Kristján Ingi Helgason fæddist í Keflavík 14. maí 1948. Hann lést á heimili sínu 27. nóvember 2022.

Foreldrar hans voru Ásgerður Runólfsdóttir frá Kornsá í Vatnsdal, f. 1924, d. 1993, og Helgi Kristinn Sveinsson frá Siglufirði, f. 1918, d. 1979. Sammæðra bræður hans eru Brynjar Þór Hafdal, f. 1951, d. 2010, og Einar Helgi Aðalbjörnsson, f. 24. júní 1957. Samfeðra systkini eru Kristján Sveinn Helgason, f. 8. febrúar 1945, d. 17. janúar 1975, Geirlaug Helgadóttir, f. 16. ágúst 1951, og Guðný Helgadóttir, f. 23. mars 1960.

Dóttir Kristjáns Inga og Hafrúnar Ólafar Víglundsdóttur er Kristín Jóhanna, f. 18. júní 1968, gift Guðmundi Skarphéðinssyni, f. 24. desember 1966. Synir þeirra eru: 1) Skarphéðinn, f. 4. maí 1988, sambýliskona hans er Helga Þórunn Pálsdóttir, f. 29. maí 1991. Dætur þeirra eru Kristín Dalrós, f. 31. júlí 2010, og Sigurrós Tinna, f. 26. nóvember 2011; 2) Júlíus Rúnar, f. 14. apríl 1995; 3) Víglundur, f. 16. júlí 1999, sambýliskona hans er Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir, f. 3. mars 1998.

Kristján Ingi giftist árið 1970 Rakel Ernu Skarphéðinsdóttur, f. 1947, þau skildu 1988. Árið 2003 giftist Kristján Ingi seinni eiginkonu sinni Magneu Halldórsdóttur, f. 1948, þau skildu 2019.

Kristján Ingi ólst upp í Keflavík þar sem íþróttir áttu hug hans allan á yngri árum. Stundaði hann meðal annars knattspyrnu, handbolta og sund. Eftir sumarstörf í Hallormsstaðarskógi og á síld hóf hann störf hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem hann sinnti ýmsum störfum. Árið 1974 hóf hann störf hjá lögreglunni þar til hann lét af störfum sem aðstoðaryfirlögregluþjónn 65 ára gamall. Kristján Ingi var einnig ötull í skemmtana- og tónlistalífi bæjarins en hann rak veitingastaðina vinsælu Píanóbarinn og síðar Edenborg árin 1989-1998. Þá var hann formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur á árunum 1984-1988.

Útför Kristjáns Inga fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 13. desember 2022, klukkan 13.

Kveðja frá Íþróttasambandi lögreglumanna

Mér brá þegar ég frétti að Kristján Ingi Helgason væri látinn. Þó hafði ég frétt að hann væri veikur en vissi ekki að hann ætti svona stutt eftir. Kristjáni Inga kynntist ég þegar við settumst saman á skólabekk í Lögregluskólanum haustið 1975. Hann hafði þá starfað í nokkurn tíma í lögreglunni á Keflavíkurflugvelli en ég var aðeins búinn að vera sumarmaður í lögreglunni í Reykjavík. Á okkur munaði nokkrum árum en það hófst ágætur vinskapur á milli okkar. Næstu árin mættumst við síðan á innanhússknattspyrnumótum lögreglumanna og fór vel á með mönnum. Vorið 1982 var Íþróttasamband lögreglumanna, ÍSL, stofnað. Kristján Ingi var kosinn varamaður í fyrstu stjórn ÍSL, síðar varð hann varaformaður minn í stjórninni, eitt tímabil. Þar störfuðum við saman í nokkur ár og fórum með lögreglumenn á Norðurlanda- og Evrópumót. Það var alltaf gaman að ferðast með Kristjáni Inga og ýmislegt sem var tekið upp á. Ég hitti Kristján Inga síðast fyrir nokkrum árum þegar ég afhenti honum kveðju frá Félagi yfirlögregluþjóna og ræddum við þá saman um þá gömlu góðu daga. Ég vil fyrir hönd Íþróttasambands lögreglumanna þakka Kristjáni Inga fyrir framlag hans til íþróttastarfs fyrir lögreglumenn og sendi öllum aðstandendum samúðarkveðjur.

Óskar Bjartmarz,

formaður ÍSL.

Samstarfsmaður og góður vinnufélagi úr lögregluliði Keflavíkurflugvallar er látinn, nokkuð um aldur fram. Kristján Ingi hafði að mestu náð sér eftir hjartasjúkdóm, en fyrir ári greindist hann með lungnakrabbamein sem dró hann til dauða eftir harða baráttu.

Kristján Ingi hóf störf í ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli 1. janúar 1974, fyrst sem lögreglumaður, síðan varðstjóri, aðalvarðstjóri og lauk starfi sem aðstoðaryfirlögregluþjónn árið 2013, er hann fór á eftirlaun.

Kristján Ingi kom í minn stað á vakt Unnsteins Jóhannssonar daginn sem ég fluttist yfir til lögreglustjórans í Keflavík og Gullbringusýslu, þegar umdæmi lögreglunnar breyttust. Leiðir okkar lágu aftur saman er ég hóf störf að nýju á Keflavíkurflugvelli árið 1990.

Kristján Ingi var góður lögreglumaður og skemmtilegur félagi. Hann tók virkan þátt í íþrótta- og félagsstarfi lögreglunnar, svo og knattspyrnumálum hjá Íþróttabandalagi Keflavíkur. Kristján Ingi var eldheitur stuðningsmaður Manchester United og fátt fannst honum verra en þegar liðið hans tapaði.

Við að skrifa þessa grein koma upp í hugann skemmtilegar minningar um starfið, áhugamálin og þá helst þegar við vorum að kljást við billjardborðið, píluspjaldið og innanhússfótboltann.

Við Helga vottum fjölskyldu Kristjáns Inga innilega samúð.

Óskar Herbert

Þórmundsson,

yfirlögregluþjónn

á eftirlaunum.

HINSTA KVEÐJA
Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(G. Jóh.)

Rakel Erna.