Meistarar Luka Modric og Lionel Messi mætast í kvöld þegar Króatía og Argentína eigast við í undanúrslitum heimsmeistaramótsins.
Meistarar Luka Modric og Lionel Messi mætast í kvöld þegar Króatía og Argentína eigast við í undanúrslitum heimsmeistaramótsins. — AFP/Nelson Almeida/Alfredo Estrella
Marokkó – heldur ævintýri Afríkuþjóðarinnar áfram í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í fótbolta? Modric – fer hann aftur með Króatíu í úrslitaleik HM og jafnvel skrefinu lengra? Messi – rætist loksins draumur hans um…

HM í Katar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Marokkó – heldur ævintýri Afríkuþjóðarinnar áfram í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í fótbolta?

Modric – fer hann aftur með Króatíu í úrslitaleik HM og jafnvel skrefinu lengra?

Messi – rætist loksins draumur hans um heimsmeistaratitil með Argentínu?

Mbappé – sér hann til þess að Frakkar verði fyrsta þjóðin í 60 ár til að verða heimsmeistari tvisvar í röð?

Við þessum fjórum spurningum fást svör næstu tvö kvöld og síðan á sunnudaginn kemur en fram undan eru fjórir síðustu leikir HM 2022. Tveir undanúrslitaleikir ásamt úrslitaleikjunum um brons og gull.

Króatar mæta Argentínumönnum í fyrri undanúrslitaleiknum í Katar í kvöld klukkan 19 og liðin eigast því við á öðru heimsmeistaramótinu í röð. Króatar léku Lionel Messi og félaga hans grátt í riðlakeppninni í Rússlandi fyrir fjórum árum þegar liðin voru bæði með Íslandi í riðli. Króatar unnu 3:0, þar sem Luka Modric var á meðal markaskoraranna, og fóru alla leið í úrslitaleikinn á meðan Argentína skreið naumlega áfram og féll út gegn Frakklandi í 16-liða úrslitum.

Núna er Argentína almennt talin líklegri sigurvegari en gleymum því ekki að Króatía hefur aðeins tapað einum af tólf leikjum sínum á HM 2018 og 2022. Það var úrslitaleikurinn gegn Frakklandi fyrir fjórum árum.

Í þessari keppni hafa Króatar komist í gegnum fjóra hörkuleiki sem allir hafa endað með jafntefli, auk þess að vinna Kanada 4:1.

Argentínumenn byrjuðu hinsvegar á tapi gegn Sádi-Aröbum en unnu síðan Mexíkó, Pólland, Ástralíu og loks Holland í ótrúlegum leik og vítaspyrnukeppni.

Miklar tilfinningar

Frakkland mætir Marokkó annað kvöld. Það ætti að öllu eðlilegu ekki að vera spennandi viðureign en framganga Marokkómanna í Katar hefur verið með þeim eindæmum að liðið er enn til alls líklegt.

Gríðarlega miklar tilfinningar verða í gangi í kringum þessa viðureign sem má líkja við leiki milli Íslands og Danmerkur. Frakkar réðu ríkjum í Marokkó til 1956 og tengslin milli þjóðanna eru því mikil. Portúgal og Spánn áttu á sínum tíma hluta af Marokkó en Afríkuþjóðin hefur nú sent báða þessa nágranna sína heim frá Katar.

Fimm leikmanna Marokkó spila með frönskum liðum, þar á meðal stjarnan Achraf Hakimi með París SG. Fyrirliðinn Roman Saiss og sóknarmaðurinn Sofiane Boufal eru báðir fæddir og uppaldir í Frakklandi, sem og þjálfarinn Walid Regragui, þannig að tilfinningarnar eru miklar og ljóst að frönsku heimsmeistararnir eiga snúið verkefni fyrir höndum.

Marokkó er aðeins þriðja þjóðin utan Evrópu og Suður-Ameríku sem kemst í undanúrslit HM. Bandaríkjamenn náðu þangað í fyrstu keppninni í Úrúgvæ árið 1930 og Suður-Kórea komst í undanúrslit á heimavelli á HM 2002. Afríkulið hefur aldrei áður náð svona langt, og ekki heldur Arabaþjóð.

En eftir sem áður eru Frakkar sigurstranglegasta liðið af þeim fjórum sem nú leika í undanúrslitum mótsins og þeir sýndu styrk sinn með því að slá öflugt lið Englendinga út í átta liða úrslitunum. Flestir spá því að Frakkland og Argentína mætist í úrslitaleiknum á sunnudaginn kemur en það skýrist í kvöld hvort Argentínumenn standi undir þeim væntingum.