Böðvar Magnússon fæddist 9. mars 1940 í Miðdal í Laugardal. Hann lést á Landspítala Fossvogi í Reykjavík 26. nóvember 2022.

Foreldrar Böðvars voru Aðalbjörg Haraldsdóttir, f. 22.4. 1899, d. 21.8. 1992, og Magnús Böðvarsson, f. 18.6. 1902, d. 12.11. 1971, bændur í Miðdal í Laugardal. Systir Böðvars var Ásrún, f. 23.12. 1934, d. 26.11. 2005, gift Skúla Guðjónssyni, f. 26.2. 1929, d. 30.11. 2015. Börn þeirra eru Magnús, Kolbrún og Aðalbjörg.

Eiginkona Böðvars er Sigrún Guðmundsdóttir, f. 23.9. 1942, myndhöggvari. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 23.8. 1914, d. 13.6. 1998, áhugaljósmyndari og Guðmundur Jensson, f. 3.7. 1917, d. 30.8. 1998, rafvélavirkjameistari. Börn Böðvars og Sigrúnar eru Magnús, f. 17.10. 1975, múrarameistari, og Ingibjörg, f. 12.5. 1977, framhaldsskólakennari, gift Jesús Loayza, f. 24.2. 1972, synir þeirra eru Böðvar Manuel, f. 29.7. 2014, og Víctor Rúnar, f. 13.7. 2016.

Böðvar ólst upp í Miðdal í Laugardal og lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Hann hóf störf hjá Búnaðarbanka Íslands árið 1959 og starfaði þar í rösklega 41 ár eða til ársins 2000. Frá árinu 1982 var Böðvar útibússtjóri fyrst í Háaleitisútibúi, síðar í Austurbæjarútibúi og að lokum í Miðbæjarútibúi. Árið 2000 tók hann til starfa á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann var umsjónarmaður með félagsstarfi og stofnaði meðal annars Hrafnistukórinn og DAS-bandið.

Útför hans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 9. desember 2022, klukkan 13.

Böðvar móðurbróðir okkar er látinn. Við minnumst Böðvars með hlýjum og góðum minningum. Alltaf var hann einstaklega áhugasamur um allt sem við og fjölskyldur okkar höfum tekist á hendur og brást við því öllu af jákvæðni og einskærum spenningi þannig að maður varð alltaf upprifinn og fylltur af eldmóði eftir að hafa rætt málin við hann. Böðvar og mamma voru alla tíð mjög samrýnd systkini þótt rúmlega fimm ár hafi verið á milli þeirra. Hversu ótrúlegt sem það er þá er dánardagurinn þeirra sá sami með sautján ára millibili. Það hlýtur að vera til merkis um sterkt samband þeirra á milli.

Þegar við vorum yngri var nú ekki vandamálið að taka á móti okkur systkinunum og fara með okkur, hvort sem var til lækna eða í aðrar útréttingar í höfuðborginni, þótt hann þyrfti að taka sér frí frá vinnu heilu og hálfu dagana eins og þegar hann fór með Kollu til tannréttingasérfræðings og það tók allan daginn. Þegar Abba lá fótbrotin á sjúkrahúsi í sjö vikur, þriggja ára gömul, þá fór mamma, sem ekki var með bílpróf á þeim tíma, með rútunni til Reykjavíkur á hverjum degi og Böðvar sótti hana á rútuna og keyrði hana svo á BSÍ á kvöldin til að ná síðustu rútunni heim. Þá fór hann oft ýmissa erinda fyrir mömmu í borginni, til dæmis að kaupa leikföng handa okkur í jólagjafir sem eflaust voru valdar af veglegri gerðinni þar sem hann átti í hlut. Alltaf fannst Böðvari þetta allt vera sjálfsagður hlutur. Þá voru ófáar samverustundirnar á Laugarvatni þegar þau systkinin og makar byggðu sumarbústaðinn á Skógarholti en það var mikið verkefni og allt meira og minna unnið af þeim sjálfum. Þá hélt allur mannskapurinn til í kjallaranum eða í Laugarnesi hjá Aðalbjörgu ömmu og þau systkinin spiluðu þá gjarnan til skiptis á orgelið eða Böðvar spilaði á harmonikkuna en hann var einstaklega liðtækur á hana og mjög músíkalskur. Abba fór einnig í útilegur og ferðalög með þeim Böðvari, Sigrúnu, Ingu og Magga sem seint líða úr minni.

Elsku Sigrún, Magnús, Ingibjörg, Jesús, Böðvar Manuel og Victor Rúnar, við sendum okkar allra bestu samúðarkveðjur. Minning um góðan mann og mikinn uppáhaldsfrænda lifir.

Magnús, Kolbrún og

Aðalbjörg Skúlabörn.

Böðvar byrjaði ungur að vinna í Búnaðarbankanum og starfaði þar í nokkrum útibúum í gegnum tíðina. Við kynntumst þessum heiðursmanni þegar hann varð útibússtjóri Háaleitisútibús. Þar var alltaf gaman að mæta í vinnuna, stór hópur starfsfólks á öllum aldri. Böðvar var einstakur samstarfsfélagi og yfirmaður sem hafði lag á því að láta öllum líða vel í kringum sig, bæði starfsfólki og viðskiptavinum. Útibúið stækkaði ört á þessum árum og viðskiptavinum fjölgaði, þetta góða andrúmsloft smitaði út frá sér.

Böðvar var frumkvöðull varðandi bankaþjónustu við fatlaða og aldraða. Nokkra daga í viku var farið á hina ýmsu staði í nágrenni útibúsins í þeim erindagjörðum að þjónusta fólk sem átti erfitt með að komast í bankann.

Við eigum margar góðar minningar um Böðvar. Á þessum árum var margt ungt fólk að vinna í útibúinu og þegar eitthvað stóð til var Böðvar mættur með gítarinn eða harmonikkuna tilbúinn að taka þátt í gleðinni, hrókur alls fagnaðar. Í fjöldamörg ár hafa Böðvar og Sigrún boðið okkur fyrrverandi vinnufélögum í sumarbústaðinn sinn á Laugarvatni. Fyrst var farið í gönguferðir sem Böðvar skipulagði og í leiðinni fengum við fræðandi sögur enda var hann uppfullur af fróðleik um sína heimasveit. Eftir gönguna var kveikt upp í grillunum og mikil stemning myndaðist, harmonikkan og söngtextarnir dregnir fram og kvöldin enduðu með söng og gleði sem oftar en ekki stóð langt fram á nætur.

Við kveðjum góðan vin og vinnufélaga og vottum Sigrúnu eiginkonu hans og fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð.

F.h. samstarfsfélaga í 313,

Þuríður, Silvía og Rósa.