Albert Guðmundsson fæddist 9. maí 1952. Hann lést 10. nóvember 2022. Útför fór fram 5. desember 2022.

Kær vinur okkar er fallinn frá eftir snarpa baráttu við erfið veikindi. Við kynntumst Alberti hvort í sínu lagi, á ýmsum tímum og frá mörgum hliðum. Á æskuárum kom hann stundum í heimsókn frá Ísafirði í Víkina að hitta frændur sína og frænkur. Þar vakti þessi glæsilegi hávaxni ungi maður athygli. Síðar, að loknu stúdentsprófi í MA, lá leið hans í verkfræðinám við Háskóla Íslands. Þar var eftir honum tekið af öðrum verkfræðinemum, þótt náin kynni hæfust ekki strax. Albert kom til náms í HÍ með reynslu af því að æfa körfubolta fyrir norðan og hann hélt áfram að æfa körfubolta með Íþróttafélagi stúdenta, þar sem Gréta stundaði körfuna í kvennaliðinu.

Að loknu framhaldsnámi í Þýskalandi hóf Albert störf hjá RARIK. Þar lágu leiðir aftur saman. Fljótlega hófst samvera við veiðiskap á bökkum laxveiðiáa, aðallega Hítarár á Mýrum. Albert var fenginn til liðs við Landsvirkjun frá RARIK fyrir um 25 árum, þegar fram undan var mikil uppbygging á flutningslínum fyrirtækisins. Enn nánara samstarf hófst með Alberti þegar Stangaveiðifélag Reykjavíkur tók Hítará á leigu og við nokkrir félagar tókum að okkur að vera í árnefnd félagsins. Ekki má gleyma öllum þeim ferðum sem hópur vina fór saman á Hornstrandir og víðar.

Albert var mjög vandvirkur í öllu sem viðkom þeim verkefnum sem hann leysti á sínum starfsferli. Hann var mikill fagmaður í sínu starfi sem verkfræðingur og verkefnisstjóri, með mikla þekkingu á byggingu háspennulína og vatnsaflsvirkjana. Hann gerði sitt besta til að ná niðurstöðu sem hagaðilar gátu sætt sig við, en það gat verið vandasamt. Það var afar ánægjulegt að starfa með honum og njóta hvatningar og ráðlegginga, sem stundum þurfti með til að leysa vel úr ýmsum álitamálum. Það sem einkenndi hann var vinnusemi og hjálpsemi. Hann bar umhyggju fyrir samferðafólki sínu. Hann hafði oft ákveðnar hugmyndir um það hvernig best væri að vinna verkefnin en var um leið ávallt tilbúinn að ræða aðrar lausnir til að finna bestu leiðina.

Það er erfitt að kynnast mönnum betur en að stunda með þeim veiðar. Í veiðiskapnum og í árnefndarstörfunum kom vel í ljós þessi hjálpsemi og létta skap Alberts. Þar kom líka vel í ljós þetta ljúfa keppnisskap Alberts, sem alltaf vildi alltaf ná lengra í sinni íþrótt sem og í starfi. Hann var slyngur veiðimaður og naut sín vel við ána og aflaði oft vel.

Í öllum þessum samskiptum kynntumst við henni Önnu, sem stóð við hlið Alberts allan tímann og var honum mikil stoð og stytta og einnig undir lokin þegar hann í vor veiktist skyndilega og óvænt, um það leyti sem hann ætlaði að hætta að vinna. Í stað þess að halda af stað út í vorið og njóta lífsins tók við hjá honum erfið rannsókn og sjúkrameðferð, sem nú er lokið.

Að leiðarlokum þökkum við fyrir að hafa kynnst öðlingnum Alberti. Þau kynni hafa verið mjög ljúf og ánægjuleg. Þarna fór góður drengur. Hann kvaddi okkur allt of snemma og verður mikið saknað. Við sendum Önnu, börnum þeirra og nýfæddum barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Edvard G. Guðnason og Gréta Benný Eiríksdóttir.

