Árni Árnason
Árni Árnason
Árni Árnason: "Með þráhyggju sína að vopni les hann út úr skýrum texta eitthvað sem er alls ekki þar."

Það var aldrei meiningin, og ég ætla ekki að standa í einhverjum ritdeilum við Ole Anton Bieltvedt, enda löngu þekkt að engu tauti er við hann komandi. Það er þó allt í lagi að önnur sjónarmið en hans fái að koma fram.

Það er auðvitað ekki hægt að halda uppi vitrænni samræðu við mann sem er svo týndur í eigin hugarheimi að hann, með þráhyggju sína að vopni, les út úr skýrum texta eitthvað sem er alls ekki þar.

Hann gefur sér, algerlega út í bláinn, að af því að ég er hlynntur hreindýraveiðum, og get vitnað til reynslu reyndra manna, þá sé ég hvorki meira né minna en stórtækur stórveiðimaður sem veitt hafi eða slasað þúsundir dýra. Þar hrapar Ole illilega að ályktun, enda á ég hvorki byssu né byssuleyfi og hef ekki veitt eitt einasta hreindýr. Konan á hins vegar glænýja sjóveiðistöng og saman eigum við hlut í jullu og drögum stundum fisk úr sjó.

Ole, sem síklifar á sakleysi veiðidýra, skilur heldur ekki húmorinn í tali mínu um hrein sakavottorð fyrir þorsk og loðnu. En það gerir ekkert til, það skilja það allir aðrir.

Á Íslandi hefur frá örófi alda verið veiðimannasamfélag sem dregið hefur björg í bú bæði í atvinnuskyni og sjálfsþurftarbúskap. Ég er stoltur af því að vera virkur þátttakandi í þessu veiðimannasamfélagi, og færist ekki undan því að vera þannig meðábyrgur fyrir allri þeirri veiði sem viðgengst á sjálfbærum stofnum.

Það er auðvitað sjálfsagt að veiðar fari fram með sjálfbærum hætti og eins mannúðlega og við verður komið. Mannskepnan er rándýr og er sem slík hluti af náttúrunni, og verður víst seint vegan, ekki frekar en refurinn.

Höfundur er vélstjóri.

Höf.: Árni Árnason