Gimsteinn frá Þernunesi Fyrsti íslenski hrúturinn sem greindist með verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé.
Gimsteinn frá Þernunesi Fyrsti íslenski hrúturinn sem greindist með verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé. — Ljósmynd/Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðni Einarsson gudni@mbl.is Evrópskt samstarfsverkefni um rannsóknir á riðu í sauðfé fékk nýlega 190 milljóna króna Evrópustyrk. Ísland tekur þátt í rannsókninni ásamt vísindamönnum frá Þýskalandi, Stóra-Bretlandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu.

Viðtal

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Evrópskt samstarfsverkefni um rannsóknir á riðu í sauðfé fékk nýlega 190 milljóna króna Evrópustyrk. Ísland tekur þátt í rannsókninni ásamt vísindamönnum frá Þýskalandi, Stóra-Bretlandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu.

Tvö verkefni varðandi rannsókn á erfðabreytileika í íslensku sauðkindinni með tilliti til riðu hófust hér í fyrra. Að þeim vinna dr. Stefanía Þorgeirsdóttir sérfræðingur og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Karólína Elísabetardóttir, verkfræðingur og sauðfjárbóndi í Hvammshlíð, og Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá RML. Þau fengu styrk til þessa hjá Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar. Meðal annars fannst verndandi arfgerð fyrir riðu (ARR) í fyrsta sinn hér á landi þegar þessi eiginleiki fannst í hrútnum Gimsteini. Sama arfgerð hefur síðan fundist í fleiri íslenskum kindum í sömu hjörð. Arfgerðin er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og hefur verið unnið með hana í löndum ESB við að útrýma riðu með góðum árangri.

„Karólína hafði samband við tvær vísindakonur úti í Þýskalandi. Þær hafa báðar rannsakað príonsjúkdóma eins og riða er. Þá kom upp sú hugmynd að sækja um Evrópustyrk og fá fleiri með til að skoða fleira en erfðabreytileika og nota aðferðir sem við höfum ekki yfir að ráða hér,“ segir Stefanía. Dr. Christine Fast prófessor við FLI-stofnunina bar þungann af því að fá fleiri til liðs og setja saman umsókn um styrkinn sem nú er fenginn. Íslenski hópurinn kemur að fjölþjóðlegu rannsókninni undir forystu Stefaníu.

„Mikið af efniviðnum í rannsókninni kemur frá Íslandi en við leggjum til allt riðusmitefnið okkar. Það kemur ekki mikið af þessum peningum til Íslands en ávinningur okkar verður að fá niðurstöðurnar,“ segir Stefanía. Verkefnið er til þriggja ára og hefst í byrjun næsta árs. Í því verður m.a. beitt svonefndri PMCA-aðferð sem lítið hefur verið notuð hér, en felst í umbreytingu og mögnun á príonpróteininu.

Verkefnið er fjórskipt. Í fyrsta vinnupakkanum er erfðabreytileiki príongensins í sauðfé rannsakaður. Það skiptir máli varðandi riðunæmi. Sú rannsókn er langt komin hér á landi sem fyrr segir. Breytileikinn sem fundist hefur verður skoðaður betur. Nú verður það gert í tilraunaglösum með PMCA-aðferðinni í stað þess að gera smittilraunir í kindum. Sú vinna er hafin í Frakklandi og við hana er notaður heilavefur úr íslenskum kindum með mismunandi erfðabreytileika. Einnig er notað riðusmitefni sem safnað hefur verið á Keldum. ARR-erfðabreytileikinn er alþjóðlega viðurkenndur en verið er að athuga hvort fleiri breytileikar sem finnast í íslensku fé verndi einnig gegn riðu í sauðfé.

Í öðrum vinnupakka skoða færustu vísindamenn á þessu sviði þróun íslenskra riðustofna. Stefanía segir ekki vitað með vissu hvort hér sé einn riðustofn eða fleiri. Riðan er talin hafa borist hingað með innfluttum hrúti árið 1878. Íslenskt riðusmitefni frá mismunandi tímum verður rannsakað. Gerðar verða tilraunir á venjulegum tilraunamúsum og einnig svokölluðum „transgenískum“ músum, sem eru með príongen úr kindum. Þær verða smitaðar með riðusmitefni og skoðað hvernig þær bregðast við. Slíkar rannsóknir hafa verið gerðar á evrópskum riðustofnum en ekki á þeim íslenska.

Umhverfissmit riðu verður skoðað í þriðja vinnupakkanum í samvinnu við breskan rannsóknarhóp. Þar verður aftur beitt PMCA-aðferðinni til að greina príonpróteinið. „Við heimsóttum þrjá riðubæi í sumar og tókum aðallega stroksýni í fjárhúsum. Meðal annars komum við á bæ sem átti að fara að hreinsa og tókum stroksýni. Svo tökum við aftur sýni þegar búið er að hreinsa. Smitmagnið getur verið svo lítið að við getum ekki greint það með okkar aðferðum. Við sendum sýnin út og þar er hægt að magna þau upp til að sjá hvort smit var í fjárhúsunum fyrir og eftir hreinsun. Þannig munum við sjá hvernig þetta er við íslenskar aðstæður,“ segir Stefanía.

Fjórði vinnupakkinn snýst um að greina faraldsfræði sjúkdómsins á Íslandi, kostnaðinn sem af honum hlýst og gera áhættugreiningu. Meðal annars verða tekin viðtöl við bændur sem lentu í niðurskurði þegar riða kom upp í fjárstofni þeirra.

Riðan hefur aðallega fundist í sauðfé en einnig í geitum sem eru náskyldar kindunum, en ekki þó hér á landi. Það hefur m.a. verið vandamál á Kýpur og í Grikklandi þar sem er meira um geitur en sauðfé. Kúariðan sem kom upp í Stóra-Bretlandi 1986 er einnig príonsjúkdómur. Tíu árum seinna kom upp mannariða (variant Creuzfeldt-Jakob) og tengdist hún kúariðufaraldrinum. „Við höfum sem betur fer sloppið við það. Það var bæði bannað að flytja inn lifandi dýr og kjötmjöl frá Bretlandi á þessum tíma en veikin breiddist frá Bretlandi með menguðu kjötmjöli,“ segir Stefanía. Hún segir ekki vitað til þess að kindariða hafi valdið riðu í mönnum. Gerð var faraldsfræðileg rannsókn á því hvort einhver tengsl væru á milli riðu í sauðfé og mönnum í Ísrael en ekki var hægt að sýna fram á að svo væri.

Riða hefur greinst í hreindýrum í Noregi. Einnig hefur fundist riða í stöku elg í Svíþjóð og Finnlandi. Þess vegna hefur MAST látið taka sýni úr veiddum hreindýrum hér og látið rannsaka þau. Riða hefur ekki fundist í íslenskum hreindýrum.

„Við vonumst til að vita eftir þrjú ár hvort hér er einn riðustofn eða hvort þeir eru fleiri. Einnig verður skoðaður skyldleiki við riðu í öðrum kindastofnum. Við tókum í fyrra sýni úr kindum af íslenskum uppruna í Grænlandi og erum búin að greina þau. Það fannst verndandi arfgerð í grænlenska fénu en líklega þurfum við ekki að flytja sæði þaðan vegna þess að arfgerðin fannst hér,“ segir Stefanía. Einnig á að rannsaka fleiri verndandi breytileika en ARR, eins og t.d. T137, AHQ og C151. Þá sést hvort það er þess virði að fjölga þessum breytileikum. Einnig á að rannsaka hvort hægt er að leysa riðuvandann á hagkvæmari hátt en nú er gert.