Í dag kveðjum við kæran vinnufélaga, Albert Guðmundsson verkfræðing og verkefnisstjóra hjá Landsvirkjun. Við höfum starfað náið saman á undanförnum áratugum að margs konar verkefnum, stórum og smáum. Vinnudagarnir okkar byrjuðu gjarnan á léttu spjalli um lífið og tilveruna, íþróttir, orkubransann og þau verkefni sem við glímdum við þá stundina. Albert hafði forskot á okkur í aldri og var óspar á að miðla af reynslu sinni og gefa okkur hinum góð ráð. Þetta var gott veganesti til að byrja vinnudaginn.

Albert hóf störf á Landsvirkjun árið 1997 eftir að hafa starfað hjá Rarik frá námslokum, aðallega við uppbyggingu á dreifikerfi raforku. Meðal fyrstu verkefna hans hjá Landsvirkjun var verkefnisstjórn með hönnun og byggingu á nýjum háspennulínum frá Búrfellsvirkjun upp á Mosfellsheiði og frá Kárahnjúkavirkjun að álverinu í Reyðarfirði. Í báðum tilfellum umfangsmikil og flókin verkefni sem Albert leysti á farsælan hátt. Verkefni Alberts einskorðuðust þó ekki eingöngu við flutningskerfið heldur voru fjölbreytt á sviði rannsókna, undirbúnings virkjana og framkvæmda. Albert var m.a. verkefnisstjóri við mat á umhverfisáhrifum fyrir Búðarhálsvirkjun, hann undirbjó og bauð út fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar og var verkefnisstjóri við hönnun og útboð á stækkun Búrfellsstöðvar. Auk þessara verkefna tók Albert þátt í mörgum verkefnum af öllum stærðum og gerðum. Í þessum verkefnum nýttust einstakir hæfileikar Alberts við að halda utan um mismunandi hópa af sérfræðingum sem unnu við úrlausn flókinna úrlausnarefna og ávallt tókst honum að draga fram það besta og jákvæða í fari hvers og eins.

Albert var myndarlegur maður, hávaxinn og hraustlegur og nú á seinni árum með áberandi hvítt og mikið hár. Hann stundaði alla tíð útivist, stangveiði, skíðagöngu og fátt haggaði því að hann hjólaði í vinnuna á sumrin og notaði strætó yfir vetrarmánuðina. Albert var Ísfirðingur, stoltur af uppruna sínum og vitnaði oft til æskustöðvanna og ævintýranna sem þar gerðust. Albert var alla tíð vinnusamur og afkastamikill. Hann var einstaklega jákvæður og hláturmildur og skapaði í kringum sig skemmtilegt og gott vinnuumhverfi. Að vinna með Alberti var einstaklega ánægjulegt.

Við kveðjum Albert með söknuði og vottum Önnu og fjölskyldu hennar innilega samúð.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, Guðlaugur Þórarinsson og Helgi

Jóhannesson.

Í dag kveðjum við Albert Guðmundsson, vin okkar, veiðifélaga og samstarfsmann. Við Albert vorum jafnaldrar, vorum samtímis í Háskólanum hvor í sinni verkfræðigreininni en störfuðum síðan báðir í orkugeiranum á því mikla uppbyggingarskeiði sem hófst í kjölfar olíukreppunnar seint á 8. áratugnum með lagningu byggðalína og þar með samtengingu landshluta til að útrýma raforkuframleiðslu með olíu. Sú reynsla sem þar fékkst var gott veganesti inn í framtíðina.

Hópur ungra manna í orkugeiranum fór að stunda laxveiði saman upp úr 1980 og voru margir að stíga sín fyrstu spor í því sporti. Í þeim hópi vorum við Albert og fór hópurinn saman í veiði í meira en 30 ár, oftast í Hítará. Þá vorum við saman í árnefnd fyrir Hítará eftir að Stangaveiðifélag Reykjavíkur tók ána á leigu. Albert var góður veiðimaður og úrræðagóður um viðhald veiðihúsanna við Hítará í árnefndarvinnunni. Af samveru við veiði og í árnefnd myndaðist traustur vinskapur sem aldrei bar skugga á.

