Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson: "Vinnubrögð af þessu tagi ganga aldrei upp án þess að menn semji fyrst um hvernig öllum þessum samgöngubótum verði forgangsraðað."

Fyrir löngu hefði átt að hraða undirbúningi stórtækra verkefna í vegagerð sem snerta tvöföldun Suðurlandsvegar, Vesturlandsvegar, Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Alltaf berjast vinstriflokkarnir gegn Sundabraut, sem styttir vegalengdina fyrir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins upp á Kjalarnes ef eldsvoði brýst út í Hvalfjarðargöngum vegna umferðaróhapps, líkt og í Mont Blanc-jarðgöngunum fyrir 20 árum. Í Mosfellsbæ veldur of mikil umferðarteppa vandræðum þegar alvarleg neyðartilfelli koma upp. Rætt er um innheimtu vegtolla á hvern bíl á þessum stofnbrautum til og frá höfuðborginni, sem þingmenn og borgarfulltrúar Vinstri grænna andmæla. Þess í stað fara þeir undan í flæmingi og kjósa heldur að þegja yfir allri gagnrýni sem beindist gegn jarðgangagerðinni norður í Fjallabyggð.

Þessar stofnbrautir til og frá Reykjavík eru ein forsendan fyrir því að höfuðborgin geti næstu áratugina veitt þá þjónustu sem öll landsbyggðin þarf á að halda. Hugmyndirnar um innheimtu veggjalds á þessum stofnbrautum vekja litla hrifningu vegfarenda, sem taka ekki í mál að borga fyrir að komast inn í borgina og aftur til baka. Undir Hvalfjörð eru ný hliðargöng samhliða núverandi göngum líka mikilvæg.

Allt stjórnleysið og tíð borgarstjórnarskipti í Reykjavík, sem voru alltaf í fréttum að loknum sveitarstjórnarkosningunum árið 2006, vekja spurningar um hvort tilgangurinn með þessum vinnubrögðum vinstriflokkanna hafi verið að bregða fæti fyrir þessar samgöngubætur. Milli Reykjavíkur og Selfoss fara 35 þúsund ökutæki á sólarhring. Þarna getur 500 króna veggjald á hvern bíl vel staðið undir kostnaðinum við tvöföldun Suðurlands- og Vesturlandsvegar.

Óhjákvæmilegt er að lagt verði í verulegar framkvæmdir þar til samgöngumannvirkin standa undir því að halda í við fjölgun bifreiða og stóraukna umferð sem sprengt hefur vegakerfið á öllu suðvesturhorninu og í Suðurkjördæmi með skelfilegum afleiðingum. Í Hvalfjarðargöngunum, sem þola ekki umferð 8-9 þúsund ökutækja á sólarhring, er slysahættan orðin alltof mikil.

Þrátt fyrir allar umferðarspár sem gera ráð fyrir minnkandi umferð næstu árin hefur tala ökutækja á fjölförnustu umferðaræðunum til og frá Reykjavík stórhækkað á einum sólarhring. Þetta snertir líka Vesturlandsveg, sem er löngu sprunginn, líkt og vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu. Svona gengur þetta ekki öllu lengur, að höfuðborgarbúum sé alltaf mismunað eftir að sala ríkiseigna, sem átti að fjármagna hin umdeildu Héðinsfjarðargöng, snerist upp í pólitískan skrípaleik. Vandséð er að nokkur arðsemi verði af þessari framkvæmd.

Vinnubrögð af þessu tagi ganga aldrei upp án þess að menn semji fyrst um hvernig öllum þessum samgöngubótum verði forgangsraðað. Í stað þess að taka á þessum málum af skynsemi kusu vinstriflokkarnir í Reykjavík, sem flæmdu ríkisstjórn Geirs H. Haarde frá völdum í skjóli óeirða og tilefnislausra árása á opinbera embættismenn, frekar að gera sjúkraflugið og flugvöllinn í Vatnsmýri að pólitísku reiptogi með kröfunni um að byggð yrði 80 þúsund manna borg í Vatnsmýrinni fyrir 400 milljarða króna. Engin svör fást þegar spurt er hvar og hvernig borgin geti útvegað þetta fjármagn. Það er alveg útilokað á meðan 4-5 þúsund nýbyggðar íbúðir í Reykjavík, sem bíða eftir kaupendum, seljast ekki.

Öll stórtæku verkefnin í vegagerð auk Sundabrautar eru ein forsendan fyrir því að tryggðar verði um ókomin ár öruggar heilsárssamgöngur milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkurborgar, sem hefur skyldum að gegna gagnvart öllum landsmönnum. Svo slæmt er ástandið í Suðurkjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu að óhjákvæmilegt er að byggð verði ný brú með fjórum akreinum yfir Ölfusá og mislæg gatnamót sunnan Hveragerðis, norðan við Selfoss, og í Mosfellsbæ vegna tvöföldunar Þingvallavegar, sem allir þingmenn Reykvíkinga hefðu fyrir löngu átt að sameinast um. Þessi vegur um Mosfellsdal getur tryggt öruggar vetrarsamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurkjördæmis ef ökumenn fá tilkynningu um að Hellisheiði sé ófær vegna blindbyls og snjóþyngsla.

Höfundur er farandverkamaður.