Hjónin Lilja og Svavar í Spartan-hindrunarhlaupi í Verbier í Sviss fyrr á árinu.
Hjónin Lilja og Svavar í Spartan-hindrunarhlaupi í Verbier í Sviss fyrr á árinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Kjalarsdóttir fæddist 13. desember 1982 í Reykjavík og ólst upp í Ásbúð í Garðabænum, Hún dvaldi nokkur sumur sem barn á Kjalvararstöðum í Reykholtsdal hjá frændfólki. „Ég elskaði að vera í sveit, sérstaklega þegar það var brjálað að gera eins og í heyskap og réttum

Lilja Kjalarsdóttir fæddist 13. desember 1982 í Reykjavík og ólst upp í Ásbúð í Garðabænum, Hún dvaldi nokkur sumur sem barn á Kjalvararstöðum í Reykholtsdal hjá frændfólki. „Ég elskaði að vera í sveit, sérstaklega þegar það var brjálað að gera eins og í heyskap og réttum. Ég fer enn í réttir í dag og finnst það ekkert minna gaman núna á fullorðinsárunum.“

Eftir hefðbundið grunnskólanám í Garðabæ fór hún í Fjölbrautaskólann í Garðabæ og útskrifaðist 2001 af náttúrufræðibraut með besta árangur í efnafræði. Hún lauk BS-námi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands og lauk síðan PhD í sameindalíffræði frá UT Southwestern Medical Center í Dallas, Texas í Bandaríkjunum. Hún hlaut ýmis verðlaun fyrir doktorsverkefnið og fékk m.a. fría ferð á ráðstefnu og tækifæri til að kynna verkefnið.

Lilja æfði sund og fótbolta hjá Stjörnunni. „Þegar ég var yngri var ég nánast ekkert heima hjá mér, ég var annaðhvort úti að leika, spila fótbolta með strákunum í hverfinu eða á æfingu. Þegar ég kom heim þóttist ég fara snemma að sofa en var upp í rúmi að lesa langt fram á nótt. Á endanum þurfti ég að velja íþrótt og það var fótboltinn sem vann enda var félagsskapurinn svo frábær, síðan skemmdi ekki fyrir hvað við vorum með gott lið í yngri flokkunum.“ Lilja var valin efnilegasti unglingur Garðabæjar í fótbolta árið 1999.

Lilja byrjaði að spila með meistaraflokki Stjörnunnar 1998 og spilaði þangað til hún flutti til Bandaríkjanna 2006. Hún var fyrirliði liðsins í nokkur ár, valin besti leikmaður Stjörnunnar 2003 og spilaði með unglingalandsliðunum U-16 og U-21. Hún var fótboltaþjálfari hjá 6. flokki kvenna hjá Stjörnunni 2002-2006.

Ég flutti að heiman 18 ára og byrjaði að búa með manninum mínum Svavari, fyrst í leiguíbúð en svo keyptum við litla íbúð í Lyngmóum í Garðabæ árið 2002. Það var brjálað hark að byrja að búa svona ung, Svavar var að þjálfa í Betrunarhúsinu í Garðabæ og ég var yfirleitt í nokkrum aukavinnum með fótboltanum og skólanum. Ég nýtti eyður í skólanum til að skúra, saumaði tuskur í akkorði á kvöldin fyrir Blindrafélagið og þjálfaði 6. flokk kvenna og síðan var ég líka eitthvað í símasölu.“ Þau Svavar gengu í hjónaband í júlí 2006 og fluttu til Dallas í ágúst 2006 til að fara í doktorsnám.

