Sund Lífsgæði íbúa eru skert með lokun laugarinnar á Selfossi.
Sund Lífsgæði íbúa eru skert með lokun laugarinnar á Selfossi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Áfram og næstu daga þarf að fara sparlega með heitt vatn í Árborg. Borhola í Laugardælum, skammt norðan og austan við Selfoss, hefur verið í ólagi síðan fyrir helgi þegar rafmagnsskápur fyrir dælubúnað brann

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Áfram og næstu daga þarf að fara sparlega með heitt vatn í Árborg. Borhola í Laugardælum, skammt norðan og austan við Selfoss, hefur verið í ólagi síðan fyrir helgi þegar rafmagnsskápur fyrir dælubúnað brann. Þar með var úr notkun hola sem við bestu aðstæður skilar allt að 70 sekúndulítrum af heitu vatni. Það eru 30-40% þess vatns sem Laugardælasvæðið skilar inn á veitukerfið í Árborg, það er Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri.

Að sögn Sigurðar Þórs Haraldssonar veitustjóra er dælubúnaðurinn nú kominn í lag að nýju svo heitavatnsöflun nálgast jafnvægi. Þó þarf áfram að handstýra inn á kerfið og fara sparlega með vatnið. Því verður útisvæði sundlaugar á Selfossi lokað þessa vikuna. Þá er vatni er ekki heldur veitt í undirlag gervigrasvalla á íþróttasvæði.

Brunagaddur var á Selfossi í gær, -8,2 gráður, og áfram er kuldi í kortum. „Innilaugin er opin svo krakkar komist í skólasund, en öðru verður að sleppa. Þá hvetjum við íbúa í Árborg til þess að spara heita vatnið, eins og kostur er,“ segir Sigurður. Mikil íbúafjölgun á Selfossi og sú staðreynd að byggðin hefur þanist út á allra síðustu árum hefur skapað mikið álag á hitaveituna í Árborg, svo stundum stappar nærri vatnsskorti. Því er leitað leiða til að styrkja öflun, meðal annars með vatnsleit nærri miðbænum á Selfossi.

„Nú er ekki annað í stöðunni en að íbúar hér í Árborg fari sparlega með heita vatnið næstu daga. Vissulega er óheppilegt að svona bilun verði í kuldatíð, en það er nokkuð sem ekki verður ráðið við,“ segir Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, í samtali við Morgunblaðið. Hún væntir þess að hitaveitan komist í lag á næstu dögum.

Fleiri laugum lokað

Við þetta er að bæta að vegna kuldatíðar hefur tveimur sundlaugum í Rangárþingi ytra verið lokað til að spara vatn, það er laugunum á Laugalandi í Holtum og á Hellu. Þetta er gert að ósk Veitna, sem sjá byggðum þar eystra fyrir heitu vatni.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson