Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir eru komin til Melbourne í Ástralíu þar sem þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í 25 metra laug. Þau hefja bæði keppni laust eftir miðnættið í nótt, á miðvikudagsmorgni að staðartíma, en mótinu lýkur …

Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir eru komin til Melbourne í Ástralíu þar sem þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í 25 metra laug. Þau hefja bæði keppni laust eftir miðnættið í nótt, á miðvikudagsmorgni að staðartíma, en mótinu lýkur á sunnudaginn kemur. Anton keppir í 100, 200 og 50 metra baksundi en hann er með 7. besta tíma allra keppenda í 200 metrunum og í 17. og 27. sæti í hinum greinunum. Snæfríður á 17. besta tímann í 200 metra skriðsundi og 28. besta tímann í 100 metra skriðsundi.

Eydís Magnea Friðriksdóttir og Þórður Jökull Henrysson hafa verið valin karatefólk ársins hjá Karatesambandi Íslands. Eydís keppir fyrir Fjölni í kata og kumite og Þórður fyrir Aftureldingu í kata. Bæði urðu þau Íslands- og bikarmeistarar á árinu og Þórður vann tvenn gullverðlaun og Eydís tvenn bronsverðlaun á Evrópumóti smáþjóða.

Tveir af fastamönnum franska landsliðsins í knattspyrnu gátu ekki æft með liðinu í gær en Frakkar búa sig undir leikinn gegn Marokkó í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í Katar annað kvöld. Varnarmaðurinn Dayot Upamecano og miðjumaðurinn Aurélien Tchouaméni voru ekki með á æfingunni en Upamecano er sagður veikur og Tchouameni meiddur í kálfa. Samkvæmt L'Equipe eru þó taldar góðar líkur á að báðir verði leikfærir gegn Marokkó á morgun.

Luis de la Fuente, nýráðinn þjálfari karlaliðs Spánar í knattspyrnu, er opinn fyrir því að varnarmaðurinn sigursæli, Sergio Ramos, snúi aftur í landsliðið. Hinn 36 ára gamli Ramos hefur leikið 180 landsleiki fyrir Spán, þann síðasta í mars á síðasta ári. Hlaut hann ekki náð fyrir augum Luis Enrique á HM 2022 í Katar né EM á síðasta ári. Enrique lét af störfum eftir að Spánn féll úr leik í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins og sagði de la Fuente á blaðamannafundi að það væri sjálfsagt mál að íhuga að velja Ramos í landsliðið að nýju. „Já, hann getur átt afturkvæmt í landsliðið. Hann er í góðu formi og allir leikmenn sem eru í góðu formi koma til greina í landsliðið.“ Ramos er lykilmaður í vörn franska stórliðsins París Saint-Germain og hefur aldrei tilkynnt það sjálfur að landsliðsskórnir væru komnir á hilluna.