Orka 50 MW bætast við kerfið í öðrum fasa verkefnisins.
Orka 50 MW bætast við kerfið í öðrum fasa verkefnisins. — Skjáskot/Reykjavík Geothermal
Verkefni jarðvarmafyrirtækisins Reykjavík Geothermal, í Tulu Moye í Eþíópíu,hefur hlotið styrk upp á tíu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 1,4 milljarða króna, frá The Sustainable Development Fund for Africa (SEFA)

Verkefni jarðvarmafyrirtækisins Reykjavík Geothermal, í Tulu Moye í Eþíópíu,hefur hlotið styrk upp á tíu milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega 1,4 milljarða króna, frá The Sustainable Development Fund for Africa (SEFA). Þetta kemur fram á busiweek.com.

Fram kemur í fréttinni að alþjóðafyrirtækið Meridiam í París í Frakklandi og Reykjavík Geothermal hafi verkefnið sameiginlega með höndum. Það snýst um að bæta 50 MW af jarðvarmaorku við orkukerfi Eþíópíu.

Lýkur fyrir 2027

Á heimasíðu Reykjavík Geo­thermal segir að fyrsti fasi borana eigi að klárast á þessu ári og að verkefninu verði lokið fyrir árið 2027. Í frétt Busiweek kemur fram að stefnt sé að því að bæta öðrum 100 MW við síðar, í öðrum fasa verkefnisins. Fullbúið verður verkefnið fyrsta stóra einkarekna jarðvarmaverkefnið í landinu og fyrirtækin verða fyrsti einkarekni orkuframleiðandinn í Eþíópíu. SEFA-styrkurinn dregur, eins og segir í fréttinni, enn frekar úr áhættu við jarðboranir og hjálpar til við að afla markaðsfjármagns í verkefnið.

Vonast er til að styrkurinn komi til með að verða hvati fyrir aðra einkaaðila til að koma að jarðvarmaverkefnum í landinu, en erfitt hefur reynst að fá fjármagn til borana. Haft er eftir Maxence Mirabeau, forstjóra TMGO, í fréttinni, að nauðsynlegt sé að fá fjárstyrk frá traustum aðilum á meðan á áhættusömum borunum stendur. Þá lofar hann og þakkar SEFA fyrir að liðka fyrir uppbyggingu jarðvarmaveitna í Afríku.