Óli Brettingur Gunnarsson fæddist 24. apríl 1929 á Brettingsstöðum á Flateyjardal. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði 29. júlí 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Emilía Sigurðardóttir húsmóðir, f. 8. október 1893, d. 30. mars 1960, og Gunnar Tryggvason bóndi, f. 30. júní 1885, d. 23. október 1973, sem bæði voru af Brettingsstaðaætt. Systkini Óla eru: a) Sigurður Þórður vélstjóri, f. 1925, d. 1990. b) Tryggvi skipstjóri, f. 1927, d. 2015, kvæntur Heiðbjörtu Björnsdóttur, f. 1930, d. 2018. Börn þeirra eru Þorgerður, f. 1949, Hulda, f. 1953, Gunnar Björn, f. 1955, Emma, f. 1959, og Adda, f. 1961, d. 2002. c) Ingveldur ljósmóðir, f. 1931, gift Albert Þorvaldssyni, f. 1915, d. 2006. Synir þeirra eru Sigurður Malmquist, f. 1957, og Emil, f. 1960. d) Adda Kristrún, starfsstúlka á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, f. 1933, d. 2019.

Óli ólst upp á Brettingsstöðum en flutti til Akureyrar ungur maður. Hann gekk í barnaskóla í Flatey á Skjálfanda og í Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal. Ævistarf Óla var sjómennska. Hann sigldi snemma með Tryggva bróður sínum á Akraborginni EA en gerði lengst af út eigin bát, Júlíus EA. Í mörg ár reri Óli frá Hrísey á sumrin á Júlíusi, stundum með Gunnari föður sínum, en vann við uppskipun í höfninni á Akureyri á veturna. Óli var mikill skákmaður, tók þátt í starfi Skákfélags Akureyrar og keppti á skákmótum. Óli bjó á Akureyri allt þar til hann fór á hjúkrunarheimilið Sundabúð á Vopnafirði sumarið 2020.

Óli var jarðsunginn í kyrrþey frá Höfðakapellu á Akureyri 23. ágúst 2022.

Fallinn er frá sægarpur í hárri elli. Óli afabróðir minn frá Brettingsstöðum var einn af þeim síðustu sem eftir lifðu af fólkinu sem bjó á Flateyjardal við Skjálfanda. Þar óx hann upp í faðmi fjalla við svalan sjávarkamb, eins og formæður hans og forfeður allt frá 18. öld. En straumurinn bar fjölskylduna til þéttbýlisins og æskustöðvarnar fóru í eyði þegar Óli var 24 ára.

Hugur Óla mun hafa staðið til þess að verða rafvirki, en af því varð ekki. Hann var þó lunkinn tæknimaður allt fram á gamals aldur. Eins og bræður hans, Sigurður Þórður og Tryggvi, afi minn, fór Óli á sjóinn. Það þurfti ekki að koma nokkrum manni á óvart, því sjósókn var stór hluti af lífi fólksins á Flateyjardal. Þaðan var róið til fiskjar og veiddur selur og fénu var beitt í fjörunni.

Óli mun hafa verið fjörugt barn en tveggja ára varð hann fyrir áfalli þegar hann týndist. Hann hvarf frá bænum um kaffileytið dag einn snemmsumars og leit bar ekki árangur fyrr en var komið undir næsta morgun. Þá fannst hann í hæðum sem eru utan og ofan við bæinn. Enginn veit hvað bærðist innra með litlu barni, en Óli mun hafa breyst eftir þetta og orðið hæglátur og látið lítið fyrir sér fara. Þannig þekkti ég hann.

Óli var sterkur en líka bráðgáfaður, þótt hann flíkaði því ekki, nema helst í skákinni. Hann fylgdist einkar vel með samfélagsmálum. Gjarnan var hann með vasaútvarpið í eyranu heima við og löngum stundum horfði hann á umræður á Alþingi í sjónvarpinu.

Á Akureyri bjó Óli lengst af á efri hæðinni í Holtagötu 12, fyrstu árin með Gunnari föður sínum, Sigurði elsta bróður sínum og Öddu yngstu systur sinni. Þegar ég fór að muna vel eftir mér voru Óli og Adda tvö eftir á lífi, en Ingveldur systir þeirra og Albert maður hennar voru þá flutt í íbúðina á neðri hæðinni. Í Holtagötunni var því áratugum saman mikill samkomustaður stórfjölskyldunnar. Þegar leiðin lá um Akureyri var nær alltaf farið í heimsókn þangað og þar var öllum tekið opnum örmum.

Að síðustu var Óli einn eftir á efri hæðinni, áður en hann hélt austur á Vopnafjörð, þar sem hann dvaldi síðustu misserin. Þaðan kvaddi hann í sumar, 93 ára. Við Brettingar þökkum samfylgdina.

Blíðvina bleikra

blessuð veri minning

heitustu þökk fyrir heimsins töf.

Sár væri sviði

syrgjenda á jörðu

ef biði ei líf á bak við gröf.

(Emilía Sigurðardóttir

frá Brettingsstöðum)

Blessuð sé minning Óla frænda.

Tryggvi

Aðalbjörnsson.