Orð Ragnars benda til að við séum nú þegar komin út í skurð

Ragnar Önundarson skrifaði sláandi grein í blaðið sl. laugardag. Hann segir að aðildin að EES hafi valdið almenningi vonbrigðum. „Fólk trúði því að tenging við stóra, virka markaði mundi þýða lægri framfærslukostnað. Svo reyndist ekki vera. Hann er tvöfaldur m.v. Evrópulönd. Örfá erlend félög hafa haslað sér völl hér og fljótt aðlagast fákeppni og sjálftöku. EES felur í sér alla umgjörð ESB um atvinnulíf og samkeppni. Aðild mundi engu breyta um fákeppnina. Erlendir fjárfestar, með erlent fjármagn og erlenda laxastofna, sem kallar á aukið erlent vinnuafl til landsins, misnota nú íslenska náttúru, með ofnýtingu og ófullnægjandi öryggi. Villtir stofnar, sem eiga, eins og aðrar lífverur sinn tilvistarrétt, eru hugsunarlaust settir í hættu.“

Þá bendir Ragnar á „gullæðið sem hefur gripið um sig í eftirsókn eftir vindi, sem ekki hefur skort á Íslandi. Ekki er hugsað fyrir því hvernig þetta náttúruafl geti leikið vindmyllur, þegar saman fer fárviðri og ísing. Enginn mun fjarlægja fallinn búnað gjaldþrota vindorkuvers. Venjuleg byggingarefni grotna niður í tímans rás og hverfa aftur til jarðar, en trefjagler / trefjaplast / koltrefjar eru óendurvinnanleg og þarf að urða, ef einhver vill þá borga fyrir það.“ Þá segir að „þegar Norðmenn höfðu gengið vopnum sínum framar í fiskeldi í sjó og drepið náttúrulegt lífríki fjarða og skerjagarðs með laxaskít og lúsaeitri leituðu þeir hingað. Hér fundu þeir ósnortna náttúru til að nauðga, og voru boðnir velkomnir í nafni Mammons. Nú eru Norðmenn búnir að sprengja ísaldarklappirnar sundur til að geta komið risavöxnum vindmyllum sínum fyrir. Strandlengja Noregs hefur verið kölluð „meistaraverk skaparans“. Andstaðan hefur farið vaxandi, svo nú leita þeir og þeirra peningar hingað. Hér eru fjöll og firnindi, víðerni, Fjallkona, sem upplagt er að nauðga, í nafni Mammons.

Staðreyndin er sú að engin fyrirstaða stenst mátt peninganna. Við erum að umturna bæði náttúru landsins og menningu fyrir Mammon. Ef íbúum landsins fjölgar áfram með sama hraða og síðustu fimm árin verður fólk af erlendu bergi brotið helmingur íbúa landsins árið 2035. Íslenskt mál og menning getur ekki staðist þá áraun. Ferðaþjónusta er orðin mesta gjaldeyrislind okkar. Fólk stórborga veraldarinnar þráir að upplifa náttúruna, sem það lítur til úr fjarlægð, á skjánum. Að grafa undan sinni helstu tekjulind er eins og að saga þá trjágreinina af sem maður situr á. Heimskan sést langar leiðir. Fórnum ekki ómetanlegum verðmætum, menningu og náttúru, á altari Mammons. Hann fær aldrei nóg, vill bara meira og meira.“

Er orðið of seint að bæta úr?