Sveinbjörn Jónsson
Sveinbjörn Jónsson — Morgunblaðið/RAX
Sveinbjörn Jónsson: "Sólbær kostnaður af lífverustofni er summan af öllu efnisbundnu sólarljósi sem hann hefur safnað og orkan sem fór í að safna því, nýta og viðhalda."

Það er fyrst og fremst sorglegt að fylgjast með vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar og erlendum kollegum þeirra hjá ICES berja hausnum við steininn á altari „sjálfbærninnar“.

Þegar merkingarlaust orðskrípi er gert að grundvelli „vísindalegrar ráðgjafar“ er ekki von á góðu. Orðið „sjálfbær“ hefur enga merkingu í okkar sólkerfi nema í ævintýrum og lygasögum. Orðið er að vísu afurð sólbærrar hugsunar en undir þá flokkun fellur allt sem mönnum, dýrum eða jurtum getur dottið í hug, en það hefur enga raunhæfa merkingu í líffræði, eðlisfræði eða hagfræði og öðrum greinum sem vilja halda sig við raunveruleikann. Sá „sjálfbærasti“ sem ég hef heyrt um er Múnkhásen sem að eigin sögn hífði sig upp úr mýrinni á hárinu með hestinn í klofinu.

Allt líf á jörðinni er efnisbundið sólarljós og allar afurðir þess lífs hafa sama uppruna segir í 120 ára gömlu ljóði sem Einar Benediktsson samdi og nefnist Stefjahreimur. Ég get ekki séð að neitt hafi gerst síðan sem afsannar þessa kenningu hans. Áhrif sólarinnar á það sem gerist í okkar sólkerfi eru svo yfirgnæfandi að óþarfi er að taka mikið tillit til alheimsins sem hún er þó svo agnarlítið brotabrot af, ef hægt er að vera brotbrot af óendanleikanum.

Sé allt lífríkið á jörðinni sólbært má ljóst vera að einstakar lífverur og lífverustofnar eru það líka. Þess vegna verða menn að gera sér grein fyrir hvernig efnisbundið sólarljós safnast upp í lífríkinu og hversu mikil orka fer í að safna því upp og varðveita. Þ.e.: Sólbær kostnaður af lífverustofni er summan af öllu efnisbundnu sólarljósi sem hann hefur safnað og orkan sem fór í að safna því, nýta og viðhalda.

Þetta þýðir að kostnaðurinn bak við hvert kg í stofni og afla verður meiri því eldri sem lífveran er og því harðari sem samkeppnin er og var um fæðu hennar, þeirra sem hún át og þeirra sem þau átu o.s.frv.

Þetta þýðir líka að hugtökin vernda og veiða hafa bæði tvíeggjaða merkingu því sá sem veiðir er að vernda það sem er neðar í fæðukeðjunni en bráðin og takmarka valkosti þess sem er ofar.

Vissulega kann fleira að hafa áhrif eins og t.d. framboð steinefna, málma, salta og fleira þessháttar sem ljóstillífun og lífverur kunna að hafa þörf fyrir.

Þumalputtareglur byggðar á „sjálfbærni“ Múnkhásens, föstum náttúrulegum meðaltals-dánarstuðlum og stofnformum sem fengin eru með aldurs/aflagreiningum, eru ekki raunhæfar reglur. Ef svo væri væru Íslendingar að veiða miklu meira af þorski, loðnu, rækju og humri og öðrum nytjastofnum en þeir gera eftir aldarfjórðungs „vísindalega aflamarksstjórnun“ í þágu aflamarksismans.

Ef reglur vísindamanna Hafrannsóknastofnunar og kollega þeirra í ICES mundu verða yfirfærðar á sauðfjárbúskap eða skógrækt geri ég ráð fyrir að flestir Íslendingar sæju veikleika þeirra. Íslenskur bóndi mundi aldrei láta sig hafa að hætta að slátra aðallega haustlömbum til að framleiða eldra kjöt og þarf ekki einu sinni að reikna út breytilegan kostnað náttúrunnar af kjöti eftir aldri þess í stofni til að skilja í hverju vitleysan er fólgin.

Samkvæmt þeirri hugmynd að veiðar undir 20% af bíómassa veiðistofns séu „sjálfbærar“ og þá „ósjálfbært“ að veiða meira en 20% af veiðistofninum liggur beint við að álykta að það sé helmingi „sjálfbærara“ að veiða bara 10% af sama stofni og „sjálfbærast“ að veiða ekki neitt. Ég vil leyfa mér að fullyrða að slíkar aðgerðir mundu leiða til enn alvarlegri orkusóunar í lífríkinu en nú á sér stað undir vökulu eftirliti Hafrannsóknastofnunar og ICES. Í 10% tilfellinu mundi þorskstofninn eldast lítillega með óheyrilegum tilkostnaði og ársaflinn væntanlega sveiflast milli 70 og 130 þús. tonn. Árleg meðalnýliðun færi líklega vel niður fyrir 100 milljónir nýliða. Í „sjálfbærasta“ tilvikinu mundi aflinn ekki kvika frá núllinu, stofninn mundi sjálfsagt eldast lítillega enn og sveifla sjálfum sér með óhemju kostnaði. Árleg meðalnýliðun færi líklega niður fyrir 50 milljónir nýliða og lítil von væri til þess að hægt væri að nýta þær tegundir sem búa í nábýli og samkeppni við stofninn. Þ.e.:

Reglan býr til leikinn. Náttúran lagar sig að vankunnáttu vísindamannanna hvað sem það kostar. Svo einfalt er það.

Er ekki kominn tími til að skera þorskstofninn og íslenskan sjávarútveg niður úr þessari hengingaról „vísindalegrar ráðgjafar“ og hleypa svolitlu frelsi að?

Þar sem góð vísa er aldrei of oft kveðin:

Mín grundvallarkenning um

alheiminn er,

sem auðvelt mér reynist að sanna,

að ekkert er „sjálfbært“ í heiminum hér

nema heimska og fáfræði manna.

En sólbærni lífsins sannast á ný

er sumarið leysir af vorið

og síðan fær haustið að hagræða því

sem hefur enn kraftinn og þorið.

Megi sólin blessa lífið á jörðinni og strá geislum sínum yfir okkur öll hér eftir sem hingað til og látið ekki myrkrið og óendanleikann hræða ykkur um of, ljósin mín.

Höfundur er sjómaður og ellilífeyrisþegi. svennij@simnet.is

Höf.: Sveinbjörn Jónsson