Sókn Valsarinn Ozren Pavlovic sækir að ÍR-ingnum Taylor Johns í Skógarseli en Pavlovic skoraði 13 stig og tók átta fráköst í leiknum.
Sókn Valsarinn Ozren Pavlovic sækir að ÍR-ingnum Taylor Johns í Skógarseli en Pavlovic skoraði 13 stig og tók átta fráköst í leiknum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kári Jónsson var stigahæstur Íslandsmeistara Vals þegar liðið heimsótti ÍR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Skógarsel í Breiðholti í 9. umferð deildarinnar í gær. Leiknum lauk með 83:77-sigri Valsmanna en Kári skoraði 21…

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kári Jónsson var stigahæstur Íslandsmeistara Vals þegar liðið heimsótti ÍR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Skógarsel í Breiðholti í 9. umferð deildarinnar í gær.

Leiknum lauk með 83:77-sigri Valsmanna en Kári skoraði 21 stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.

Valsmenn leiddu með 11 stigum í hálfleik, 40:29. Staðan var 78:77, Val í vil, þegar mínúta var til leiksloka og fengu ÍR-ingar tækifæri til að komast yfir en þriggja stiga skot þeirra geigaði og Valsmenn fögnuðu sigri.

Þetta var sjöundi sigurleikur Vals á tímabilinu en liðið er í harðri baráttu við bæði Keflavík og Breiðablik á toppi deildarinnar.

ÍR-ingar eru hins vegar í harðri baráttu í neðri hluta deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki til þessa.

Pablo Bertone skoraði 17 stig fyrir Valsmenn en Colin Pryor var stigahæstur hjá ÍR-ingum með 19 stig og tólf fráköst.

Dramatík í Garðabæ

Norbertas Giga reyndist hetja Hauka þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Stjörnunni í Ásgarði í Garðabæ.

Giga tryggði Hafnfirðingum 77:76-sigur með tveggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka en Giga skoraði 14 stig og tók tólf fráköst í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn. Haukar leiddu með stigi í hálfleik, 42:41 en Stjarnan komst tveimur stigum yfir, 72:70, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Þetta var annar sigurleikur Hauka í röð, sem eru komnir upp í þriðja sætið og upp fyrir Breiðablik sem heimsækir Grindavík í kvöld.

Á sama tíma var þetta annað tap Garðbæinga í röð sem eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni í sjöunda sætinu með 8 stig.

Darwin Davis skoraði 15 stig fyrir Hauka, tók þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Robert Turner var stigahæstur hjá Stjörnunni með 19 stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar.

Góð byrjun skilaði sigri

Adomas Drungilas fór mikinn fyrir Tindastól þegar liðið vann nauman sigur gegn botnliðinu Þór frá Þorlákshöfn á Sauðárkróki.

Leiknum lauk með 88:86-sigri Tindastóls en Drungilas skoraði 20 stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum.

Tindastóll byrjaði leikinn miklu betur og leiddi með 18 stigum í hálfleik, 53:35. Þórsurum tókst að minnka forskotið í eitt stig, 86:87, þegar átta sekúndur voru til leiksloka en það reyndist of seint.

Tindastóll er með 10 stig í sjötta sætinu og í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Það hefur hins vegar ekkert gengið hjá Þórsurum í vetur en liðið hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu, gegn toppliði Keflavíkur.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 19 stig fyrir Tindastól, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar en Vincent Malik Shahid var stigahæstur Þórsara með 33 stig, sex fráköst og þrjár stoðsendingar.

Sigurinn aldrei í hættu

Eric Ayala var stigahæstur Keflvíkinga þegar liðið lagði Hött að velli í Blue-höllinni í Keflavík.

Ayala skoraði 18 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en leiknum lauk með 71:62-sigri Keflavíkur.

Keflavík leiddi með tveimur stigum í hálfleik, 29:27, en Hetti tókst að minnka forskot Keflavíkur í fimm stig í fjórða leikhluta en lengra komust þeir ekki.

Keflavík tyllti sér aftur á topp deildarinnar með sigrinum þar sem liðið er með betri innbyrðis viðureign á Val eftir 25 stiga sigurinn í síðustu umferð en þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð.

Hattarmenn hafa nú tapað fjórum leikjum í röð eftir að hafa unnið þrjá leiki í röð áður en kom að yfirstandandi taphrinu liðsins.

Dominykas Milka skoraði 17 stig og tók ellefu fráköst fyrir Keflavík en Nemanja Knezevic var stigahæstur í liði Hattar með 13 stig, átta fráköst og eina stoðsendingu.

Höf.: Bjarni Helgason