„Við eignuðumst Ísak á meðan ég var í doktorsnámi, ég var heima í fimm vikur og svo farin á fullt í námið aftur. Svavar var heima og ég pumpaði og kom með mjólk heim. Ég útskrifaðist í desember 2011 og síðan fluttum við til Norður-Karólínu til að taka við stöðu við rannsóknir sem nýdoktor í Duke University. Magnús fæddist svo í september 2012 og þá fékk ég sex vikur heima áður en ég var komin í fulla vinnu aftur. Svavar þjálfaði í bílskúrnum og var heima á daginn til að sjá um strákana.“

Árið 2014 fékk Lilja stöðu rannsóknar- og þróunarstjóra hjá líftæknifyrirtækinu Genís. „Við fengum þarna óvænt tækifæri til að flytja aftur heim, Það var ótrúlegt ævintýri að vinna hjá Genís og fara frá sex starfsmönnum og upp í 33, færa Benecta af rannsóknarstofunni, inn í nýja framleiðslu á Siglufirði og síðan inn í verslanir. Ég hætti svo hjá Genís í lok 2016, gerði starfslokasamning og nýtti árið 2017 til að klára nokkrar greinar sem ég átti eftir að birta. Ég fékk aðstöðu hjá Halldóri Jónssyni, yfirlækni bæklunarskurðlækningadeildar Landspítalans, en við höfðum unnið saman að rannsóknum á beingræði sem var í þróun hjá Genís. Í janúar 2018 tók ég við stöðu rannsóknar- og þróunarstjóra hjá Saganatura sem var í sameiningarfasa en það myndaðist við sameiningu SagaMedica og Keynatura. Mjög fljótlega færðist ég í stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra og rak fyrirtækið með Sjöfn Sigurgísladóttur þáverandi framkvæmdastjóra. Ég tók svo við sem framkvæmdastjóri í febrúar 2020. Ég elskaði þetta hlutverk þó að það hafi verið mjög erfitt á köflum, maður var allt í öllu í svona litlu fyrirtæki og það mætti segja að þetta hafi verið svona MBA-nám á sterum.“

Í maí 2022 færði Lilja sig svo yfir til líftæknifyrirtækisins Alvotech og tók við stöðu sem yfirmaður rekstrar og strategíu í rannsóknar- og þróunardeildinni. „Núna er ég að læra á Alvotech eins hratt og ég get og er að vinna með fólki deildarinnar í að besta rekstur hennar.

Þó að ég sé vísindamaður í grunninn þá hef ég ótrúlega gaman af rekstri og teymisuppbyggingu og innst inni hef ég alltaf verið mikil sölumanneskja. Ég set mér alltaf markmið og keppist við að ná þeim, en ég er samt alltaf tilbúin til að breyta um stefnu ef ég fæ frábær tækifæri. Það hefur reynst mér vel.

Ég er mikil útivistarmanneskja og hleð batteríin í náttúrunni. Ég spila ennþá fótbolta, elska að veiða silung og lax, fara í göngur og hjóla á fjallahjóli.“

Fjölskylda

Eiginmaður Lilju er Svavar Sigursteinsson, f. 17.3. 1980, einkaþjálfari og ljósmyndari. Þau eru búsett í Smárahverfinu í Kópavogi. Foreldrar Svavars eru Sigursteinn Steinþórsson, f. 29.3. 1954, fv. aðalvarðstjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, búsettur á Selfossi, og Svava Hugrún Svavarsdóttir, f. 11.4. 1957, sjúkraliði, búsett í Hafnarfirði.

Synir Lilju og Svavars eru Ísak Þór, f. 25.9. 2009, og Magnús Þór, f. 27.9. 2012.

Systkini Lilju eru Íris Kjalarsdóttir, f. 5.3. 1985, lögfræðingur, búsett í Garðabæ, og Stefnir Skúlason, f. 2.9. 1968, rafmagnsverkfræðingur, búsettur í Garðabæ.

Foreldrar Lilju voru Guðmundur Kjalar Jónsson, f. 19.10. 1945, d. 10.2. 2021, skipstjóri, síðast búsettur í Danmörku, og Særún Sigurgeirsdóttir, f. 14.5. 1947, d. 12.3. 2022, ritari, bjó í Garðabæ.