Í formlegri spá fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar festi ég á blað, eða öllu heldur í bók, að Belgía yrði heimsmeistari árið 2022. Belgar entust ekki nema í þrjá leiki á HM. Voru sennilega orðnir of gamlir og þreyttir og fóru heim með skottið á milli lappanna

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í formlegri spá fyrir heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar festi ég á blað, eða öllu heldur í bók, að Belgía yrði heimsmeistari árið 2022.

Belgar entust ekki nema í þrjá leiki á HM. Voru sennilega orðnir of gamlir og þreyttir og fóru heim með skottið á milli lappanna.

Ég spáði því jafnframt að Brasilía færi í úrslitaleikinn og var vongóður lengi vel um að það myndi ganga eftir. Jafnframt að Richarlison yrði markakóngur keppninnar.

Brassarnir eru farnir heim. Þeir ráku sig á Króatana harðskeyttu sem leggja ekki í vana sinn að tapa leikjum á HM. Richarlison var vissulega aðalmarkaskorari þeirra gulklæddu.

En nú er þetta að þróast svipað og með Þjóðverjana forðum.

Gary Lineker mælti einhvern tíma þau fleygu orð að knattspyrna væri leikur tveggja liða þar sem Þýskaland færi með sigur af hólmi.

Það á ekki lengur við. Þýska stálið fór heim eftir riðlakeppnina í annað skiptið í röð.

Lineker gæti hins vegar yfirfært kenningu sína á Frakkana. Ég held að úrslitaleikur mótsins hafi þegar farið fram. Frakkar komust í gegnum leikinn við Englendinga og þar með tel ég að þeim séu allir vegir færir.

Auðvitað yrði það gríðarlegt ævintýri ef Marokkó myndi slá Frakkland út og ég myndi fagna því.

Að sjálfsögðu yrði stórkostlegt fyrir Lionel Messi að ná langþráðum heimsmeistaratitli með Argentínu.

En ég sé bara ekkert liðanna í undanúrslitunum leggja Frakkana að velli. Þeim til huggunar hef ég verið langt frá því að vera sannspár um þetta mót hingað til!