Björn Tryggvi Guðmundsson fæddist 12. janúar 1939. Hann lést 28. nóvember 2022. Útför hans fór fram 8. desember 2022.

„Heldurðu að hann fari nokkuð að rigna?“ sagði Tryggvi og hló þegar við renndum í hlað á Heiðarbæ að morgni réttardags fyrir fáum árum. Það var úrhellisrigning.

Heimilisfólkið á mínu æskuheimili samanstóð af mömmu og pabba, okkur systkinunum, Jóhannesi afa og Tryggva, bróður mömmu, sem vann og bjó hjá mömmu og pabba í fjölda ára.

Mér fannst það mjög gott þá og ekki síður dýrmætt á seinni árum að hafa haft aðgang að frænda eins og Tryggva sem var alltaf til staðar og virtist alltaf hafa nægan tíma. Skilningsríkur, hlustaði vel en spurði ekkert endilega of mikið. Tryggvi kryddaði tilveruna með trygglyndi, sérstæðum húmor og kveðskap, tilvitnunum og gullkornum. Hann var mjög vanafastur, fannst einfalt gott og annað óþarfi.

Tryggvi var sannarlega ekki mikið fyrir margmenni, en lét sig samt hafa það að mæta í fjöldann allan af veislum um dagana. Oftar en ekki endaði hann umkringdur frændfólki að „rifja upp fræði sín“. Hann var sérfræðingur í að sjá spaugilegu hliðarnar á hversdagsleikanum og hafði sitt lag á öllu. Þrátt fyrir að vera hæglátur þá smitaði hann út frá sér með sínum sérstaka húmor, var kíminn og yfirleitt stutt í brosið, væri hann með sínu fólki.

Ég upplifi einhverja fortíðarþrá við það að finna lykt af píputóbaki, en Tryggvi reykti eins og strompur, mest Prince Albert framan af. Á unglingsárunum fór ég að hafa áhyggjur af Tryggva því ég heyrði í útvarpinu að það væri óhollt að reykja. En eins og Tryggvi var nú yfirleitt góður hlustandi þá var eins og hann heyrði alls ekkert þegar minnst var á hvort það væri snjallt að hætta að reykja. Hann reykti jafnvel bara meira og sagði: „þetta er síðasta pípan“ sem gaf ákveðna von, en bætti svo fljótlega við „...fyrir þá næstu“. Tryggvi hætti að reykja um tíma, sennilega í allt að níu mánuði en þá fyrst fór hann að hósta að ráði og taldi því réttast að halda bara áfram. Hann hlýtur að hafa verið með sterk lungu að upplagi fyrst hann var þó ekki verri til heilsunnar, fyrr en síðustu misserin, oft reyndar með mjög slæman kraumandi hósta, en samt.

Tryggvi var nægjusamur og hafði einfaldan smekk. Loðhúfa, lopapeysa, langermabolur, síðar nærbuxur, síðbuxur og ullarsokkar var allt sem þurfti. Heimaprjónað eða úr Ellingsen. Hann átti fremur fáar en verulega langlífar uppáhaldsflíkur um dagana og oft reyndist erfitt að telja hann á að hætta að nota gatslitin föt. Honum fannst líklega skrítið að fólk skyldi ekki átta sig á þeirri einföldu staðreynd að það eru ekki öll föt þægileg. Lopapeysur fannst honum langbestar og gilti þá einu hvort þær voru heilar eða stagbættar.

Það hefur verið hlýtt á milli Tryggva og systkina hans fjögurra, þau samheldin og hjálpsöm hvert við annað, en eins og við vitum þá er gott systkinasamband eitt af því dýrmæta í lífinu. Kristínu og öllum á Bjargi vil ég þakka kærlega fyrir síðustu 25 árin í lífi Tryggva og votta þeim samúð mína.

Mikið sem mér þótti vænt um Tryggva.

Helga Sveinbjörnsdóttir frá Heiðarbæ.