Þrír á ferð Guðni, Guðjón Ragnar og Ágúst í sagnahug.
Þrír á ferð Guðni, Guðjón Ragnar og Ágúst í sagnahug.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Guðni Ágústsson og Guðjón Ragnar Jónasson kynntust á Suðurlandi fyrir um aldarfjórðungi. Leiðir þeirra lágu síðan aftur saman þegar þeir urðu nágrannar í Reykjavík og Guðni kynntist bókum Guðjóns um sauðkindina. Undanfarin misseri hafa þeir tengst enn sterkari böndum eftir að hafa ekið saman um landið, borið saman bækur sínar og sent frá sér tvær bækur um það sem þeim fór á milli í ferðunum. „Hann sagði mér sögurnar á leiðinni og ég skrásetti,“ segir Guðjón.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Guðni Ágústsson og Guðjón Ragnar Jónasson kynntust á Suðurlandi fyrir um aldarfjórðungi. Leiðir þeirra lágu síðan aftur saman þegar þeir urðu nágrannar í Reykjavík og Guðni kynntist bókum Guðjóns um sauðkindina. Undanfarin misseri hafa þeir tengst enn sterkari böndum eftir að hafa ekið saman um landið, borið saman bækur sínar og sent frá sér tvær bækur um það sem þeim fór á milli í ferðunum. „Hann sagði mér sögurnar á leiðinni og ég skrásetti,“ segir Guðjón.

Í fyrra kom út bókin Guðni – á ferð og flugi og nú er það bókin Guðni: Flói bernsku minnar. Í fyrra fólst undirbúningur félaganna í lengri ferðum um landið en nú einskorðuðu þeir sig við Flóann, þar sem Guðni ólst upp og þekkir hverja þúfu. „Ferðirnar voru lengri í fyrra en Flóinn er í raun lítið svæði og vegalengdir stuttar,“ segir Guðjón um bíltúrana. Unun hafi verið að hlusta á Guðna segja frá og gleðin hafi ráðið ríkjum. „Það var aldrei dauð stund. Guðni þekkir marga úti um allt land og ég hef því kynnst fjölda manns, sem er bara skemmtilegt. Okkur var alls staðar vel tekið og áður en við vissum af vorum við komnir inn í baðstofu í kaffi eða mat.“

Sagnamaður

Guðni er eftirsóttur á ýmsar samkomur og Guðjón segir að hann hafi verið bókaður víða um land í fyrra. Hann hafi slegist með í för og skráð niður sögur með hugsanlega útgáfu í huga. „Mér fannst vanta innlit í samfélag hinna dreifðu byggða og langaði að segja sögur af þjóðlegum fróðleik í sveitinni,“ segir hann um hugmyndina. Þeir hafi látið á þetta reyna, eitt hafi leitt af öðru og fyrri bókin orðið að veruleika. „Guðni setti bara dæluna í gang og hlutirnir gerðust óvænt.“ Í Flóanum hafi Guðni verið á heimavelli og því hafi þeir ákveðið að einskorða sig við hann í seinni bókinni.

Guðjón segir að gaman hafi verið að fylgjast með því hvað Guðni náði góðum tökum á að leiða samtölin við fólkið. „Guðni er sterkur sagnamaður og hann náði fólkinu á flug. Ég komst líka að því hvað Flóinn er merkilegur. Þar ríkir margs konar menning og náttúran er mun stórbrotnari en ég bjóst við. Ég lærði svo mikið að ég ætla að flytja aftur á Suðurlandið.“

Guðni var lengi alþingismaður og ráðherra. Guðjón segir það hafa komið sér einna mest á óvart hvað vináttuböndin séu sterk þrátt fyrir að menn hafi tekist á í pólítik. „Guðni hitti gjarnan póilítíska andstæðinga og þeir voru eins og bestu vinir. Í því var ákveðin fegurð og skemmtilegt var að sjá hana.“ Þegar drögin hafi legið fyrir hafi þeir notað skjávarpa til að laga textann sameiginlega með því að varpa honum upp á vegg. „Textinn var eins og listaverk á vegg þegar við unnum saman með hann.“

Ágúst sonur Guðjóns var gjarnan með í för og aðstoðaði föður sinn við skrásetninguna. „Hann hefur oft hjálpað mér að skrifa inn texta enda fimari í fingrasetningunni en ég,“ segir Guðjón. Hann sé líka einarður framsóknarmaður. „Segja má að sonur minn hafi verið í pólitískum skóla hjá Guðna í ferðunum.“