Það var á tíunda áratugnum að leiðir okkar Alberts lágu saman í vinnu við undirbúning og hönnun nýrrar kynslóðar háspennulína Landsvirkjunar. Albert var verkefnisstjóri loftlínuhönnunar og –framkvæmda hjá Landsvirkjun og kom þá vel fram hversu umhugað honum var um vönduð og fagleg vinnubrögð. Átti það bæði við um verkfræðilega hönnun og umhverfisþætti framkvæmdanna. Hann lagði sig fram um að ná sátt við landeigendur og náttúruverndarfólk um línuleiðir og gerð mannvirkja, jafnframt því að ekki var gefið eftir í kröfum um áreiðanleika mannvirkjanna.

Gamli veiðihópurinn heldur enn saman og hefur í mörg ár hist vikulega, drukkið kaffi saman og rætt landsins gagn og nauðsynjar, einkum þó orkumálin. Þrátt fyrir erfið veikindi kom Albert á kaffifundi í sumar og var það okkur dýrmætt að eiga með honum þær stundir.

Á svo langri leið kynnast menn vel og við minnumst margra góðra samverustunda sem við áttum með Alberti og Önnu við Hítará, á Hornströndum og í París þar sem við báðir sóttum ráðstefnur í raforkumálum. Albert var mikið ljúfmenni og hafði góða nærveru og við kveðjum hann með söknuði. Hugur okkar er hjá Önnu Þórunni, börnum og barnabörnum.

Jón Bergmundsson

og Þórunn.

Fyrir 50 árum, haustið 1972, hóf Albert ásamt 11 öðrum strákum nám í byggingarverkfræði við HÍ. Við vorum þá flestir að hittast í fyrsta sinn en tveir okkar höfðu þó verið bekkjarfélagar hans í MA. Hópurinn varð strax samrýndur og myndaði sterk vinabönd sem aldrei hafa slitnað. Við fengum til umráða stofu í aðalbyggingu HÍ þar sem við vörðum saman mestum hluta sólarhringsins við nám, verkefnavinnu og samveru. Oft var fjörugt hjá okkur og mikið spáð og spekúlerað. Okkur urðu strax ljósir miklir mannkostir Alberts. Hann hafði góða nærveru og var ljúfur í samstarfi. Hann var orðvar og fékkst aldrei til að hallmæla nokkrum manni, frekar brosti hann eða kímdi á sinn milda hátt. Albert sinnti náminu vel en gaf sér einnig tíma til að stunda íþróttir. Að öðrum ólöstuðum var hann langmesti íþróttamaðurinn í hópnum. Sem unglingur á Ísafirði hafði hann keppt á skíðum og í fótbolta en þegar í HÍ kom tók körfuboltinn yfir og keppti hann með ÍS í efstu deild.

Undir lok verkfræðinámsins á Íslandi kynntist Albert sínum góða lífsförunaut, Önnu Sveinsdóttur, og eftir það voru nöfn þeirra yfirleitt samtvinnuð í vinahópnum, Anna og Albert. Að fengnu lokaprófi frá HÍ árið 1976 fóru flestir okkar til framhaldsnáms á Norðurlöndunum en Anna og Albert völdu að fara til Aachen í Þýskalandi. Við félagarnir og makar skiptumst þá á heimsóknum í útlandinu og ávallt var frábært að vera í Aachen. Að loknu framhaldsnámi kom Albert heim og helgaði íslensku raforkukerfi starfskrafta sína til æviloka, fyrst hjá RARIK en síðar hjá Landsvirkjun. Það var mjög gaman að heyra hann segja frá verkefnum sem hann var að vinna við, hann naut sín mjög í starfi, var sáttur og vel virtur.

