Líftæknifyrirtækið Amgen, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, tilkynnti í gærmorgun um yfirtöku félagsins á lyfjafyrirtækinu Horizon Therapeutics. Kaupvirði fyrirtækisins nemur tæpum 28 milljörðum Bandaríkjadala samkvæmt frétt AFP, sem gerir…

Líftæknifyrirtækið Amgen, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, tilkynnti í gærmorgun um yfirtöku félagsins á lyfjafyrirtækinu Horizon Therapeutics. Kaupvirði fyrirtækisins nemur tæpum 28 milljörðum Bandaríkjadala samkvæmt frétt AFP, sem gerir þetta að stærstu viðskiptum í heilbrigðisgeiranum á þessu ári. Kaupverðið nemur 116,5 dölum á hlut, sem er 20% yfir gengi félagsins við lok markaða á föstudag. Amgen fjármagnar kaupin með brúarláni en þau eru háð samþykkti eftirlitsstofnana vestanhafs. Gert er ráð fyrir að viðskiptunum ljúki á fyrri helmingi næsta árs.

Horizon Therapeutics, sem er með höfuðstöðvar á Írlandi, var stofnað árið 2005 og sérhæfir sig í rannsóknum og þróun lyfja við sjaldgæfum sjúkdómum, svo sem sjálfsofnæmi, sjaldgæfum gigtarsjúkdómum og öðrum bólgusjúkdómum. Félagið er þekkt fyrir framleiðslu á lyfinu Tepezza, sem notað er við svonefndum Graves-sjúkdómi, sem er skjaldkirtilssjúkdómur sem hefur áhrif á augnvef. Sala félagsins á lyfinu nam í fyrra um 3,2 milljörðum dala og jókst um helming á milli ára. Gert er ráð fyrir að salan í ár nemi rúmlega fjórum milljörðum dala. Þá er jafnframt beðið eftir að yfirvöld í Evrópu og Japan leggi blessun sína yfir sölu lyfsins.

Nokkur áhugi hefur verið á fyrirtækinu að undanförnu en í frétt AFP kemur fram að Johnson & Johnson og franska fyrirtækið Sanofi hafi einnig átt í viðræðum um möguleg kaup á fyrirtækinu. Amgen yfirtók annað lyfjafyrirtæki í október sl., bandaríska félagið ChemoCentryx, fyrir um 3,7 milljarða dala að því er Wall Street Journal greinir frá.