Aðstoð Þórdís Kolbrún ásamt Georg Kr. Lárussyni, Jeannette Menzies sendiherra og fleirum.
Aðstoð Þórdís Kolbrún ásamt Georg Kr. Lárussyni, Jeannette Menzies sendiherra og fleirum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við höfum fengið að heyra það alloft innan úr höfuðstöðvum [Atlantshafsbandalagsins] að þessi hlýi fatnaður og það að geta klætt af sér kuldann, sé jafnmikilvægt og að fá send skotvopn eða önnur vopn

„Við höfum fengið að heyra það alloft innan úr höfuðstöðvum [Atlantshafsbandalagsins] að þessi hlýi fatnaður og það að geta klætt af sér kuldann, sé jafnmikilvægt og að fá send skotvopn eða önnur vopn. Það sem við erum að gera hér er raunverulegt framlag og skiptir raunverulega máli fyrir kaldar vikur fram undan,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra um níu tonna sendingu af fötum sem fóru til Úkraínu frá Keflavíkurflugvelli í gær með kanadískri herflutningavél.

Afrakstur sjálfboðavinnu

Þórdís var viðstödd á flugvellinum er fatnaðurinn var fluttur um borð í flugvélina, sem og Jeannette Menzies, sendiherra Kanada Íslandi, og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Einnig mættu fulltrúar þeirra sem hafa staðið fyrir söfnun á fötum og prjónaflíkum.

Um er að ræða samstarfsverkefni Íslands og Kanada. Um borð í flugvélina fór prjónavarningur, hlý föt, skór og sjúkragögn sem ætluð eru varnarsveitum Úkraínu og almenningi. Stór hluti varningsins er afrakstur sjálfboðavinnu þúsunda Íslendinga en utanríkisráðuneytið lagði einnig sitt af mörkum.

Þórdís Kolbrún segir framlagið í anda Íslendinga. „Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá kassa merkta Sendum hlýju, með varningi sem almennir Íslendingar hafa verið að prjóna á heimilum sínum, saman í saumaklúbbum, hjúkrunar- og dvalarrýmum, og svo framvegis, til þess að stuðla að því að fætur og hendur séu nægilega hlý til þess að starfa.“ hmr@mbl.is