Skot Björgvin Þór Hólmgeirsson reynir skot að marki FH í gærkvöldi.
Skot Björgvin Þór Hólmgeirsson reynir skot að marki FH í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stjarnan og FH gerðu jafntefli, 29:29, í stórskemmtilegum leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Garðabænum í gærkvöldi. FH leiddi með þremur mörkum, 13:10, í hálfleik en í síðari hálfleik var allt í járnum allt til enda

Stjarnan og FH gerðu jafntefli, 29:29, í stórskemmtilegum leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Garðabænum í gærkvöldi. FH leiddi með þremur mörkum, 13:10, í hálfleik en í síðari hálfleik var allt í járnum allt til enda.

FH er áfram í 2. sæti deildarinnar, nú með 19 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Vals. Stjarnan heldur kyrru fyrir í 6. sæti þar sem liðið er með 14 stig.

Hergeir Grímsson var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Stjörnuna. Jóhannes B. Andrason og Ásbjörn Friðriksson voru markahæstir í liði FH, báðir með sjö mörk. Axel H. Hilmisson varði 11 skot í marki Hafnfirðinga.

Grótta vann þá mikilvægan 28:25-sigur á nýliðum ÍR í fallbaráttuslag. Lítið sem ekkert bar á milli liðanna stóran hluta leiksins en Grótta sigldi fram úr undir lokin og bar sigur úr býtum.

Grótta er enn í 9. sæti en nú með 11 stig, sex stigum meira en ÍR í 11. sæti, sem er fallsæti.

Andri Þ. Helgason og Jakob I. Stefánsson voru markahæstir í liði Gróttu, báðir með sjö mörk. Einar B. Baldvinsson varði þá 14 skot í marki liðsins. Dagur S. Kristjánsson var markahæstur hjá ÍR og í leiknum með átta mörk. Ólafur R. Gíslason varði 13 skot í marki ÍR.