Skáldskapur „Ég er líka mikið að skoða afneitun og hliðrun sem er í sjálfu sér ekkert ólíkt skáldskapnum sjálfum, að segja allt nema aðalatriðið á sem flestum blaðsíðum,“ segir rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir.
Skáldskapur „Ég er líka mikið að skoða afneitun og hliðrun sem er í sjálfu sér ekkert ólíkt skáldskapnum sjálfum, að segja allt nema aðalatriðið á sem flestum blaðsíðum,“ segir rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Nýjasta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, Tól, hefur hlotið mikið lof undanfarnar vikur, meðal annars hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins sem gaf verkinu fimm stjörnur. Í bókinni segir af Villu Dúadóttur kvikmyndagerðarkonu sem situr fyrir svörum á kvikmyndahátið eftir sýningu á mynd hennar um hvalveiði- og ógæfumanninn Dimma. Smám saman verður lesandanum ljóst að margt leynist undir yfirborðinu, saga af áföllum og flóknum samböndum. Við sjónarhorn Villu fléttast sjónarhorn tveggja annarra persóna sem standa henni nærri og úr verður heildstæð en þó margslungin frásögn.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Nýjasta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, Tól, hefur hlotið mikið lof undanfarnar vikur, meðal annars hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins sem gaf verkinu fimm stjörnur. Í bókinni segir af Villu Dúadóttur kvikmyndagerðarkonu sem situr fyrir svörum á kvikmyndahátið eftir sýningu á mynd hennar um hvalveiði- og ógæfumanninn Dimma. Smám saman verður lesandanum ljóst að margt leynist undir yfirborðinu, saga af áföllum og flóknum samböndum. Við sjónarhorn Villu fléttast sjónarhorn tveggja annarra persóna sem standa henni nærri og úr verður heildstæð en þó margslungin frásögn.

Hvaðan spratt hugmyndin að verkinu?

„Nú reyni ég að rifja upp og það sem kemur til mín er sena sem ég skrifaði fyrir kannski fjórum árum síðan. Þessi sena er síðan alls ekki í bókinni og ekki persónurnar heldur. Það var kona, mig minnir að hún hafi heitið Heiður, sem var félagsráðgjafi, og hún átti unglingsson með manni sem hún vildi alls ekki að sonurinn vissi neitt af. Konan var samt í miklum samskiptum við þennan barnsföður og mikið að aðstoða hann með ýmislegt praktískt og heilsufarslegt eins og eyrnamítil og húsnæði og stundum á kvöldin gekk hún fram hjá glugganum hans til að athuga hvort hann hefði örugglega slökkt á kertunum fyrir nóttina. Svo er þessi sena ekkert í bókinni, en þarna bjó samt vísirinn að því sem síðan varð skáldsagan Tól.“

Frá ólíkum sjónarhornum

Þú segir söguna frá þremur sjónarhornum. Hvernig var að púsla þeim saman? Var það áskorun?

„Fyrstu persónu frásögn kemur auðveldlega til mín og það er aðferð sem hentar mér. Þriðja persónan tekur síðan við þegar mér finnst ég vera komin að einhverjum þolmörkum þeirrar fyrstu. Þá hoppa ég út og það er ákveðin hvíld fólgin í því að fylgja fólki utan frá. Ég hugsa þetta svolítið eins og nálægð og fjarlægð, innan frá og utan frá. Nálægð getur orðið yfirþyrmandi og fjarlægð getur orðið þreytandi og sjónarhorn í skáldsögu er kannski ekki ósvipað linsunni á myndavél. Svo er hægt að týna fólki með því að „súmmera“ inn í húðina á því eða missa það í mannhafi og þetta er kannski fyrst og fremst stillingaratriði.“

Í þessari skáldsögu er kvikmyndin miðill inni í miðli. Af hverju ákvaðstu að taka kvikmyndaformið fyrir og hvernig var að fást við það?

