Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson: "Þegar á heildina er litið hefur jarðefnaeldsneyti fært okkur verulega meiri ávinning en sem nemur neikvæðum áhrifum þess."

Áætlað hefur verið að við lok landnáms hafi Íslendingar verið um 60.000, en fækkaði næstu 600 árin og töldu 50.358, þegar fyrsta manntalið var tekið, árið 1703. Óblíð íslensk náttúra, veður, pestir og stopular gæftir héldu mannfjölda í skefjum. Meðal annars lagðist „eitruð eldreykjarmóða“ yfir landið eldsumarið 1783 og veturinn á eftir. Margir gáfust hreinlega upp og á Vesturferðatímanum, 1872-1913, flúðu um 20% Íslendinga land.

Frá landnámi höfðu Íslendingar enga aðra orku en vöðvaorku manna og dýra til að afla sér matar, klæða og húsaskjóls. Í Englandi hefur verið áætlað að fólk hafi fyrr á öldum þurft að vinna um 8 klukkutíma á dag, bara fyrir lífsnauðsynjum, og sennilega hefur það ekki verið minna hér á landi. Hús voru hituð með tilfallandi timbri, mó, húsdýrasaur og jafnvel þangi, en upp úr 1870 fóru kol að flytjast til landsins og voru orðin helsti orkugjafi landsmanna í byrjun 20. aldar. Í fyrri heimsstyrjöldinni óttuðust menn að þessi innflutningur myndi dragast verulega saman og veitti Alþingi m.a. fé til skráningar á stöðum þar sem mó til húsahitunar gæti verið að finna.

Notkun olíu hófst hér á landi um aldamótín 1900 og á sama tíma var farið að reisa litlar rafstöðvar víða um land og stærri virkjanir um miðja öldina. Hitaveituvæðing hófst svo um 1930 með leiðslu úr Þvottalaugunum í nokkrar byggingar í Reykjavík, en meira en 90% af öllu húsnæði landsins er nú hitað með jarðhita. Það sem gerði þessa uppbyggingu fyrst og fremst mögulega var aukin notkun olíu sem gat boðið upp á aðgengilega, stöðuga orku hvar og hvenær sem var í staðinn fyrir vöðvaorku manna og dýra, sem Íslendingar höfðu byggt allt sitt á, alveg frá landnámi. Þetta gerði gæfumuninn. Án olíunnar hefðum við hvorki getað byggt upp hitaveitur né raforkuver sem hafa gert okkur kleift að tileinka okkur margvíslega nútímaþekkingu og -tækni, losað mikinn hluta landsmanna við daglegt strit fyrir lífsnauðsynjum, húsaskjóli og fatnaði og gert okkur kleift á nokkrum áratugum að byggja hér upp tæknivætt nútímasamfélag.

Engin rós er án þyrna og óhjákvæmilega fylgdi því nokkur mengun að nota það afl sem bjó í olíunni. Við getum samt ekki litið fram hjá því að það var hún sem gerði okkur þessa uppbyggingu mögulega. Þegar á heildina er litið hefur jarðefnaeldsneyti fært okkur verulega meiri ávinning en sem nemur neikvæðum áhrifum. Ef við Íslendingar lítum yfir orkunotkun þjóðarinnar frá landnámi ættum við ekki að vera í nokkrum vafa um þær miklu framfarir sem jarðefnaeldsneyti hefur fært okkur, enda þurfum við ekki lengur að brenna allt það, sem við notuðum öldum saman, bara til að halda á okkur hita og lifum núna líka betra lífi og miklu lengur en forfeður okkar. Þetta getum við að verulegu leyti þakkað olíunni sem mengar nú loft umtalsvert minna en í upphafi síðustu aldar.

Litlar líkur eru á því að við Íslendingar eða heimurinn hætti að nota jarðefnaeldsneyti í fyrirsjáanlegri framtíð og þá orku sem í því felst, enda bendir flest til þess að orkunotkun stóraukist á komandi árum. Auðvitað ættum við samt að halda áfram að draga úr neikvæðum áhrifum jarðefnaeldsneytis og aðstoða þróunarríki við notkun mengunarlausrar eða mengunarlítillar orku til að ná sama þróunarstigi og við.

Þróun heimsins hefur samt sýnt okkur að rétt er að vera við öllu búin. Ríkisstjórn Íslands er nú þegar búin að láta skrá þá staði hér á landi þar sem helst er mó til húshitunar að finna, ef í harðbakkann slær. Auðvitað ætti hún líka, með hagsmuni Íslendinga framtíðarinnar að leiðarljósi, að láta skrá allt annað jarðefnaeldsneyti sem kann að finnast innan lögsögu Íslands í stað þess að hæla sér af því á erlendum vettvangi að vilja ekki einu sinni vita af þessum hugsanlegu auðlindum þjóðarinnar. Það er ekki bara sannleikurinn sem gerir þjóðir frjálsar, heldur líka þekkingin.

Höfundur er arkitekt og skipulagsfræðingur. skipark@skipark.is