Valdís Þorsteinsdóttir fæddist 7. febrúar 1932. Hún lést 23. nóvember 2022. Útför Valdísar var 6. desember 2022.

„Fyrirgefið hvað við erum seint á ferð – það punkteraði hjá okkur!“

Ég hafði aldrei hitt verðandi tengdamömmu mína fyrr – en inn á mitt stofugólf var hún komin og ég skildi ekkert hvað konan var að segja! Hún var blaðskellandi – það óð á henni og hún fyllti strax herbergið sem hún var í – sem síðar kom í ljós að var einkennandi fyrir hana.

Tengdamamma mín var frá Hrísey og talaði því norðlensku og auðvitað fékk ég fljótlega þá skýringu að það hefði einfaldlega sprungið dekk á leiðinni og því hefði ferðin suður heiðar tekið lengri tíma en áætlað var. Eftir þessi fyrstu kynni vorum við tengdamamma þó oftast á sömu blaðsíðunni og skildum hvor aðra þótt ólíkar værum, en samt á margan hátt svo líkar.

Lóa tengdamamma hafði einn þann stærsta faðm sem ég hef kynnst og alltaf stóð þessi faðmur opinn fyrir afkomendurna 60 og okkur hin. En þótt hún hafi verið óspör á faðmlögin var hún ekki síður óspör á ráð og skoðanalaus var hún ekki og æði stjórnsöm á köflum. Þegar sá gállinn var á henni var lítið annað að gera en líta undan, brosa út í annað – og gera síðan það sem sú gamla vildi. En þegar horft er til baka er það þó grallarinn hún tengdamamma sem lifir skærast í minningunni – lífsglöð kona sem undi sér best með sínum.

Það var oft fjölmennt í Brekkugötunni í Hrísey og þegar fjölskyldan safnaðist saman var einatt mikið fjör. Á sumrin endaði gleðskapurinn oft á því að gengið var út í fallega sumarnótt og í leyfisleysi var stundum prílað yfir girðinguna á sundlauginni og tekinn sundsprettur. Á einni slíkri kvöldgöngu kom grallarinn upp í tengdamömmu og hún fór að færa allan þvott Hríseyinga sem hékk til þerris á milli þvottasnúra þannig að morguninn eftir beið það verkefni margra í eynni að leita uppi þvottinn sinn. Uppátækið vakti litla hrifningu í eynni en tengdamömmu var fyrirgefið fyrir rest enda góðlátlegur hrekkur, sem oft var hlegið að.

Tengdamamma skilur eftir sig mikinn mannauð en hún missti mikið þegar Silli tengdapabbi dó fyrir um áratug. Þau voru enda oftast nefnd í sömu andránni, „Lóa og Silli“, því lífsganga þeirra saman spannaði yfir sex áratugi. Við tóku góð ár á Dalvík þar til augnsjúkdómur gerði tengdamömmu svo til blinda síðustu æviárin. Það voru grimm örlög sem skertu lífsgæði hennar verulega og ég veit að hún var tilbúin til að kveðja fyrir þó nokkru. Hún var tilbúin í ferðalagið mikla enda sátt við Guð og menn.

Við tengdamamma trúðum báðar að tilveru okkar lyki ekki með þessari jarðvist. Því kveð ég að sinni – um leið og ég þakka tengdamömmu fyrir mig og mína.

Margrét.

Nú hefur hún Lóa vinkona mín og frænka kvatt þennan heim. Ég var 12 ára þegar við kynntumst fyrst, þá var ég að fara út í Hrísey að passa Þóru systur hennar. Ég hafði aldrei farið í flugvél fyrr, en ég flaug til Akureyrar og dvaldi hjá Lóu og Silla eina nótt og fór svo daginn eftir út í Hrísey. Þetta var mikið ferðalag fyrir mig.

Það voru 10 ár á milli okkar Lóu, en ég leit alltaf á hana sem vinkonu mína. Seinna, þegar hún var orðin reikimeistari, hringdi ég í hana ef börnin mín eða foreldrar voru veik. Eitt sinn sagði hún við mig: „Böggý mín, þú getur bara hugsað til mín ef þú þarft aðstoð að handan,“ og gerði ég það.

Ég og Valli maðurinn minn heimsóttum Lóu og Silla oft í gegnum árin í Hafnarvík, en þaðan fórum við á litlum bát út á Eyjafjörðinn og veiddum þorsk á stangir og svo var farið með veiðina í frystihúsið. Einnig heimsóttum við þau í húsvagninn og á Dalvík.

Lóa var mjög ósatt við að missa sjónina og lokaði sig inni á herbergi. Sagðist ekki geta verið innan um fólk sem hún sæi ekki.

Elsku Þóra, Konni, Dísa, Sigurjón, Blængur, Stína og Siggi, við Valli sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Björg (Böggý) frænka.