Guðný Sigurðardóttir fæddist 21. mars 1936 í Neskaupstað. Hún lést á hjúkrunardeild Sjúkrahússins í Neskaupstað 26. október 2022.

Faðir Guðnýjar var Sigurður Björgvin Sigurðsson og móðir hennar var Margrét Bjarnadóttir. Lífsförunautur Guðnýjar var Kristján Gils Sveinþórsson, fæddur 2. ágúst 1934 á Tröllanesi. Þau trúlofuðu sig árið 1953 og giftu sig í desember árið 1955. Vann hann sem sjómaður um árabil. Þau hjónin hófu búskap sinn fyrst á Tröllanesi árið 1955. Árið 1966 fluttu þau Guðný og Gils af Tröllanesinu í blokk í Víðimýri. Fjölskyldan flutti þó aftur á Tröllanesið árið 1973. Kristján Gils lést 8. janúar 2016.

Börnin þeirra eru sjö alls. Þau eru: 1) Anna Sigurbjörg, f. 1955. Hennar maður er Valþór Stefánsson. Þau búa á Siglufirði og eiga tvo syni og tvö barnabörn; 2) Jófríður, f. 1956. Maki er Þorfinnur Hermannsson, en þau búa á Hofi og eiga þrjár dætur, átta barnabörn og þrjú barnabarnabörn; 3) Sveinþór, f. 1958. Maki er Guðbjörg Gissurardóttir. Þau búa í Ástralíu. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn; 4) Margrét, f. 1967. Maki er Styrmir Pedersen. Þau búa í Hafnarfirði og eiga tvö börn, en fyrir átti hún eitt barn; 5) Sigurður Magnús, f. 1970. Maki er Andrea Borgþórsdóttir. Þau eiga eina dóttur, en fyrir á hann tvo syni og einnig á hún fyrir tvo syni. Saman eiga þau fimm börn. Þau búa á Reyðarfirði og eru barnabörn þeirra sex; 6) Viktoría, f. 1971. Maki er Eiður Waldorff Karlsson. Búa þau í Dallandi í Norðfjarðarsveit; 7) Guðmundur Freyr f. 1975. Hann býr í Reykjavík.

Útför Guðnýjar hefur farið fram.

Ástkær móðir mín, Guðný Sigurðardóttir, var umhyggjusöm og kletturinn sem var alltaf til staðar fyrir okkur.

Mamma var öguð, hlý og ástkær móðir sem var alltaf til í að hjálpa. Hún var mjög iðin; saumaði, prjónaði, súrsaði og saltaði kjöt og lambarúllupylsu, einnig bjó hún til krem og hárnæringu úr íslenskum jurtum og þara. Þetta er einungis brot af því sem hún tók sér fyrir hendur. Hún gaf mikið af sér, t.d. bakaði hún einu sinni í viku fyrir félaga sína í Breiðabliki og þar var hún einnig með sinn spilahóp, þau spiluðu vist. Endrum og sinnum tók ég í spilastokkinn með þeim, þá var ávallt mikið hlegið og gantast í þessum skemmtilega hópi.

Við mamma spiluðum mikið saman eftir að ég flutti aftur á heimaslóðir 2017. Við spiluðum aðallega skrafl þessi síðustu ár og spjölluðum í leiðinni um markmið okkar, hvernig okkur gengi og líðanina svo eitthvað sé nefnt. Ég ólst upp á heimili þar sem var mikið spilað og spjallað og var það mamma sem kveikti áhugann á spilamennskunni og að ræða og takast á við ýmislegt sem við gegnum í gegnum.

Mamma hafði mikla unun af að lesa og seinna meir að hlusta á sögur. Í lokin hlustuðum við mamma á sögur, ein af þessum sögum var „Korku saga“. Sagan er í tveimur löngum hlutum og hafði mamma miklar áhyggjur af að við næðum ekki að klára hana, enda þótti henni sagan mjög skemmtileg. Við hlustuðum á tvo til þrjá kafla á dag, fór það eftir líðan og orku hennar hvern dag. Þegar við vorum nýbyrjaðar á henni eða búnar með fimm kafla segir hún: „Viktoría, við náum nú ekki að klára söguna, ég er að fara.“ Ég tjáði henni að við ættum ekki að gefa upp vonina og sjá bara til. Þegar níu kaflar voru eftir var hún orðin ansi lúin og hafði miklar áhyggjur af að við næðum ekki að klára, enda vildi hún ekki yfirgefa þennan heim án þess að klára Korku sögu. Þegar ég sagði nokkrum ættingjum frá þessu höfðu þau orð á því hvort ég gæti ekki sagt að það væru tuttugu kaflar eftir til þess að hún myndi tóra lengur!

Mamma var á sinn hátt mikill umhverfissinni, það fór ekkert til spillis, hún ræktaði mikið grænmeti fyrir heimilið og gerði margt og mikið frá grunni. Þegar ég var unglingur fór hún á námskeið til að styrkja sig og takast á við forna drauga. Hún fór meðal annars í hugleiðslu og námskeið til að læra á og nýta betur það sem náttúran gefur af sér. Þá fór hún að búa til húð- og hárvörur úr íslenskum jurtum og þara sem við notuðum heima. Þessa nýtni hef ég fengið í veganesti og er því ævinlega þakklát. Dæmi um nýtni hennar var að hún tók ekki annað í mál en að vera jörðuð í gömlum og lúnum náttkjól. Hún hafði það samt á orði við mig að það væri stórt gat aftan á kjólnum og við þyrftum að gera við það. Annað sem hún skilur eftir sig er vandvirkni og að standa okkar vaktir.

