Nýr kjarasamningur sem samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og samflots VR, iðn- og tæknifólks og Landssambands íslenskra verslunarmanna skrifuðu undir upp úr hádegi í gær, kveður á um hækkun mánaðarlauna um 6,75% afturvirkt frá og með 1

Ómar Friðriksson

Urður Egilsdóttir

Nýr kjarasamningur sem samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og samflots VR, iðn- og tæknifólks og Landssambands íslenskra verslunarmanna skrifuðu undir upp úr hádegi í gær, kveður á um hækkun mánaðarlauna um 6,75% afturvirkt frá og með 1. nóvember sl. Hækkanirnar verða þó aldrei hærri en 66 þúsund krónur á mánuði. Samhliða náðist samkomulag um að hækka kauptaxta og nýjar launatöflur, sem taka gildi strax. Ekki hafa verið birtar upplýsingar um hversu miklar launahækkanir felast í þeim breytingum en í kynningu SA segir að taxtabreytingarnar séu áþekkar því sem samið var um við Starfsgreinasambandið í síðustu viku.

Nær til 59 þúsund manns

Samkomulagið náðist eftir löng og stíf fundahöld hjá ríkissáttasemjara yfir helgina. Verði kjarasamningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna nær hann til um 59 þúsund launamanna. Hafa samningar á almenna vinnumarkaðinum nú verið undirritaðir fyrir um 80 þúsund launamenn. Enn er ósamið við Eflingu, næststærsta stéttarfélag landsins, sem hefur vísað kjaradeilu félagsins við SA til ríkissáttasemjara. Ekki hefur verið ákveðið hvenær fyrsti sáttafundurinn fer fram.

Samningurinn nær yfir 15 mánuði og rennur út 31. janúar 2024, líkt og kjarasamningur SGS og SA, sem gerður var á dögunum. Fram kemur í kynningu að launahækkunin sem samið var um nú feli í sér að greiðslu hagvaxtarauka verði flýtt og hann fullefndur. Hagvaxtaraukann átti að greiða næsta vor en fullur hagvaxtarauki er 13 þúsund kr. Ekki kemur til frekara endurmats á hagvaxtaraukanum. Auk þessa var samið um hækkun desember- og orlofsuppbóta á næsta ári. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót 56.000 kr. en það eru sömu upphæðir og í samningi SGS og SA.

„Það sem er að gerast hér er ósköp einfalt og skýrt. Nú hafa Samtök atvinnulífsins gert kjarasamninga við þessi stærstu samflot, sem er í eðli sínu stefnumarkandi,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir undirritunina. Halldór segir það mikilvægt í starfi SA að viðsemjendur þeirra geti treyst því að sú lína, sem mörkuð er í stefnumarkandi kjarasamningum SA, haldi.

„Trúnaður Samtaka atvinnulífsins liggur hjá fólkinu í landinu og það blasir við að þetta er sú lína sem hefur verið mörkuð í samstarfi við stéttarfélögin og hana munu Samtök atvinnulífsins passa.“

Rafiðnaðarmenn telja niðurstöðuna ásættanlega

Þessir nýgerðu kjarasamningar eru að ýmsu leyti frábrugðnir samningi SGS og SA. SGS hafnaði prósentuhækkunum og lagði áherslu á krónutöluhækkanir sem kæmu sér betur fyrir launafólk á lægstu töxtum og náði samningum um að lágmarki 35.000 kr. hækkun kauptaxta, lagfæringu á launatöflu sem felur í sér allt að 52.000 kr. hækkun, auk þess að flýta greiðslu hagvaxtaraukans, sem skilar 78 þúsund kr. ávinningi eða tæpum 6.000 kr. á mánuði á samningstímanum. Í samningi iðn- og tæknifólks og verslunarmanna er á hinn bóginn samið um prósentuhækkanir sem félögin lögðu áherslu á en stærstur hluti félagsmanna þeirra tilheyrir millitekjuhópum.

„Það er auðvitað alltaf þannig að þegar maður skrifar undir kjarasamning þá telur maður að ekki sé hægt að komast lengra í þeim viðræðum. Við hefðum viljað meira og hafa meiri vissu í samningunum en við teljum þessa niðurstöðu ásættanlega og vera þannig að við getum sett hana í dóm félagsmanna,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.

„Okkar upplegg var að ná inn launahækkunum til þess að tryggja að kaupmáttur launa okkar félagsfólks myndi aukast. Það var markmið okkar að ná inn þeim hækkunum sem myndu duga til þess fyrir þessa tekjuhópa sem við erum að semja fyrir,“ segir Kristján og bætir við að nú taki kynningarferli við og kosning meðal félagsfólks hefjist í vikunni. „Markmiðið er að fá niðurstöðu í byrjun næstu viku.“

Fá nú vinnufrið í eitt ár til að gera langtímasamning

Með kjarasamningunum sem undirritaðir voru í gær fylgir áætlun um að hefja markvissa vinnu að nýjum langtímasamningi sem taki við þegar samningarnir renna út, meðal annars um ýmis önnur atriði en launaliðinn. „Það fara nú einhverjar vikur í að klára sérsamninga. Svo byrjum við bara að vinna að nýjum samningi. Það er markmiðið með þessu, að gefa okkur smá vinnufrið í eitt ár til þess að fara í alla aðra liði,“ sagði Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar LÍV og formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni, eftir undirritunina í gær.

Áfangi náðist í gær

Samið í Grindavík

Verkalýðsfélag Grindavíkur skrifaði í gær undir nýjan kjarasamning Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Trúnaðarfélag félagsins hafði áður talið vera annmarka á samningnum sem þyrfti að laga áður en skrifað yrði undir. „Það sem við settum langmest út á var að verðbólgan var ekkert ávörpuð eða settur neinn þrýstingur á aðra aðila með verðbólguna. Með þessu nýja ákvæði sem við fengum inn í okkar samning er hann nú samhljóða því sem iðnaðarmenn og VR sömdu um,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, í samtali við mbl.is.