„Svið sögunnar er heimildarmyndahátíð, sem mér fannst áhugavert fyrir svo margar sakir og miðillinn heimildarmynd verður síðan að mörgu leyti efniviður sögunnar. Heimildarmynd er sköpunarverk, rétt eins og leikin kvikmynd, en mér fannst spennandi að skoða þessi mörk og í heimildarmyndaforminu er líka rými fyrir hið óvænta, eða allavega hugmyndina um hið óvænta, vegna þess að það er alltaf einhver sem klippir myndina saman og framleiðir hana og þar með er auðvitað ekkert óvænt lengur. Hugmyndin um manneskju sem er að leika sjálfa sig fyrir heimildarmynd höfðaði síðan til mín: þessi sviðsetning hins sanna sjálfs. Hugmyndin um eitthvað óvænt og hugmyndin um eitthvað satt.“

Villa glímir við þann vanda að vera að segja sögu fólks og í því felst ákveðið val sem hún þarf að bera ábyrgð á. Finnst þér þú glíma við sömu áskorun þegar þú skrifar?

„Skáldskapur getur auðvitað sært og hugmyndir skáldaðrar persónu farið yfir strik og höfundar hlotið gagnrýni fyrir að nálgast umfjöllunarefni af virðingarleysi. Þannig hefur það held ég alltaf verið og það eru óteljandi reglur sem listafólk veit ekki einu sinni að það fylgir. Í uppdiktuðum heimi er samt ekki raunverulegt fólk, eins og Dimmi í heimildarmyndinni hennar Villu, sem raunverulega braut á raunverulegu fólki. Í skáldskap þarf að vera hægt að spyrja óþægilegra spurninga, án þess endilega að kunna réttu svörin. Þó svo að skáldað fólk sé ekki af holdi og blóði eru persónurnar samt bara þær sjálfar og standa ekki fyrir gildismat höfundar. Þær eru raddir í samtali sem höfundur á ekki bara við sjálfan sig heldur líka tímana sem hann lifir.“

Þanin orð en þó hárrétt

Í verkinu eru mörg þung viðfangsefni, til dæmis fíkn, ofbeldi í ýmsum myndum og flókin fjölskyldubönd. Þú ert ekki ein um að skrifa um fíkn þetta árið. Finnst þér það vera málefni sem er áberandi í samtímanum og mikilvægt að takast á við? Eða er einhver önnur ástæða fyrir að fíkn verður rithöfundum að efniviði núna?

„Þessi efniviður hefur alltaf verið mér nálægur og verður það sennilega áfram. Ég er líka mikið að skoða afneitun og hliðrun sem er í sjálfu sér ekkert ólíkt skáldskapnum sjálfum, að segja allt nema aðalatriðið á sem flestum blaðsíðum. Þetta eru mjög þanin orð sem þú nefnir: Fíkn og ofbeldi. Fíkn á sér svo margar birtingarmyndir og er sjaldnast það sem fólk ímyndar sér þegar það heyrir orðið. Sama má segja um orðið ofbeldi, sem getur lýst bæði morði og augnatilliti. Samt eru þetta hárréttu orðin til þess að nota. Það kemur ekki á óvart að þessi málefni séu mikið til umfjöllunar í skáldskap vegna þess að umræðan er eldfim og frjó. Svo hefur átt sér stað vitundarvakning hvað varðar áföll í bernsku og áhrif þeirra á taugakerfi fólks og lífshorfur þess.

Eitt af því sem ég var upptekin af við skriftir bókarinnar var frjáls vilji. Fólk virðist hafa nánast innbyggða trú á frjálsan vilja, sem er eðlilegt vegna þess að tilhugsunin um hversu litlu það í raun ræður er svo óþægileg. Það er samt mikilvægt að átta sig á því að upp geta komið aðstæður í lífi allra sem draga fram mikið svartnætti. Aðstæðurnar eru þá óvinurinn en það þarf ekki að fyllast vanmætti vegna þess að aðstæður má bæta og til þess má til dæmis nota sinn frjálsa vilja.“