Sigríður Marteinsdóttir, Sigga, fæddist í Reykjavík 2. febrúar 1957. Hún lést á líknardeild Landspítalans 19. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Marteinn Stefánsson, sjálfstætt starfandi, og Guðrún Birna Jónsdóttir kjólameistari. Alsystir Sigríðar er Jónína Sigurlaug, f. 1952. Hálfsystkini samfeðra eru Jóna Lilja, f. 1931, d. 2022, Steinar, f. 1935, og Salgerður Sveina, f. 1938, d 2018.

Sigríður giftist Knúti Knútssyni árið 1987. Þau slitu samvistir. Fyrir átti Sigga soninn Sindra Fannar Knútsson sem Knútur gekk í föðurstað.

Sigríður gekk í Austurbæjarskóla, tók íslensku- og þýskunámskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur og þýskunám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún stundaði þriggja ára nám við Söngskólann í Reykjavík. Auk þess tók hún skrifstofu- og rekstrartækninám í Tækniskólanum.

Hún vann við skrifstofu- og ritarastörf, gerði íbúðarhæfan bílskúrinn á Rauðarárstíg 26. Hún var í trilluútgerð í tvö ár ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum. Þau ráku og leigðu út 16 herbergi og eina tveggja herbergja íbúð í Reykjavík, loks innréttuðu þau gistiheimili með 12 herbergjum og einni skrifstofu á Viðarhöfða. Sigríður rak það í átta ár.

Helsta áhugamál Sigríðar var saumaskapur, einkum í seinni tíð, einnig hafði hún einstaka ánægju af félagsskap ættingja og vina og var sérlega ræktarsöm.

Útför Sigríðar fór fram í kyrrþey 30. nóvember 2022.

Ég kynntist Siggu fyrir 18 árum og ég skynjaði strax að við gætum orðið góðar vinkonur. Sigga og Ásbjörn maðurinn minn eru systkinabörn og kynntist ég henni í 60 ára afmæli bróður hans.

Það sem mér fannst svo sérstakt við þessa konu var hversu mikill gleðigjafi hún var. Hún sagði alls konar fyndnar lygasögur og fyrr en varði voru allir veislugestir sestir í kringum hana og hláturinn hennar smitaði alla.

Eftir þennan viðburð bauð Sigga okkur Ásbirni, uppáhaldsfrændanum, í plokkfisk með bernaise-sósu og það var í fyrsta skipti sem ég kynntist þessum góða rétti.

Í gegnum tíðina höfum við Sigga oft rætt saman og verið í góðu sambandi enda þurftum við báðar að glíma við öldurót lífsins. Gleðin og hláturinn var alltaf hennar fylgifiskur og það var mjög nærandi fyrir mig að tala við hana, það voru engin vandamál í lífinu heldur bara lausnir. Hún hafði einstaklega góða nærveru og mér leið alltaf vel í kringum hana, líka eftir að hún veiktist af illkynja krabbameini því þá hélt hún alltaf góða skapinu. Hún sagði einfaldlega allt sem henni datt í hug, hún var ekki allra enda skipti það hana ekki neinu máli.

Sigga ætlaði ekki að láta fjandans krabbann drepa sig enda var hún nýbúin að kaupa nýjar gardínur.

Tveimur vikum áður en Sigga lést pantaði hún að fá hamborgara frá Nonnabita, Jóni Guðnasyni vini sínum, en það voru bestu borgararnir að hennar mati og hún sagðist borða hálft tonn af frönskum, en grínið var alltaf í fyrirrúmi hjá þessari elsku.

Sigga var vinmörg sem segir kannski allt sem segja þarf um hennar umhyggju og góðu nærveru, en hún var einfaldlega vinur vina sinna.

Elsku Sigga mín, ég sakna þín svo mikið og vona að þér líði betur að vera laus við meinið.

Ég sendi elsku Sindra, Ínu og nánustu ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Ástarkveðja,

Elín Pálsdóttir.