Þegar ég var á barnsaldri fór mamma að vinna hjá Síldarvinnslunni og var þar á borði og síðar í eftirliti. Seinna flutti hún sig yfir í eldhúsið á Fjórðungssjúkrahúsinu. Hún var ávallt vel liðin í vinnu, bæði vegna dugnaðar og sem góður vinnufélagi. Mér þótti allavega alltaf mjög vænt um það þegar stúlkur/konur á mínum aldri, sem unnu með henni, tjáðu mér hvað mamma væri skemmtilegur og góður félagi.

Að lokum: Elsku mamma, þú varst stoð mín og stytta og útkoman er ég, sem stend upprétt og stolt. Þú varst mér góð móðir og vinur.

Viktoría Gilsdóttir.

Elsku mamma, Guðný Sigurðardóttir, er látin. Hún fæddist 21. mars 1936 í Neskaupstað, þar sem hún bjó alla sína ævi. Foreldrar hennar voru Sigurður Björgvin Sigurðarson frá Njarðvík N-Múlasýslu og Margrét Bjarnadóttir frá Hólabrekku A-Skaftafellssýslu. Mamma var elst fimm systkina, en tvö af þeim dóu á ungum aldri.

Mikil fátækt var á æskuheimili mömmu. Hana langaði alltaf að mennta sig og verða hjúkrunarkona en það átti ekki eftir að gerast því hún þurfti að hætta skólagöngu þegar sem barn og hjálpa til á heimilinu. Hún var ætíð ósátt við að geta ekki menntað sig og var óspör í hvatningu við okkur börnin sín til áframhaldandi náms.

Mamma flutti 1953 á æskuheimili pabba, Kristjáns Gils Sveinþórssonar, Tröllanes. Þau giftu sig 1955. Á Tröllanesi bjuggu saman fjórar kynslóðir. Við þrjú elstu systkinin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að upplifa það, með öllum þeim kostum sem því fylgdi. Alls urðum við systkinin sjö: Anna Sigurbjörg, f. 1955, Jófríður, f. 1956, Sveinþór, f. 1958, Margrét, f. 1967, Sigurður Magnús, f. 1970, Viktoría, f. 1971, og Guðmundur Freyr, f. 1975.

Mamma var mikil búkona og hugsaði vel um okkur börnin sín. Hún hafði mikla ánægju af matargerð, bakstri og saumaskap. Það var því góður matur á heimilinu og ný jólaföt á okkur krakkana hver einustu jól. Mamma var alltaf nýtin bæði með mat og annað, þeim eiginleikum náði hún að miðla okkur börnum sínum og er ég henni ómetanlega þakklát fyrir það.

Það var oft tekið í spil á heimilinu og glatt á hjalla. Mamma hafði unun af spilamennsku og hélt því áfram þrátt fyrir að hún væri nánast orðin blind síðustu árin. Jafnvel þegar ljóst var hvert stefndi innan við tveimur vikum áður en hún lést stóðst hún ekki mátið og tók í spil þar sem boðið var upp á.

Mamma vann ekki stöðugt úti enda stórt heimili að hugsa um. Hún vann þó gjarnan úti þegar voru uppgrip, eins og við síldarsöltun og fleira því um líkt. Hún var sterkbyggð og dugleg og enginn svikinn af að fá hana í vinnu. Hún var m.a. valin í að velta til fullum tunnum og fylla á þær pækil fyrir útflutning, verk sem var yfirleitt sett í hendurnar á karlmönnum. Þegar börnin voru flogin úr hreiðrinu fór hún að vinna stöðugri vinnu, m.a. í eldhúsinu á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.

Stórfjölskyldan á Tröllanesi var býsna sjálfbær með mat, átti þrjá kartöflu/grænmetisgarða, hafði hænsni, var með smáútgerð, fiskaði og vann upp hákarl meðan sjómennskan var stunduð á heimilinu, ræktaði jarðarber, fór í berjaferðir á haustin, safnaði inn forða og bjó til saft og sultur. Mamma naut sín alltaf við þessi verk, enda mikil búkona. Hún gerði síðast slátur haustið 2021, hún lagði það aldrei á hilluna þrátt fyrir að vera orðin öldruð og ein í heimili. Nutu margir góðs af því að vera boðið í mat til hennar.

Elsku mamma, hvíl þú í friði, við hliðina á elsku pabba. Þið eruð elskuð.

Anna SigurbjörgGilsdóttir.

Elsku Guðný amma, megir þú hvíla í friði.

Að alast upp í Ástralíu, svo langt í burtu frá heimalandi okkar, fannst okkur oft fjarlægðin svo mikil. En þegar kom að ást okkar til þín skipti hún engu máli. Við nutum þess að fá þig í heimsókn og síðan að koma til Íslands og heimsækja þig.

Við elskuðum eldamennskuna þína, hláturinn þinn, að spila við þig og faðmlögin þín. Ég fann fyrir umhyggjunni og ástinni frá þér, ásamt miklum skilningi. Ég er svo þakklát fyrir þær stundir sem ég átti með þér. Ég vildi að þú hefðir tækifæri til að hitta börnin mín í eigin persónu en ég elska að þú gast hitt þau í gegnum Skype. Þau þekkja og elska langömmu sína og þú ert alltaf í hjörtum okkar og minning þín lifir.

Emily Saxey.