Háspenna Holtavörðuheiðarlína 1 mun liggja um sveitir Borgarfjarðar.
Háspenna Holtavörðuheiðarlína 1 mun liggja um sveitir Borgarfjarðar.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Línuleið um Kjöl uppfyllir ekki markmið Landsnets um framtíðarþróun meginflutningskerfisins. Lína á milli Blönduvirkjunar og Hvalfjarðar um Kjöl myndi sneiða hjá Vesturlandi, Vestfjörðum og hluta af Norðurlandi vestra. Þannig myndu möguleikar, á auknu afhendingaröryggi og að tengja nýja notendur og framleiðendur orku við kerfið, minnka. Kemur þetta fram í svari upplýsingafulltrúa Landsnets við vangaveltum landeiganda í Borgarfirði um að skynsamlegra væri að fara um Kjöl en leggja Holtavörðuheiðarlínu 1 um sveitir Borgarfjarðar og upp á Holtavörðuheiði þar sem Holtavörðuheiðarlína 3 á að taka við og tengjast Blöndustöð.

Jafnframt kemur fram að ekki sé rétt hjá landeiganda, sem mælir á móti lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 meðfram eða nálægt núverandi byggðalínu og þar með um byggðir, að tvær línur liggi þegar um Kjöl og hægt væri að leggja nýju línuna samsíða þeim. Landsnet bendir á að tvær línur Sultartangalínu þveri Kjalveg í námunda við Gullfoss.

Unnið er að mati á umhverfisáhrifum umræddrar Holtavörðuheiðarlínu og hluti af þeirri vinnu felst í að meta ýmsa valkosti sem koma fram í umhverfismatsskýrslu. Fundur með landeigendum í gær var hluti af samráði um lagningu línunnar.

Þjóna sem varatenging

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að í áformum um að styrkja meginflutningskerfið sé gert ráð fyrir að nýr afhendingarstaður á Holtavörðuheiði verði lykilpunktur fyrir orkuafhendingu og tengingu nýrra orkuframleiðslueininga við kerfið. Horft sé meðal annars til orkuframleiðslu og raforkunotkunar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Núverandi 132 kV línukerfi hafi takmarkaða flutningsgetu og geti ekki þjónað því hlutverki sem nokkru nemi. Það komi því ekki í stað nýrrar 220 kV línu.

Gnýr Guðmundsson, yfirmaður greininga og áætlana í raforkukerfinu, bætir því við að búið sé að ákveða að eldri byggðalínur frá Hvalfirði og að Blöndustöð standi áfram og fái nýtt hlutverk. Það felst í því að þjóna sem fæðing inn á svæðisbundin flutningskerfi á svæðinu frá Borgarnesi og að Blönduósi, að Vestfjörðum meðtöldum. Einnig verði þær varatenging fyrir nýjar 220 kV línur og styðji þannig við kerfið í bilanatilfellum og minnki þannig líkurnar á kerfishruni með víðtæku rafmagnsleysi í kjölfarið.

Steinunn vekur athygli á því að í umhverfismatsskýrslu verði fjallað um landnotkun samkvæmt skipulagsáætlunum og þá eftir atvikum ef um er að ræða vindorkuver. „Sérstaklega verður lagt mat á áhrif valkosta á landbúnað og er sú vinna unnin af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og þau áhrif því einn þeirra þátta sem lagt verður mat á. Áréttað er að niðurstöður úr rannsóknum og greiningum liggja ekki fyrir, þær munu birtast í umhverfismatsskýrslu,“ segir Steinunn.

Höf.: Helgi Bjarnason