Guðmundur Kr. Guðmundsson fæddist í Reykjavík 16. maí 1937. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 13. nóvember 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Ragnhildur Jónsdóttir, f. 1894 í Hjarðarholti í Stafholtstungum, d. 1973, og Guðmundur Kristinn Guðmundsson, f. 1890 á Urriðafossi í Árnessýslu, d. 1976. Systkin Guðmundar voru Sigríður Svava, f. 1917, d. 1989, Kristín, f. 1923, d. 2016, og Jón Haukur, f. 1928, d. 1935.

Hinn 10. ágúst 1961 giftist Guðmundur eiginkonu sinni, Ólöfu Sylvíu Magnúsdóttur, húsmóður, f. 1940, d. 2020. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Kristinn, f. 1964, unnusta Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, f. 1978, börn hans eru Kjartan Thor, f. 2001, Lárus Óli, f. 2004, og Eylíf, f. 2016, sonur Kjartans er Malio, f. 2017. 2) Guðrún Jóhanna, f. 1966, eiginmaður hennar er Halldór Ingi Guðmundsson, f. 1964, dóttir Hildur Guðrún, f. 1987, eiginmaður hennar er Styrmir Sigurðsson, f. 1987, börn þeirra eru Breki Rafn, f. 2013, og Ronja Röfn, f. 2017. 3) Dögg, f. 1970, eiginmaður hennar er Haukur Jens Jacobsen, f. 1969, synir þeirra eru Kristinn Haukur, f. 2004, og Óskar Örn, f. 2008, dóttir Hauks er Helena, f. 1992, dóttir hennar er Hrafnhildur Eyrún, f. 2010.

Guðmundur ólst upp í miðbæ Reykjavíkur. Hann gekk í Ísaksskóla, Miðbæjarskólann, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og varð svo stúdent frá MR 1957. Eftir stúdentspróf hélt hann til Stuttgart í Þýskalandi í nám í arkitektúr í Technische Hochschule og útskrifaðist þaðan 1963. Eftir heimkomu starfaði hann hjá Skarphéðni Jóhannssyni til 1967. Eftir það var hann var sjálfstætt starfandi og svo í samstarfi með Ólafi Sigurðssyni frá 1970. Hann var einn af stofnendum og stjórnarformaður teiknistofunnar Arkþings frá 1991.

Guðmundur starfaði fyrir opinbera aðila, íþróttafélög og aðra að skipulagsmálum og hönnun mannvirkja. Hann sat í stjórn Arkitektafélags Íslands og í ýmsum nefndum félagsins og dómnefndum. Af þeim mannvirkjum sem Guðmundur hefur hannað má nefna: Hús Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg, Hús Mjólkursamsölunnar að Bitruhálsi, Borgarleikhúsið, ýmsar dagvistunarstofnanir og leikskóla um land allt, hverfisbækistöðvar, ýmis einbýlishús og raðhús í Reykjavík og víðar.

Hann tók vikan þátt í uppbyggingu skíðaíþróttarinnar hér á landi, til að mynda í Kerlingafjöllum og hjá öðrum skíðafélögum víða um land. Hann fór margoft til Austurríkis og Ítalíu á skíði og tók þátt í að móta og vera fararstjóri í fyrstu skipulögðu ferðunum þangað.

Útför Guðmundar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. desember 2022, kl. 12.

Í dag kveðjum við elsku pabba okkar með hlýju og þakklæti. Hann og mamma veittu okkur góða æsku og fallegt og gott heimili í Hellulandinu, verkaskiptingin var skýr, pabbi vann mikið og mamma sá um heimilið. Okkar dýrmætustu stundir með pabba voru á ferðalögum. Hann elskaði að vera á skíðum og fórum við fjölskyldan á sumrin í Kerlingarfjöll og á veturna til Akureyrar með skemmtilegum vinum. Seinna fengum við svo að fara með á skíði til útlanda. Við minnumst þessara ferða með gleði í hjarta og erum þakklát pabba fyrir að kynna okkur skíðaíþróttina sem við öll höfum mikla ánægju af eins og hann. Pabbi sagði frá því stoltur nú síðustu árin að hann hefði farið yfir 60 sinnum í Alpana og ljómaði þegar hann rifjaði þessar ferðir upp.

