Flugeldar Þessi stóðu vaktina í flugeldasölu Landsbjargar í fyrra.
Flugeldar Þessi stóðu vaktina í flugeldasölu Landsbjargar í fyrra. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Allt gengur samkvæmt áætlun í undirbúningi hjá flugeldasölum björgunarsveitanna, segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en fyrstu sölustaðir verða opnaðir 28

Allt gengur samkvæmt áætlun í undirbúningi hjá flugeldasölum björgunarsveitanna, segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en fyrstu sölustaðir verða opnaðir 28. desember.

„Af hálfu Landsbjargar eru allir þeir flugeldar sem voru pantaðir komnir til landsins og nú er verið að ganga frá sendingum út til björgunarsveitanna.“

Spurður hvort búast megi við verðhækkunum segir hann: „Ég held að það sé nokkuð ljóst að það verður einhver hækkun frá síðasta ári, það er 10% verðbólga og gengið hefur ekki verið okkur Íslendingum hagstætt. Það snertir flugelda eins og annað.“

Stendur undir rekstrinum

Jón Þór segir að björgunarsveitirnar vonist eftir sem mestri sölu enda sé um að ræða helstu fjáröflun sveitanna. „Það liggur alveg fyrir að þetta er það sem stendur undir starfi björgunarsveitanna. Að meðaltali stendur þetta undir 60-70% af rekstrarkostnaði sveitanna, í sumum tilvikum allt upp í 80%.“

Hann minnir þó á að salan sé nokkuð háð veðurspánni dagana fyrir áramót. „Allt að helmingur af sölunni á sér stað eftir hádegi á gamlársdag. Þannig hefur það verið undanfarin ár og áratugi. Það virðist vera hluti af áramótahefðum Íslendinga. Það er reyndar að aukast svolítið að fólk kaupi á netinu. Margar sveitir bjóða upp á það.“ ragnheidurb@mbl.is