Flug Skrúfuþota Ernis tilbúin til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli.
Flug Skrúfuþota Ernis tilbúin til brottfarar á Reykjavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Áætlunarflug til og frá Vestmannaeyjum hefst að nýju næstkomandi föstudag, 16. desember, þegar Ernir fer þangað sína fyrstu ferð. Gerðir hafa verið samningar milli flugfélagsins og innviðaráðuneytisins um þrjár Eyjaferðir í viku, tvær á þriðjudögum og eina á föstudögum

Áætlunarflug til og frá Vestmannaeyjum hefst að nýju næstkomandi föstudag, 16. desember, þegar Ernir fer þangað sína fyrstu ferð. Gerðir hafa verið samningar milli flugfélagsins og innviðaráðuneytisins um þrjár Eyjaferðir í viku, tvær á þriðjudögum og eina á föstudögum. Flug í kringum jól og áramót verður þó með aðeins öðrum hætti en þegar ferðir samkvæmt fastri áætlun byrja í upphafi nýs árs.

Stuðningur ríkisins við Eyjaflugið nú byggist á því viðhorfi að bæta þurfi samgöngur til og frá Vestmannaeyjum yfir vetrartímann, sem þó sé að óbreyttu mögulegt á markaðslegum forsendum. Samningurinn við Erni nú tryggir tímabundið lágmarksþjónustu á flugi, sem er mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum.

Flugfélagið Ernir sinnti Eyjaflugi frá 2010 fram í september 2020 en þá var ekki annað í stöðunni en að hætta flugi sökum minnkandi eftirspurnar. Fulltrúar Ernis segja að nú sé verið að hefja flug á þessari leið aftur sem vonandi verði til frambúðar og með fleiri ferðum en þremur í viku. sbs@mbl.is