Pabbi var lífsglaður og félagslyndur maður sem átti trausta vini sem hann hitti reglulega í hádegismat og kaffi fram á síðasta dag, þó svo að heilsan væri orðin léleg þá hlakkaði hann alltaf til að hitta vinina. Við munum eftir samkomum á heimili okkar í æsku þar sem „Menningin“ hittist, fimm nánir æskuvinir úr miðbænum. Þá var dregið fram forláta spilaborð frá afa Guðmundi, en minnst var spilað á spill, heldur var tónlistin í forgrunni, þar sem jazz og klassísk var spiluð og brotin til mergjar. Þetta var skemmtilegur félagsskapur, mikið hlegið, tónlistin stillt hátt og margt brallað. Eitt kvöldið tóku þeir upp því á að hringja í Gerry Mulligan jazztónlistarmann, hann var ekki heima en konan sem svaraði í símann vildi fá að skilja eftir skilaboð til átrúnaðargoðsins. Þetta var eitt af þeim uppátækjum sem komu þeim alltaf í gott skap þegar þau voru rifjuð upp.

Á námsárunum í Stuttgart upplifði pabbi tónlist allra helstu jazztónlistarmanna sögunnar, nýtt tónlistarhús, Liederhalle, bauð stúdentum ódýra miða. Eitt kvöldið nýtti hann laust sæti nánast uppi á svið umkringdur fullt af frægu tónlistarfólki, m.a. sat Ray Brown við hliðina á honum, fyrrverandi eiginmaður Ellu Fitzgerald sem var að troða upp þetta kvöld. Pabbi sat nánast við hliðina á henni þar sem hún söng, stór og glæsileg, og hafði hann oft á orði að það hefði verið tónlist í hverju einasta grammi á þessari hæfileikaríku konu.

Mamma og pabbi kynntust ung að árum, það var engin ládeyða í þeirra sambandi, þau voru samheldin og háð hvort öðru. Þau voru nútímahjón, ferðuðust mikið og kynntust framandi menningu, voru víðsýn og höfðu skoðanir á mönnum og málefnum. Þau lögðu mikið upp úr að við yrðum sjálfstæðir einstaklingar með eigin skoðanir. Pabbi saknaði mömmu mikið eftir að hún dó fyrir nærri tveimur árum og fór allt hratt niður á við hjá honum eftir það. Við systkinin náðum þó að fara í frábæra ferð til Stuttgart í vor þegar pabbi varð 85 ára, hann sýndi okkur borgina og rifjaði upp skemmtilega tíma á námsárum sínum.

Nú óskum við pabba góðrar ferðar og vitum að mamma tekur vel á móti honum, hvar sem þau mætast.

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið.

(Jónas Hallgrímsson)

Dögg, Guðrún og Guðmundur.

Foringinn er fallinn. Vaskir öldungar kveðja nú foringja sinn með virðingu og af miklu þakklæti. Vaskir öldungar eru leikfimishópur í Íþróttahúsi Háskóla Íslands, sem á sér langa sögu eða allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar og alltaf undir handleiðslu mætra þjálfara.

Guðmundir Kr. arkitekt eða Dundur eins og við félagar og vinir hans kölluðum hann hefur verið foringi hópsins um langt skeið og áfram þó heilsan aftraði þátttöku í íþróttunum, þá var hann áfram sannur foringi okkar og öll helstu málefni hópsins afgreidd með hans samþykki.

Dundur var góður leiðtogi, mikill húmoristi og glaðvær, framtakssamur og frumlegur, góðhjartaður og réttsýnn, en hikaði ekki við að leysa hnúta ef á þurfti að halda. Það gustaði af honum og menn urðu léttir í bragði við að fá hann í hús og heyra háreysti og gamanyrði. Jafnvel var hneggjað af gleði.

Hreyfing og útivist voru hans tómstundir. Þannig var aukadegi með körfuboltatímum bætt við leikfimina um tíma og þátttakendur fengu góða útrás fyrir keppnisskapið, en allir áfram vinir utan vallar. Hann var ötull skíðamaður og fór í ótal ferðir til Austurríkis, á stundum fleiri en eina og fleiri en tvær ferðir á vetri. Við sem vorum með honum í brekkunum í Kirchberg og Hanenkamm í Kitzbuhel eða hér heima í Skálafelli sáum að þarna var eins og ballerína svifi um, reyndar brosandi með mikinn barðastóran hatt. Sjáðu, þetta er ekki spurning um krafta heldur mýkt og léttleika án áreynslu, var haft eftir honum.