Í gegnum tíðina höfum við skólafélagarnir og makar komið oft saman og ávallt var Albert hrókur alls fagnaðar. Síðast komum við saman eina helgi nú í byrjun sumars. Albert, sem þá var orðinn veikur, hlakkaði mikið til samverunnar en þegar á hólminn kom höfðu veikindin yfirhöndina og hann varð að boða forföll. En Albert kunni að forgangsraða, fjölskyldan var númer eitt. Hann náði því í haust að heimsækja Barböru dóttur sína til Englands og sjá nýfæddu tvíburana hennar, fyrstu barnabörnin. Þessi hinsta utanlandsför Alberts var honum og fjölskyldunni mjög dýrmæt.

Við skólafélagarnir ásamt mökum viljum votta Önnu, Þór, Barböru og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Megi minningin um ljúfan og heiðarlegan dreng og góðan félaga lengi lifa.

Gísli, Hafsteinn, Haukur, Hermann, Indriði,

Jónas S., Jónas V., Níels, Sigurður og Steindór.

Með Alberti Guðmundssyni er genginn traustur félagsmaður Verkfræðingafélags Íslands. Albert gekk til liðs við Verkfræðingafélagið strax að loknu námi í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 1976. Að loknu námi á Íslandi fór hann til Þýskalands og stundaði þar framhaldsnám við Rheinisch-Westfälische Technische Hochschule í Aachen árin 1976-78. Að námi loknu hóf hann störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins sem yfirverkfræðingur mannvirkjadeildar og þar lágu leiðir okkar Alberts saman í fyrsta sinn árið 1987. Ég var þá nýútskrifaður rafmagnsverkfræðingur í verkefnavinnu fyrir RARIK. Albert sagði mér til og fræddi mig um allt mögulegt er varðaði raforkudreifikerfið, mannvirki hvers konar, línur, spennistöðvar og fleira.

Árið 2003 var Albert fenginn til þess að taka sæti í húsnefnd Verkfræðingafélagsins sökum viðtækrar reynslu af mannvirkjagerð. Húseign félagsins við Engjateig 9 hefur verið kjölfesta í starfi félagsins frá því húsið var byggt af stórhuga eldri félagsmönnum. Við sem yngri erum höfum notið þess alla tíð síðan að eiga trausta og örugga umgjörð um allt starf félagsins. Albert reyndist félaginu afar vel í störfum sínum í húsnefndinni og lagði ætíð gott til málanna. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að reka fasteign félagsins og ýmis fjárfrek verkefni hefur þurft að leysa og ekki augljóst hvernig farið yrði að. Albert var fundvís á það sem betur mátti fara og úrræðagóður. Hann var einnig mannasættir, hafði gott lag á fólki og náði iðulega að leiða mál til farsælla lykta. Hann hafði einstakt lag á því að sætta ólík sjónarmið og finna bestu lausn í þágu hagsmuna félagsins. Fyrir það verðum við hjá Verkfræðingafélaginu ævinlega þakklát.

Á persónulegum nótum langar mig einnig að minnast kynna okkar Alberts sem sveitunga á Seltjarnarnesi í áratugi. Iðulega hittumst við Albert á göngu um Nesið og oft var Anna Þórunn eiginkona hans með í för. Það hefur alltaf verið notalegt að rekast á þau hjón í daglegu amstri á Nesinu, í innkaupum eða í hvers konar erindagjörðum. Þá höfum við náð að skiptast á kveðjum og fréttum úr faginu, enda alltaf eitthvað spennandi að gerast hjá okkur verkfræðingum. Ég mun sakna Alberts úr félagsstarfi Verkfræðingafélagins og úr samfélagi okkar íbúa á Seltjarnarnesi, þar sem mannlífið er náið og kannski svolítið sveitalegt – í bestu merkingu orðsins. Ég sé fyrir mér andlit Alberts sem brosir á sinn kankvísa hátt þegar við hittumst, brosi sem ávallt náði til augnanna.

Albert var vandaður maður, vel að sér og velviljaður. Ég minnist Alberts með hlýju og votta eiginkonu hans, fjölskyldu og aðstandendum öllum innilega samúð.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.