Ríkarður Ríkarðsson fæddist 24. september 1961. Hann lést 20. nóvember 2022. Útför Ríkarðs fer fram 12. desember 2022.

Þegar ég byrjaði sem afleysingamaður í lögreglunni fyrst kvenna í lögreglunni á Húsavík var tekið vel á móti mér í starfsmannahópnum og þar byrjuðu kynni mín og Rikka í Hulduhól, eins og hann var gjarnan kallaður. Rikki var traustur og góður vinnufélagi og gott að njóta leiðsagnar hans þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í lögreglunni, oft í flóknum störfum lögregluþjónsins. Við getum sagt að hann hafi verið trúr og traustur, jafnvel nokkuð þrjóskur en um leið sanngjarn og réttsýnn. Það gefur augaleið að þegar maður fer í umferðareftirlit lögreglu um fallegt svæði Þingeyjarsýslna þá er skrafað um margt og maður kynnist vel. Þar byggir maður grunn vináttunnar sem er ávallt til staðar, þó fólk sé ekki alltaf í sambandi. Það fyrsta sem við Rikki gerðum áður en við fórum í eftirlit var að fara í sjoppuna og kaupa okkur nesti. Hjá honum var ómissandi Egils appelsín, tvær pylsur og tvö krembrauð sem var auðvitað klárað á staðnum áður en við héldum í eftirlitið, enda hann við stýrið. Ég aftur á móti keypti Tab sem nægði mér nærri allt eftirlitið og hann átti ekki orð yfir hvernig þetta væri hægt.

Þegar ég kom svo til starfa hér hjá LRH var Rikki varðstjóri á lögreglustöð 3, en hann hafði komið frá Húsavík til lögreglunnar í Kópavogi árið 1996 og síðan hér hjá LRH frá 2007 við sameiningu lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu. Það var vinalegt að byrja samstarf aftur með Rikka eftir um 30 ár og maður finnur hvað tíminn er afstæður og um leið verður manni ljóst að tíma okkar hér er misskipt. Rikki var góður samstarfsmaður okkar til margra ára, hæglátur og mjög bóngóður. Þá var hann mjög listhneigður, gat teiknað undurfagrar myndir og hafði næmt ljósmyndaauga. Hans mesta gæfa var að hitta lífsförunaut sinn, hana Elfu, og stofna með henni fjölskyldu. Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans og vinum og samstarfsfélögum.

Ég votta öllum hlutaðeigendum mína innilegustu samúð. Minning um góðan dreng lifir.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.