Þórarinn Hjaltason
Þórarinn Hjaltason
Þórarinn Hjaltason: "Ef farið hefði verið eftir áætlunum í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 væri umferðarástandið svipað og það var um síðustu aldamót."

Nú eru liðin rúm þrjú ár frá því að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður. Sáttmálinn felur í sér lofsvert átak, þar sem byggja á samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu á 15 árum sem ella hefði tekið 50 ár með hefðbundnum fjárveitingum. Á sl. ári undirrituðu ríki og borg viljayfirlýsingu um lagningu Sundabrautar. Borgaryfirvöld höfðu þá í mörg ár þvælst fyrir framgangi Sundabrautar og komu í veg fyrir að hagkvæmasta legan var valin. Innviðaráðherra á þakkir skilið fyrir að hafa sýnt frumkvæði í þessum málum. Vonandi næst samstaða um að Sundabraut verði lögð á brú yfir Kleppsvík. Að öðrum kosti verða möguleikar á uppbyggingu á Geldinganesi, Álfsnesi og Kjalarnesi verulega takmarkaðir (sjá grein mína „Sundabraut yfir Kleppsvík“, sem birtist í Mbl. 27. maí sl.).

Framkvæmd samgöngusáttmálans

Framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans hefur nú þegar riðlast verulega. Samkvæmt upphaflegri áætlun átti framkvæmdum við 1. áfanga borgarlínu, Sæbrautarstokk, Arnarnesveg og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg að vera lokið, en nú er ljóst að þessar framkvæmdir tefjast um nokkur ár í viðbót. Árið 2017 var til fjárveiting fyrir mislægu gatnamótunum. Þáverandi vegamálastjóri hvatti til þess að ráðist yrði sem fyrst í framkvæmdina og benti á að það væri stílbrot að hafa ljósastýrð gatnamót á Reykjanesbraut sem verður í náinni framtíð með mislægum gatnamótum frá Miklubraut að Reykjanesbæ. Þessi mislægu gatnamót munu borga sig niður á innan við ári. Borgaryfirvöld eru á móti mislægum gatnamótum og hafa þess vegna þrjóskast við.

Á undanförnum misserum hefur komið í ljós að fyrirhugaður Miklubrautarstokkur hlaut ekki viðunandi tæknilega skoðun hjá borgaryfirvöldum áður en hann var festur í skipulag. Ekki hafði verið hugað nægilega vel að því hvernig umferðin yrði leyst á framkvæmdatíma, sem spannar nokkur ár. Eru þau mál nú í athugun og jafnframt er verið að skoða þann kost að hafa Miklubraut í jarðgöngum milli Grensásvegar og Snorrabrautar. Telja verður líklegt að framkvæmdir við Miklubraut tefjist og riðli þannig framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans enn frekar.

Framtíðarhorfur

Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu eru óeðlilega miklar miðað við önnur borgarsvæði af svipaðri stærð. Skýringin er einfaldlega sú að fjárveitingar til uppbyggingar þjóðvegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið nægilega miklar í áratugi. Ef farið hefði verið eftir áætlunum í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 væri umferðarástandið svipað og það var um síðustu aldamót.

Þrátt fyrir myndarlega aukningu samgöngusáttmálans á fjárveitingum til uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu þá dugar hann engan veginn til að minnka umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti er ljóst að umferðartafir munu vaxa verulega næstu 10 árin eða þangað til Sundabraut og endurbætur á Miklubraut verða komnar í gagnið. Þær samgöngubætur ásamt öðrum framkvæmdum í samgöngusáttmálanum munu þó ekki duga til að ná viðunandi umferðarástandi. Því miður fer mestur hluti samgöngupakkans í vegstokka og borgarlínu, sem gera takmarkað gagn miðað við kostnað. Framkvæmdapakki samgöngusáttmálans gengur ekki eins langt og svæðisskipulagið 2001-2024 í þá áttina að auka flutningsgetu þjóðvegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Líklega verður umferðin í lok tímabilsins sem samgöngusáttmálinn spannar (2034) mun meiri en áætlað var 2024 í eldra svæðisskipulagi. Til viðbótar við aukningu umferðar vegna fjölgunar íbúa bætist við umferð erlendra ferðamanna. Síðast en ekki síst skapar þétting byggðar aukna umferð á núverandi vegum.

Tillögur SFA

Samtökin samgöngur fyrir alla (SFA) hafa lagt fram tillögur sem geta bætt umferðarástandið á höfuðborgarsvæðinu án þess að til þurfi að koma auknar fjárveitingar. Í stað rándýrra vegstokka er gerð tillaga um mislæg gatnamót sem eru um 2-3 sinnum ódýrari lausnir. Ná má svipuðum árangri með svokallaðri léttri borgarlínu sem er um 3-4 sinnum ódýrari en fyrirhuguð borgarlína. Fyrir þá fjármuni sem sparast má m.a. breikka núverandi þjóðvegi. Sjá nánar tillögur SFA á heimasíðunni: www.samgongurfyriralla.com .

Tillögur SFA hafa einkum verið gagnrýndar á þeirri forsendu að það sé ekki hægt að byggja sig frá núverandi ástandi. Gerð mislægra gatnamóta og fjölgun akreina muni ekki bæta umferðarástandið þar eð ný umferðarmannvirki fyllist jafnóðum af bílum. Er þá vísað til fyrirbæris sem kalla má orsakaða umferð eða framboðsstýrða eftirspurn (e. induced demand). Þetta lögmál gildir fyrst og fremst um þéttbyggðar milljónaborgir, einkum þar sem hlutur almenningssamgangna er umtalsverður, en hefur lítið gildi hér á höfuðborgarsvæðinu.

Höfundur er samgönguverkfræðingur. thjaltason@gmail.com

Höf.: Þórarinn Hjaltason