Hressir Halldór Benjamín og Aðalsteinn.
Hressir Halldór Benjamín og Aðalsteinn. — Morgunblaðið/Eggert
Ég hef mikið dálæti á mönnum sem ríma útlitslega mjög illa við störfin sem þeir gegna. Nærtækasta dæmið í þessari samningatörn allri er Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. Ég meina, hann er alveg ofboðslega óríkissáttasemjaralegur

Orri Páll Ormarsson

Ég hef mikið dálæti á mönnum sem ríma útlitslega mjög illa við störfin sem þeir gegna. Nærtækasta dæmið í þessari samningatörn allri er Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. Ég meina, hann er alveg ofboðslega óríkissáttasemjaralegur.

Aðalsteinn er alltaf óaðfinnanlega til fara og hefði ég aldrei séð hann í sjónvarpsfréttum þá myndi ég veðja allmörgum krónum á að hann væri einn af leikurunum úr Dressmannauglýsingunum ódauðlegu. Það er ekki bara útlitið, heldur ekki síður andinn. Það er alltaf lauflétt yfir Dressmönnum og sama á við um Aðalstein. Enda þótt hann hafi setið við samningaborðið dögum og nóttum saman er hann alltaf jafnhress í bragði og elskulegur á manninn í viðtölum. Maður með jafnaðargeð.

Annar maður sem rímar útlitslega mjög illa við starf sitt er félagi Aðalsteins við samningaborðið, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Hefði ég aldrei séð hann áður myndi ég halda að hann væri nútímatónskáld sem semja myndi mjög óreiðukennda og framsækna tónlist. Hann er í öllu falli ofboðslega óatvinnulífslegur. Tónskáldinu Halldóri myndi ábyggilega liggja mikið á hjarta og bæta þyrfti stólum við á sviðinu til að Sinfóníuhljómsveit Íslands gæti gert verkum hans fullnægjandi skil.

Höf.: Orri Páll Ormarsson