Vaskir öldungar stunduðu um árabil fjallgöngur í tengslum við útileguferðir í sumarhús eða skálana í Kerlingarfjöllum, stjörnuskoðun við Titt, kræklingatínslu í Hvalfirði, árleg þorrablót að ógleymdu Freyjukvöldi að vori í félagsheimilinu Hótel Sögu. Jafnan var söngur og gleði við völd. Dundur var oftar en ekki prímus mótor í skipulagi á þessum viðburðum, enda menntaður í Þýskalandi með menningarbrag og hátterni þarlendra í farteskinu. Á góðri stundu með handklæði um mittið á pallinum eftir leikfimi fuku nokkrir brandarar á þýsku og við Vaskir sannfærðumst af Dundi að Þjóðverjar hafa líka húmor.

Sá er hér heldur á penna þekkti af afspurn til okkar manns fyrir kynnin í Vöskum öldungum, því tengdaforeldrar Dunds vor bestu vinir tengdaforeldra minna. Svo mjög að Olla eiginkona Dunds var fengin um nokkra hríð til að passa og sjá um Ingu mína í frumbernsku. Á milli þeirra myndaðist mikill kærleikur, enda báðar tvær nokkuð líkir karakterar, hláturmildar, glaðværar og hressar, en vissu líka hvað þær vildu. Fékk Dundur á góðri stundu að heyra að við tveir byggjum við sama karakter heima fyrir og það væri Ollu að þakka. Svarið hans var breitt bros.

Við Vaskir öldungar kveðjum Guðmund Kr., foringja okkar, með söknuði. Áfram eigum við góða minningu og gleði í hjarta yfir að hafa fengið að eiga að vini og kynnast náið svo stórum og öflugum einstaklingi. Innilegar samúðarkveðjur sendum við fjölskyldunni.

Fyrir hönd Vaskra,

Kristján Jóhannsson.

Látinn er í Reykjavík Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt, 85 ára að aldri.

Dundur, eins og hann var jafnan kallaður, lauk námi í arkitektúr í Stuttgart 1963. Að loknu námi ytra starfaði hann til skamms tíma hjá mági sínum, Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt. Dundur rak sína eigin teiknistofu frá árinu 1967 til 1970, en upp úr því stofnaði hann teiknistofuna Arkitekta sf. með Ólafi Sigurðssyni arkitekt. Þeir félagar höfðu báðir hlotið menntun sína í Þýskalandi, eins og nokkur fjöldi félaga þeirra í stétt arkitekta á þeim tíma. Þeirra farsæla samvinna varði í 35 ár.

Það að aðstoða kollega við að koma heim bruggtækjum frá Danmörku til Íslands átti eftir að vera heilladrjúgur vinargreiði fyrir mig. Þessi kollegi minn launaði mér greiðann með því að nefna við Dund og Óla í jólaboði hjá arkitektunum Manfreð og Þorvaldi að ég, nýútskrifaður byggingarfræðingur, væri að leita að vinnu. Ég fékk símtal til Danmerkur fyrir jólin og nokkrum vikum síðar hóf ég störf hjá þeim kumpánum Dundi og Óla.

Dundur var mikill listamaður og frábær arkitekt. Hann var mér alla tíð mikil og stór fyrirmynd og ég lærði mikið af honum. Hann var frábær teiknari, hafði einstaklega góða tilfinningu fyrir hlutföllum og ég naut þess hvernig hann leysti fyrirkomulag bygginga og prjónaði það fallega saman við útlit þeirra.

Mörg þekkt verk eins og Seðlabanki Íslands og Mjólkursamsalan eru verk teiknistofu þeirra Guðmundar og Ólafs. Einnig bygging Borgarleikhússins, sem teiknistofan vann með Þorsteini Gunnarssyni arkitekt. Þar að auki hannaði hann fjölmargar byggingar fyrir m.a. Reykjavíkurborg, fyrirtæki og einkaaðila.

Hann gat verið ákveðinn og fastur fyrir, vildi koma sínu fram þegar um var að ræða arkitektúr og það sem honum tengdist. Þetta gerði að hann átti tryggan hóp viðskiptamanna sem leituðu til hans til margra ára.

Fyrir utan það að drekka upp allan þann fróðleik og visku sem ég gat nálgast í vinnunni var Dundur mér mikil fyrirmynd á öðru sviði. Hann var frábær skíðamaður og var ómögulegur ef hann komst ekki á skíði erlendis einu sinni eða tvisvar á ári.

