Nú hafa línur verið lagðar og eftirleikurinn ætti að verða auðveldari

Mikilvægur áfangi náðist í gær þegar Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamning við VR, samflot iðn- og tæknigreina og Landssamband verslunarmanna, fulltrúa alls um sextíu þúsund launamanna. Áður höfðu náðst samningar við Starfsgreinasambandið með um tuttugu þúsund félagsmenn og alls hefur því verið samið á almenna markaðnum við félög um áttatíu þúsunda launamanna.

Í gær, í ljósi þeirra samninga sem þá höfðu náðst, óskaði BHM eftir viðræðum við ríkið til að freista þess að flýta samningum. Hægt er að taka undir með formanni BHM að æskilegt sé að þegar verði hafist handa við að ljúka þeim samningum sem eftir eru, bæði á opinbera og almenna markaðnum. Með þeim kjarasamningum sem þegar hafa náðst er lagður góður grunnur að efnahagslegum stöðugleika. Þeir eru vissulega dýrir atvinnulífinu og ljóst að samningamenn þess hafa teygt sig eins og þeir frekast gátu til að samningar næðust, en það er rétt mat að enn dýrara hefði verið, bæði fyrir atvinnulíf og launamenn, ef samningar hefðu ekki náðst og átök orðið á vinnumarkaði með allri þeirri óvissu og kostnaði sem slíku fylgir.

En fleiri en félög í opinbera geiranum eiga eftir að semja. Fjöldi minni félaga á almenna markaðnum á eftir að ljúka samningum sínum, en einnig Efling, sem er fjölmennt félag. Forystumenn þess kusu að fara aðra leið en félagar þeirra, en nú geta þeir ekki lengur vikist undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að taka að sér að gæta hagsmuna þúsunda launamanna.