Gleði Ruben Östlund, lengst til vinstri, með leikkonunum Vicki Berlin (t.v.) og Sunnyi Melles, leikaranum Zlatko Buric (fyrir miðju) og framleiðandanum Erik Hemmendorff, við komuna í Hörpu á laugardag.
Gleði Ruben Östlund, lengst til vinstri, með leikkonunum Vicki Berlin (t.v.) og Sunnyi Melles, leikaranum Zlatko Buric (fyrir miðju) og framleiðandanum Erik Hemmendorff, við komuna í Hörpu á laugardag. — Morgunblaðið/Eggert
Gleðin var mikil hjá sænska leikstjóranum Ruben Östlund og hópi hans í Hörpu á laugardag þegar Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, EFA, voru afhent. Hlaut kvikmynd Östlunds, Triangle of Sadness, fern verðlaun og þar af sem besta evrópska kvikmyndin

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Gleðin var mikil hjá sænska leikstjóranum Ruben Östlund og hópi hans í Hörpu á laugardag þegar Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, EFA, voru afhent. Hlaut kvikmynd Östlunds, Triangle of Sadness, fern verðlaun og þar af sem besta evrópska kvikmyndin. Östlund hlaut verðlaun sem besti leikstjóri og handritshöfundur og einn af aðalleikurum myndarinnar, Zlatko Buric, hlaut styttu sem besti leikari. Fyrir hafði myndin hlotið ein virtustu verðlaun kvikmyndaheimsins, Gullpálmann í Cannes, og eflaust verða verðlaunin fleiri á komandi mánuðum.

Að verðlaunaathöfn lokinni sátu Östlund, Buric og tvær af leikkonum myndarinnar, Vicki Berlin og Sunnyi Melles, fyrir svörum í einum af minni sölum Hörpu auk framleiðenda og skein gleðin úr andlitum þeirra og það eðlilega. Östlund er orðinn býsna sjóaður þegar kemur að verðlaunaathöfnum og þakkarræðum en fyrri myndir hans hafa einnig átt góðu gengi að fagna, einkum The Square og Force Majeure en sú fyrrnefnda hlaut Gullpálmann líkt og Triangle of Sadness.

Fullorðinsrússíbani

Fyrstu spurningu þessa stutta blaðamannafundar í Hörpu fær Östlund og er hún á þá leið hvort verðlaunin hafi komið honum á óvart. Nei, ekki gerðu þau það, svarar Östlund, og að markmið hans hafi verið að búa til fullorðinsrússíbana í formi kvikmyndar sem fólk geti notið saman og svo talað um að lokinni bíóferð. „Ég er ofuránægður með að þetta hafi skilað sér í verðlaunum,“ segir Östlund.

Ofanritaður spyr Östlund hvað hann ætli að taka fyrir næst, nú þegar hann sé búinn að beina spjótum sínum að myndlistarheiminum í The Square, brothættri sjálfsmynd karla í Force majeure og hinum ofurríku og dekruðu í Triangle of Sadness. „Ég vil glaður tala um næstu kvikmynd mína sem mun heita The Entertainment System is Down og gerist um borð í flugvél í langflugi,“ svarar Östlund. Fljótlega eftir flugtak fái farþegar þær „hryllilegu“ fréttir að afþreyingarkerfi vélarinnar virki ekki. Rafhlöður snjalltækjanna, símanna og tölvanna, séu að tæmast og þá þurfi þetta nútímafólk í vélinni að bjarga sér, fólk sem er algjörlega háð dópamíngjöf tækninnar. Östlund segir þetta prakkaralegur á svip og viðstaddir hlæja að hugmyndinni. „Þetta fólk þarf að glíma við leiða og þarf að blanda geði hvert við annað,“ segir hann sem ætlar enn á ný að kafa á félagsfræðilegan hátt í hegðun okkar mannanna. „Og ég get sagt þér núna strax að myndin endar með því að flugvélin brotlendir og allir deyja. Þú mátt skrifa það ef þú vilt,“ segir Östlund með glott á vör og viðstaddir hlæja innilega.

160 tökur á einu atriði

Næsta spurning snýr að kynningarherferð myndarinnar fyrir Óskarsverðlaunin á næsta ári og segir Östlund miður hversu langur tími fari í slíka vinnu þegar kvikmynd sé löngu tilbúin og sýningar auk þess löngu hafnar. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin séu betri hvað þetta varðar, engin tryllingsleg kynningarherferð fyrir þau.

Östlund er spurður að því hvort hann telji Evrópsku kvikmyndaverðlaunin skipta miklu þegar kemur að því að ná til fleiri áhorfenda í Evrópu. Hann er snöggur til svars og segir það velta á spyrjandanum sem reynist vera sænskur fjölmiðlamaður. Umfjöllun hans, það er að segja. „Það væri frábært ef verðlaunin hefðu þau áhrif,“ bætir Östlund við og að því beri að fagna ef kvikmyndir frá öðrum löndum en hinum enskumælandi fái mikla athygli og aðsókn.

Leikkonurnar tvær eru spurðar að því hvernig hafi verið að vinna með Östlund. „Mér líkaði mjög vel að vinna með Ruben,“ svarar Berlin og segir hann krefjast mikils af leikurum og vilja margar tökur á hverju atriði. Það hafi henni þótt gott því þá hafi hún ekki þurft að ná sinni bestu frammistöðu í fyrstu fimm. „Stundum urðu tökurnar 160, ég var að knýja dyra og gerði það 160 sinnum, ég taldi tökurnar,“ segir Berlin kímin. Þá sé gott að vinna með Östlund því hann vilji að leikarar séu trúverðugir og sýni sínar allra bestu hliðar. Í því felist mikið öryggi þar sem leikarinn viti að leikstjórinn geri miklar kröfur um gæði.

Melles fær orðið og segist kunna að meta vinnusemi leikstjórans og það frelsi sem hann hafi veitt henni sem leikkonu. Þegar hún hætti að vera meðvituð um sjálfa sig og frammistöðu sína, líkt og hún gerði við tökur á Triangle of Sadness, sé það eins konar kraftaverk. Mestu skipti að vera sannur eða sönn í listsköpun sinni. „Þegar við vorum í Cannes og fólk var að fagna myndinni […] myndaðist svo mikil orka að það var engu líkt,“ segir Melles, dreymin á svip. Að græta áhorfendur sé engan veginn einfalt en miklu erfiðara að fá þá til að hlæja.

Asni valinn af unga fólkinu

Nú bendir einn fjölmiðlamanna Östlund á að ein verðlaun hafi hann ekki hlotið á EFA, þau sem valin eru af háskólanemum og eru kennd við unga bíógesti, Young Audience Award. Þau hlaut kvikmyndin EO sem sögð er frá sjónarhorni asna. Spyrjandi bendir á að Östlund hafi aftur á móti drepið asna í sinni mynd og Östlund hlær. „Já, unga fólkið í Evrópu í dag er svo pólitískt réttsýnt,“ svarar hann sposkur og segist fagna því að EO hafi hlotið verðlaun því hún sé frábær.