Færeyski Javnaðarflokkurin hafði hlotið flest atkvæði í þingkosningunum í Færeyjum þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi en þá voru Argir og Þórshöfn enn ótaldir kjörstaðir og ekki ljóst um lokaúrslit

Færeyski Javnaðarflokkurin hafði hlotið flest atkvæði í þingkosningunum í Færeyjum þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi en þá voru Argir og Þórshöfn enn ótaldir kjörstaðir og ekki ljóst um lokaúrslit.

„Hátíðardámurin er við at merkjast,“ sagði Tróndur Herason Olsen frá færeyska ríkisútvarpinu KVF skömmu eftir að kjörstaðir voru opnaðir í gærmorgun og vísaði þar til þess að eyjarskeggjar gengju hátíðlegir að kjörborði.

Javnaðarflokkurin var með níu þingsæti samkvæmt síðustu spá, hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, Tjóðveldi og Framsókn, með sex og tvo menn, en á færeyska þinginu eru 33 sæti. Samtals var andstöðunni þá spáð 17 sætum, tveimur fleirum en samtölu stjórnarflokkanna.

Stjórnarflokkarnir, Fólkaflokkurin, Sambandsflokkurin og Miðflokkurin, höfðu samkvæmt sömu spá sex, sjö og tvo þingmenn, samtals 15. Sjálvstýrinu var spáð einum manni.

Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins og lögmaður Færeyja, hafði hlotið flest atkvæði einstakra frambjóðenda, eða 803.