengjast sjávarauðlindum, siglingaleiðum og landhelgi Íslands. Áhættuþættir lúta einkum að mengun, sjó- og flugslysum og sæstrengjum. Skýrsluhöfundar telja talsverða hættu á mengun vegna losunar frá skipum og getur uppsöfnuð hætta ógnað öryggi með því að spilla auðlindum og umhverfi.

Gott samstarf LHG og EMSA

Fjöldi stórra farþegaskipa sem sigla á íslensku hafsvæði hefur aukist mjög sl. ár. Þó dró úr komu þeirra tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Gera má ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar á komandi árum.

Afleiðingar mengunarslyss á hafsvæði Íslands geta orðið mjög víðtækar. Til að bregðast við slíku vinnur LHG m.a. með Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA) sem reglulega sendir LHG gervitunglamyndir af hafsvæðinu sem sýna mögulega olíuflekki. Samstarf við EMSA tryggir einnig að fá má aðstoð frá öflugu olíuhreinsunarskipi frá stofnuninni. Alltaf yrði þó minnst fimm daga bið eftir skipinu. Varðskipið Þór er ágætlega búið til olíuhreinsunar og segja skýrsluhöfundar mikilvægt að uppfæra þann búnað reglulega.

Skýrsluhöfundar telja minni háttar líkur á alvarlegum atvikum sem tengjast stórum skemmtiferðaskipum á hafsvæðinu við Ísland. Þeir benda þó á að afleiðingar slíks slyss geti orðið mjög alvarlegar. Farþegar um borð í þessum skipum geta verið um 5.000 talsins og þótt þessi ferðamáti sé almennt talinn öruggur liggja ekki fyrir neinar áætlanir um það hvernig bjarga megi svo mörgum farþegum á öruggan hátt.

Björgun á sjó gengur hægt

Verði svona slys sendir LHG allar tiltækar björgunareiningar á staðinn og óskar eftir aðstoð nærstaddra skipa og erlendra björgunaraðila. LHG ræður þegar yfir tveimur aflmiklum varðskipum, Þór og Freyju, en bæði skipin eru með mikla dráttargetu sem sögð er mikill kostur við aðstæður sem þessar. Auk eftirlitsflugvélar er að finna þrjár öflugar Airbus H-225-björgunarþyrlur í loftfaraflota LHG, þær TF-GNÁ, TF-EIR og TF-GRÓ. Hugsanlega væri hægt að troða 40 til 50 manns inn í hverja þyrlu, þó það sé vart talið æskilegt. Að fá varðskip LHG á slysstað gæti tekið tvo sólarhringa og svipaða sögu er að segja af erlendum björgunarskipum. Af þessu er ljóst að björgun tæki langan tíma.

Geta LHG til að halda uppi eftirliti með umferð um efnahagslögsöguna og landhelgina er takmörkuð, að sögn skýrsluhöfunda. Rekstur eftirlitsflugvélar LHG er ekki tryggður allt árið við Ísland. Þegar hún er fjarri er landamæraeftirlit á hafi verulega skert. Er talin mikil þörf á auknum viðbúnaði og betri mönnun áhafna.

Höf.: Kristján H. Johannessen