Sigríður Ásta Örnólfsdóttir fæddist 12. ágúst 1946. Hún lést 26. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 7. desember 2022.

Við fráfall æskuvinkonu minnar, Sigríðar Ástu Örnólfsdóttur, hvarflar hugurinn til Langholtsvegar um miðja síðustu öld. Húsin okkar stóðu hlið við hlið við Langholtsveginn. Á Langholtsvegi 20 var Sigga yngst í stórum systkinahópi. Þar var oft glatt á hjalla enda var fjölskyldan einstaklega söngelsk. Húsmóðirin, Ragnhildur, spilaði á píanóið og leiddi sönginn með sinni fögru rödd. Á milli jóla og nýárs buðu Ragnhildur og Örnólfur börnum úr nágrenninu í jólaboð þar sem var sungið og dansað kringum jólatré í stofunni og Ragnhildur spilaði öll jólalögin. Sigga hafði fallega rödd og tók af mikilli ánægju undir í söngnum en ekki vildi hún þó ljá máls á því síðar að syngja í kór sem ég hvatti hana oft til.

Barnmargt var í hverfinu á þessum tíma og lékum við okkur mikið úti í alls kyns leikjum. Fyrir ofan húsin var opið grýtt svæði sem var algjör paradís fyrir leiki okkar. Þar vorum við Sigga oft að bralla. Á veturna renndum við okkur á skautum og skíðum í Vatnagörðunum. Er ég flutti undir lok 6. áratugarins urðu samskiptin stopulli en aldrei slitnaði þó þráðurinn og tók Sigga oft þátt í fjölskylduboðum okkar.

Eftir að Sigga lauk gagnfræðaskólanámi fór hún sem AFS-skiptinemi til Bandaríkjanna. Hún átti góða og skemmtilega daga þar umkringd aðdáendum enda var hún gullfalleg og glæsileg. Heimkomin naut hún sín vel í starfi hlaðfreyju á Keflavíkurflugvelli og hefur án efa verið elskulegur og góður starfsmaður. Falleg mynd af henni í því starfi prýddi fyrir nokkrum árum burðarpoka sem Icelandair var með í sölu.

Ég minnist þeirra góðu daga sem við áttum í París fyrir tæpum tuttugu árum er hún kom í heimsókn til mín þar. Fórum við vítt og breitt á merka staði borgarinnar og heimsóttum líka Versalahöll. Þá hafði Sigga lítið farið til útlanda um langt árabil og varð þessi ferð henni mikil og góð upplifun.

Sigga átti við heilsubrest að stríða um langt árabil en eftir fæðingu einkasonarins, Örnólfs Þórs, sinnti hún uppeldi hans af mikilli natni og dugnaði og bjó þeim gott og fallegt heimili í Reykjavík. Hún var stolt og þrautseig. Úlla systir hennar var henni alltaf mikil stoð og stytta, ekki síst í veikindunum síðustu árin.

Ég kveð góða æskuvinkonu og votta Örnólfi Þór og öðrum aðstandendum samúð mína. Blessuð sé minning Siggu.

Guðný Helgadóttir.