Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Á annað hundrað tilnefningar bárust allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna heiðurslauna listamanna. „Yfir 70 listamenn voru tilnefndir og sumir oftar en einu sinni og oftar en tíu sinnum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar

Á annað hundrað tilnefningar bárust allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna heiðurslauna listamanna. „Yfir 70 listamenn voru tilnefndir og sumir oftar en einu sinni og oftar en tíu sinnum,“ segir Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar.

Hún sagði allsherjar- og menntamálanefnd hafa sent ráðgjafahópi sínum bréf með tilnefningum og sagðist vonast eftir að hann skilaði af sér áliti í gærkvöldi. Ef það gengi eftir myndu þau reyna að taka málið fyrir á fundi í dag.

Ráðgjafahópinn segir Bryndís vera ráðgefandi. Hann sé skipaður fólki sem þekki vel til og því geri hún ráð fyrir að hlustað verði á það sem hann hefur fram að færa. Það sé þó allsherjar- og menntamálanefndar að taka endanlega ákvörðun.

Að hámarki getur nefndin bætt við fjórum á heiðurslaunalistann en hún segist alls ekki viss um að öll plássin verði fyllt í þetta sinn. „Ég vil að við leggjum fram einhverja óumdeilda aðila sem eiga þarna erindi og við getum sammælst um.“

Staða Megasar á heiðurslaunalistanum hefur verið gagnrýnd vegna ásakana um kynferðisbrot. Bryndís segir að breytt hugmyndafræði í kjölfar metoo-byltingarinnar hafi komið til umræðu í nefndinni. „Svo það er markmið sem við höfum sett okkur; að horfa bæði til afreka á listasviðinu en líka til orðspors viðkomandi einstaklings. Við viljum með því reyna eins og kostur er að tryggja að þeir sem fara inn á þennan lista hafi orðspor sem sé þess sæmandi að vera þar.“ ragnheidurb@mbl.is