Það var næstum því ævintýrablær yfir þessu áhugamáli hans, sem gerði að ómögulegt var annað en að smitast. Einnig smitaði glettnin, sem var ófrávíkjanleg í kringum Dund og lífsförunautinn hans, hana Ollu. Sannkölluð gleðisprengja hvar sem þau komu.

Því verður ekki neitað að ráðning mín til þeirra kollega var mikið gæfuspor fyrir mig. Reynslan og traustið sem mér var sýnt verður seint fullþakkað.

Ég votta börnum Guðmundar og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Einnig senda starfsmenn ARKþing Nordic samúðarkveðjur.

Sigurður

Hallgrímsson.

Við Dundur vorum æskuvinir og vinátta okkar entist allt til síðasta dags. Ekki langt síðan við heyrðumst síðast í síma. Það var gott að alast upp á Laufásveginum og Bergstaðastrætinu. Nóg pláss til leikja. Við höfðum allan lystigarðinn, nú Einarsgarð, til umráða. Gamli Kennaraskólinn við enda götunnar.

Dinna, Dundur og Tryggvi. Við lékum okkur í brennó, fallin spýtan og öllum þeim leikjum sem þá voru vinsælir. Við stofnuðum leynifélag undir nafninu DDT og ekki þótti okkur verra þegar við komumst að því að DDT var líka skammstöfun fyrir eitur!

Mikill vinskapur var milli heimilanna, foreldra minna, Helgu og Eiríks í Gróðrarstöðinni, foreldra Dunds, Ragnhildar og Guðmundar Kristins, og foreldra Tryggva, Steinunnar og Ásmundar, og allra sem tilheyrðu þeim fjölskyldum. Við krakkarnir hlupum inn og út í gegnum garða og hús eins og heima hjá okkur. Það voru góðir og ógleymanlegir tímar.

Seinna urðum við Olla góðar vinkonur, sem ég mat mikils, og Siggi og Dundur náðu saman í djassinum og hélst vinskapur okkar alla tíð.

Kæru Gunna, Gummi, Dögg og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Kristín Eiríksdóttir (Dinna).

Við vorum vinir frá því við fyrst mundum eftir okkur. Þremenningar að frændsemi, bjuggum þannig að lóðirnar snertust og náin vinátta milli foreldra okkar. Ég var dálítið yngri og naut stundum verndar hans í æsku, en þessi aldursmunur hvarf með árunum. Á barns- og unglingsárum bættust þrír vinir í hópinn, Ólafur B. Thors, Þórður Þ. Þorbjarnarson og Björn Björnsson. Á vináttu okkar allra bar aldrei skugga og hún entist til æviloka. Ég lifi nú einn þessa hóps, en von um endurfundi í öðrum heimi blundar. Snemma í menntaskóla ákvað hann að verða arkitekt. Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt var mágur hans og mikill vinur og eftir stúdentspróf fékk hann sumarvinnu á teiknistofu hans og síðan fullt starf að námi loknu. Mér er minnisstæð ferð í Drápuhlíðarfjall að safna grjóti í kamínu í hús sem Skarphéðinn var að byggja yfir heimili sitt og teiknistofu. Auk þeirra mága var Manfreð Vilhjálmsson með og við kepptumst um að halda uppi fjörugum samræðum á heimleiðinni svo að sá við stýrið sofnaði ekki enda komið langt fram á nótt. Fljótlega stofnaði hann teiknistofu með vini sínum Ólafi Sigurðssyni og unnu þeir saman alla tíð. Ég átti þar oft erindi og minnist þess hvað góður andi ríkti þar og gleði í loftinu. Munu komandi kynslóðir njóta verka þeirra og má þar nefna sem dæmi Borgarleikhúsið, Seðlabankann og fjölda leikskóla. Guðmundur hafði þó gaman af að vitna í Axel Blöndal heimilislækni sinn, sem minnti hann oft á þá heppni lækna að geta grafið mistök sín, en mistök arkitekta blöstu við öllum í óratíma! Hann var lánsamur að velja þetta starf. Honum fannst gaman að vinna og hafði brennandi áhuga á viðfangsefnum sínum. Samstarf þeirra Ólafs var einstakt og oft heyrði ég bæði iðnaðarmenn og húsbyggjendur hrósa þeim félögum. Væri þó synd að segja að starf þeirra væri alltaf auðvelt eða þakklátt. Guðmundur var mikill gæfumaður. Hann var glæsimenni, hlaut það í arf frá foreldrum sínum. Hann erfði líka skapgerð föður síns, sem var allra manna glaðastur. Hann hafði mikla persónutöfra og var snillingur í mannlegum samskiptum enda vinsæll með afbrigðum. Hann eignaðist ungur góða og glæsilega konu og lifði í löngu og farsælu hjónabandi. Missir hennar fyrir tæpum tveimur árum var honum þungbær þótt hann hefði ekki mörg orð um það. Hann átti góða afkomendur og börnin sinntu honum vel og sáu til þess að hann gæti búið áfram heima. Heilsan var þó orðin léleg og ég held hann hafi verið sáttur við að kveðja. Söknuðurinn er engu að síður mikill. Innilegar samúðarkveðjur okkar hjóna til fjölskyldunnar.

