Samningur Verkalýðsleiðtogarnir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Samningur Verkalýðsleiðtogarnir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins, VR, samflots iðn- og tæknigreina og Landssambands verslunarmanna var undirritaður í Karphúsinu í hádeginu í gær. Samningarnir koma til með að ná til um 60.000 manns á vinnumarkaði

Anton Guðjónsson

Urður Egilsdóttir

Atli Steinn Guðmundsson

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins, VR, samflots iðn- og tæknigreina og Landssambands verslunarmanna var undirritaður í Karphúsinu í hádeginu í gær. Samningarnir koma til með að ná til um 60.000 manns á vinnumarkaði. Almenn launahækkun verður 6,75% en að hámarki 66.000 krónur á mánuði.

Samninganefndir félagana funduðu til klukkan fimm í gærmorgun í Karphúsinu en VR, LÍV og Starfsgreinasamband Íslands vísuðu kjaraviðræðum við SA til ríkissáttasemjara 14. nóvember síðastliðinn. „Þarna skiluðu þolinmæði og þrautseigja samningi,“ sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari við Morgunblaðið.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og LÍV, neitaði að veita fjölmiðlum viðtal eftir undirritun kjarasamnings. Bjarni Þór Sigurðsson, stjórnarmaður í VR og fulltrúi í samninganefnd félagsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að Ragnar hefði ætlað sér að hvíla sig og að hann myndi svara fjölmiðlum degi síðar, eða í dag, þriðjudag.

Bjarni Þór segir að fulltrúar VR hefðu auðvitað viljað fara lengra í samningunum. Með því að vera betur stillt saman öll þá hefði það hugsanlega getað gerst, „þá á ég við hreyfinguna í heild sinni,“ segir Bjarni.

„Það er mikill samhugur í stjórn VR. Það voru allir óánægðir með þetta. Við aftur á móti töldum að að svo komnu máli, virtist ekki vera meira í spilunum.“

Samningurinn var birtur á heimasíðu VR í gærkvöldi. Nýir launataxtar eru hluti af samningnum og taka gildi afturvirkt, eða frá 1. nóvember á þessu ári. Þar eru lægstu byrjunarlaun 406.923 krónur, hjá afgreiðslufólki. Neðst í samningnum er tekið fram að sérstök forsendunefnd verði skipuð fjórum fulltrúum úr sameiginlegum starfshópi samningsaðila sem fylgist með framvindu efnahagsmála. „Verði þróun efnahagsmála með þeim hætti að forsendunefnd meti að forsendur um þróun verðlags hafi brostið verður kallað til sérstaks fundar þar sem rædd verða viðbrögð aðila vinnumarkaðsins og stjórnvalda,“ segir í samningnum.

Ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi í gær breytingar á barnabóta- og vaxtabótakerfum samhliða nýjum kjarasamningum. Áhersla verður lögð á að fjölga íbúðum og auka stuðning við barnafólk.

Höf.: Anton Guðjónsson, Urður Egilsdóttir