Guðný Lovísa Sigurðardóttir fæddist 30. júní 1923 á Möðruvöllum í Kjós. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 21. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Kristín Ólafsdóttir og Sigurður Guðmundsson. Systkini hennar voru Guðmundur, Guðlaug og (Ólafía) Petrún. Fóstursystur voru Sigríður Kristmundsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir.

Guðný giftist hinn 19. mars 1949 Páli Beck, f. 28.2. 1923, d. 16.8. 2008. Börn þeirra eru: 1) Brynja, gift Sölva Arnarsyni, dætur þeirra eru a) Halldóra Björk, maki Jóhann Gunnarsson, börn þeirra Karen Björk og Brynjar Bjarki. b) Guðný Arna, unnusti Kristinn A. Guðmundsson, börn hennar Stefán Elís Sigurðarson Beck, unnusta Unnur Arnette, og Arna Rut Beck. Dóttir Kristins er Kristjana Bella. 2) Axel Þór, dóttir hans er Kolbrún María, dóttir hennar Kristbjörg Sunna. 3) Sigurður, kvæntur Hrefnu Egilsdóttir, börn þeirra a) Elvar Þór Óskarsson, maki Anna Bender, sonur þeirra er Egill Flóki. b) Erla Dögg, dóttir hennar er Snædís Hrefna Fannarsdóttir. c) Íris Ósk. d) Berglind Björk, unnusti Guðmundur Bjarni Unnarsson. 4) Kristín Þóra, maki Rögnvaldur Stefán Cook, börn þeirra a) Hjalti Páll, maki Tinna Björk Óðinsdóttir, börn þeirra Dagur Elías, Gabríel Máni og Ásta Bryndís. b) Unnur Ýr, dóttir hennar Júlía Rögn Steinarsdóttir. c) Hafþór, maki Sólveig Rún Ástríðardóttir, dóttir þeirra Sunna Kristín, sonur Hafþórs Oliver Máni. d) Þóra María, unnusti Friðrik Sigurðsson. 5) Ríkarður, kvæntur Elísabetu Rafnsdóttur, synir þeirra Viktor Rafn og Jóhann Ingi.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Þegar við hugsum um ömmu sjáum við fyrir okkur sjálfstæða, duglega og hjartahlýja konu. Amma varð 99 ára og lifði því ótrúlegustu tíma og var alltaf gaman að hlusta á sögur frá henni og hennar tíma. Hún var ævintýragjörn og hafði mikinn áhuga á að ferðast og lét það ekki stoppa sig þótt hann afi Páll vildi ekki fara með.

Amma var jarðbundin og undi sér vel í náttúrunni og áttum við margar góðar samverustundir í sumarbústaðnum í Kjósinni með henni. Það var alltaf mikil eftirvænting hjá okkur að komast í Kjósina á sumrin, að fá að tína ber, leika sér úti í náttúrunni, borða góðan mat og eyða deginum og kvöldinu með ömmu og afkomendum hennar.

Amma var mikil félagsvera og hafði alltaf gaman af glensi og gríni. Þegar við hugsum um Stigahlíðina koma meðal annars upp í hugann jólaboðin þar sem amma gerði einstaklega góðar pönnukökur og heitt súkkulaði með rjóma, enginn komst með tærnar þar sem hún hafði hælana í þeim málum.

Amma var mikill kvenskörungur, hún var hreinskilin og sagði alltaf sína skoðun en á sama tíma svo ljúf og lét lítið á sér bera. Amma passaði alltaf upp á að engum væri kalt á veturna og prjónaði vettlinga og heilu peysurnar á alla í fjölskyldunni, okkur til mikillar hlýju og gleði. Við erum þakklátar fyrir þann tíma sem við fengum með henni og vitum að hún er komin á góðan stað með afa.

Langamma Guðný

Hér hjá mér,

er ég með þér.

Hún er mér kær,

og í hjarta mínu svolítið fræg.

(Snædís Hrefna Fannarsdóttir)

Þín ömmu- og langömmubörn,

Berglind Björk Sigurðardóttir, Erla Dögg Sigurðardóttir og Snædís Hrefna Fannarsdóttir.

Þá ertu farin elsku Guðný eða gamla amma eins og þú varst alltaf kölluð á heimilinu.

Mikið erum við þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig í lífi okkar og þakklát fyrir allar gleðistundirnar sem við áttum saman. Þær eru ansi dýrmætar þegar sorgin svífur yfir.

Við fjölskyldan sátum og rifjuðum upp minningar, þá var það aðallega Kjósin sem kom strax upp í hugann, litla gula huggulega húsið, þinn griðastaður og þar sá maður að hún Guðný naut sín best. Bakandi vöfflur og að hella upp á meðan börn, barnabörn og langömmubörn komu sér fyrir.

Það verður skrýtin tilfinning að halda upp á 100 árin í minningu þinni næstkomandi júní. Kjósin verður ekki söm án þín.

Það er þó ákveðin huggun að vita til þess að þú varst mettuð af þessu lífi. Við vitum að Palli þinn tók vel á móti þér efst í stiganum.

Guðný var svo rík af afkomendum, öll yndisleg eins og hún. Þeim vottum við samúð okkar.

Guð geymi þig og hvíl í friði elsku gamla amma.

Elvar Þór, Anna Bender og

Egill Flóki.