Hussein Stjórnvöld bera ábyrgð á seinkun málsins, ekki fjölskyldan.
Hussein Stjórnvöld bera ábyrgð á seinkun málsins, ekki fjölskyldan.
Hussein Hussein, flóttamaður frá Írak, og fjölskylda hans höfðu betur gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Féllst dómurinn á að þau bæru ekki ábyrgð á þeim töfum sem höfðu orðið á málinu og var úrskurður kærunefndar útlendingamála um brottvísun þeirra felld úr gildi

Hussein Hussein, flóttamaður frá Írak, og fjölskylda hans höfðu betur gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Féllst dómurinn á að þau bæru ekki ábyrgð á þeim töfum sem höfðu orðið á málinu og var úrskurður kærunefndar útlendingamála um brottvísun þeirra felld úr gildi. Að öllu óbreyttu tekur því Útlendingastofnun mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar. Þetta staðfesti Claudia Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is í gær.

Mál fjölskyldunnar vakti athygli í byrjun nóvember þegar lögreglan flutti Hussein og fjórtán aðra flóttamenn aftur til Grikklands þar sem fólkið hafði áður fengið alþjóðlega vernd. Samtökin Þroskahjálp gagnrýndu þá hvernig staðið væri að framkvæmd brottvísunarinnar þar sem Hussein var borinn úr hjólastól sínum inn í lögreglubíl. Átti brottvísunin sér stað stuttu áður en málið var tekið fyrir í héraðsdómi. Við aðalmeðferð málsins gáfu Hussein og fjölskyldan skýrslu frá Aþenu í Grikklandi í gegnum fjarfundarbúnað.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir ljóst að tryggja þurfi að Hussein Hussein fái efnismeðferð í sínu máli og fagnaði niðurstöðu þess í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. „Ég geri ráð fyrir því að það verði tryggt. En auðvitað, ef þar til gerð stjórnvöld ákveða að áfrýja málinu þá snýr það aðeins öðruvísi við,“ sagði hann og bætti við að eðlilegt væri að tekið sé tillit til fötlunar fólks í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Dómurinn hefur ekki verið birtur og er ekki enn komið fram hvort hann hafi litið til fötlunar Husseins.