Flýt þér, vinur, í fegra heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans,

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.

(Jónas Hallgrímsson)

Tryggvi

Ásmundsson.

Það var Gústaf E. Pálsson heitinn sem leiddi okkur Guðmund og Ólaf Sigurðsson saman um hönnun Borgarleikhússins snemma árs 1974. Þeir félagar höfðu þá um nokkurt skeið rekið saman virta teiknistofu og tekist á við mörg vandasöm verkefni, menntaðir í Þýskalandi og af þeirri kynslóð arkitekta sem lagði mikið upp úr sýnilegri steinsteypu með tilbrigðaríkri áferð. Ég var hins vegar nýgræðingur á akri húsagerðar, yngri en þeir, hafði sérhæft mig í endurreisn sögulegra bygginga í Kaupmannahöfn. Það var því með öllu óvíst hvort teymið yrði starfhæft. Okkur varð reyndin önnur. Frá fyrstu tíð var samstarfið gott og náið og þegar leikhúsið var opnað, fullsmíðað og frágengið haustið 1989 gátum við staðfest í endurliti að aldrei hefði komið upp misklíð í hópnum, þau tæplega sextán ár sem unnið var að verkefninu.

Þótt dómur sögunnar hafi reynst leikhúsinu hallkvæmur er fjarri lagi að svo hafi verið á árum áður. Fundið var að því að forsögnin, sem gerð var í náinni samvinnu við starfsfólk Leikfélagsins, væri ekki nógu framúrstefnuleg og af þeim sökum hlyti að ríkja alger óvissa um útkomuna. Í hönd fóru skylmingar á hinum opinbera paðreimi þar sem Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri reyndist með rökföstum málflutningi sínum sannkölluð skjaldmey mannvirkisins en við þremenningar lögðum sitthvað til málanna og svöruðum gagnrýni eftir bestu getu. Það var þá sem tekið var að kalla okkur í léttu gamni „de tre musketerer“.

Það var lærdómsríkt að fylgjast með Dundi – sem bar hönnuðarnafnið með rentu – draga upp hverja grunnmyndina á fætur annarri, þjála, rökrétta og í fullkomnu samræmi við forsögnina, rétt eins og hann legði kapp á að færa sönnur á þá fullyrðingu rómverska arkitektsins Vitrúvíusar að væri forsögninni fylgt í einu og öllu yrði engum skotaskuld úr því að skipuleggja óaðfinnanlegt leikhús!

Síðast hittumst við í leikhúsinu 24. febrúar 2021 og fögnuðum þá að lokið var breytingum á forsal leikhússins sem við unnum í samstarfi við nýráðinn leikhússtjóra, Brynhildi Guðjónsdóttur, en hún hafði að athuguðu máli einsett sér að fjarlægja úr salnum ýmiss konar aðskotahluti, sem dagað hafði uppi, ýmist af misskilningi eða í ógáti, og endurgera hann í sem næst upphaflegri mynd sinni í samræmi við byggingarlist hússins.

Guðmundur Kr. Guðmundsson var maður staðfastur og gegnheill og þeir, sem hann bast vináttuböndum, máttu reiða sig á traust og tiltrú. Eðli hans var opið, hann lét uppi skoðun sína á byggingarlist og hönnun án vafninga en gaf sig lítt að rökræðu eða málrófi. Undir yfirborðinu, sem stundum gat virst hrjúft, bjó viðkvæm lund sem hataði laumuspil en mat hreinskiptni og heiðarleika.

Ég kveð kæran vin og samstarfsmann með söknuði og votta börnum og öðrum aðstandendum samúð mína.

Þorsteinn Gunnarsson.

Ég ræddi við góðvin okkar Guðmund í síma í haust eins og við gerðum oft. Tveimur vikum síðar var hann burt kallaður.

Okkar kynni hófust þegar hann teiknaði fyrir okkur hjónin einbýlishús á Seltjarnarnesi. Þar kom fljótt í ljós hversu vandvirkur og útsjónarsamur hann var. Hann teiknaði hvert smáatriði utan- og innanhúss, þar með talið allar innréttingar, loftljós o.fl. Þar var hvergi kastað til höndum.

Eftir fyrstu kynnin höfum við haldið góðum vinskap við þau hjón Guðmund og Ólöfu en hún lést fyrir nokkrum árum. Höfum við átt margar góðar samverustundir sl. 50 ár.

Ólöf og Guðmundur komu til okkar á hverju sumri og dvöldu hjá okkur í Brekkubæ í Kjós. Við fórum saman í margar eftirminnilegar gönguferðir um Esjusvæðið, Brynjudal, Glym o.fl. Í einni Esjugöngunni hátt uppi á fjalli heyrðum við allt í einu mikinn lúðrablástur og ræðuhöld. Það tók okkur smá stund að átta okkur á því að þarna var einmitt verið að opna Hvalfjarðargöng og nutum við góðs af! Guðmundi varð tíðrætt um þetta eftirminnilega atvik. Það var farið í göngu hvernig sem viðraði þegar þau hjónin komu í bústaðinn. Í lok ferðar var ávallt sest við arineld og Lulla bar fram góðar veitingar og oftast smá lögg með.

Það var alveg sama í hvaða framkvæmdum við vorum, Guðmundur var alltaf boðinn og búinn að leggja okkur lið. Hann teiknaði og hannaði verslun okkar við Lækjartorg, nýtt eldhús í sumarbústaðinn og margs konar verkefni sem til féllu.

Ólöf og Guðmundur áttu fallegt heimili með fjölda listaverka. Hann var mikill djassunnandi og átti fjölmargar djasshljómplötur.

Ferðalög almennt og skíðaferðir voru efst á óskalista þeirra. Þau ferðuðust um víða veröld, gjarnan á framandi slóðir. Þau töluðu oft um að nota peningana í ferðalög frekar en í steinsteypu.

Með söknuð í huga kveðjum við góðan vin. Við vottum fjölskyldu hans samúð.

Garðar og

Guðlaug (Lulla).

Góður drengur er genginn.

Guðmundur Kristinn Guðmundsson var í góðra vina hópi alltaf kallaður Dundur.

Vinátta og samstarf okkar Dunds spannar 50 ár. Hann sagði alltaf að það hefði hafist 07.07. 1970, en þá hófum við vinnu við vöruhús Eggerts Kristjánssonar í Sundagörðum. Eftir það rákum við saman teiknistofuna Arkþing í u.þ.b. 40 ár. Verkefnin voru margs konar, fjöldi leikskóla, Borgarleikhúsið, ásamt Þorsteini Gunnarssyni, Mjólkursamsalan, Sorpa í Gufunesi og Seðlabanki Íslands auk fjölda annarra bygginga.

Rílaxar er sex manna hópur sem Dundi var mjög annt um. Þetta voru sex vinir sem fóru oft síðla sumars í veiðiferðir þar sem margt var brallað, sungið og borðað vel en minna veitt. Nú er farið að saxast á hópinn, bara fjórir eftir í þessum hópi, en haldið verður áfram að hittast þar til einn verður eftir. Nafnið á hópnum kom eiginlega sjálfkrafa því allir voru svo afslappaðir við matseld, sönginn og ekki síst við veiðina. Hópurinn fór einnig í nokkrar heimsskoðunarferðir með eiginkonum á síðustu öld þar sem aldrei bar skugga á samheldnina og lífsgleðina.

Vaskir öldungar er leikfimihópur, lengi undir stjórn Valdimars Örnólfssonar, sem Dundi var mikils virði. Hann var formaður þessa hóps allt til enda, tók við af Viggó Maack þegar hans ævi lauk.

Allt fram á það síðasta höfum við Rílaxar hist reglulega a.m.k. tvisvar í mánuði yfir kaffi og kruðiríi þar sem tilveran var rædd á jákvæðum nótum.

Dunds verður sárt saknað.

Ólafur Sigurðsson.