Steinunn Jóhanna Ásgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 4. ágúst 1951. Hún lést á Hrafnistu við Sléttuveg 23. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Björg Einarsdóttir, saumakona og húsmóðir, f. 4. apríl 1924, d. 27. ágúst 2014, og Ásgeir Pétursson flugmaður, f. 5. nóvember 1926, d. 30. júlí 1991.

Eftirlifandi eiginmaður Steinunnar er Ásgeir S. Hallgrímsson, f. 19. ágúst 1951, þau eignuðust fjögur börn: 1) Ásgeir Hallgrímur, f. 16. ágúst 1981, giftur Guðnýju Rós Sigurbjörnsdóttur, f. 12. desember 1980, börn þeirra eru Sigurrós Nótt, f. 21. september 2003, Ástrós Vígdögg, f. 7. maí 2008, og Ásbjörn Dreki, f. 23. maí 2016. 2) Björg Aðalheiður, f. 9. júní 1984, gift Davíð Erni Ingasyni, f. 27. júní 1984, börn þeirra eru Júlíus Jóhann, f. 26. desember 2004, Aldís Elka, f. 16. desember 2008, Elías Ernir, f. 26. júní 2010, Steinþór Ívar, f. 12. október 2014, og Freyja Björg, f. 14. ágúst 2018. 3) Karólína Vigdís, f. 2. janúar 1990, í sambúð með Majid Zarei, f. 22. mars 1991. 4) Árni Sigurður, f. 31. janúar 1992, í sambúð með Sigríði Ingu Pálsdóttur, f. 14. nóvember 1997.

Systkini Steinunnar eru Einar Magnús, f. 27. apríl 1953, María, f. 22. október 1959, og Pjetur Georg, f. 3. desember 1966, d. 25. júní 2019.

Steinunn og Ásgeir giftu sig 4. júní 1983 og héldu alltaf heimili á Óðinsgötu 23 í Reykjavík, æskuheimili Steinunnar.

Steinunn bjó á Óðinsgötu 23 til fimm ára aldurs eða þar til hún flutti ásamt foreldrum sínum og bróður til Bandaríkjanna 4. ágúst 1956. Hún bjó þar til ársins 1974 þegar hún flutti aftur til Íslands. Hún hóf nám við Háskóla Íslands og lærði þar íslensku.

Hún vann á þessum árum hjá Pósti og síma. Seinna vann hún sem tækniteiknari á arkitektastofu. Hún var lengi vel í formensku foreldrafélags Austurbæjarskóla og síðar var hún formaður Samfok.

Steinunn hafði mikinn áhuga á íslenska þjóðbúningnum og byrjaði að sækja sér námskeið í Heimilisiðnaðarskólanum. Þar lærði hún að knipla og baldera og svo síðar að sauma sér sinn eigin búning. Hún starfaði síðar í um tíu ár hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og var hún um stund skólastjóri Heimilisiðnaðarskólans.

Árið 2009 ákvað Steinunn að skella sér aftur á skólabekk og nú skyldi hún læra eitthvað sem hún hafði alla tíð haft áhuga á en það var þjóðfræði. Hún kláraði allt námið en alltaf sat ritgerðin eftir, hún er til og er yfir 70 blaðsíður um fataeign kvenna sem létust árið 1843 í Rangárvallasýslu.

Útför hennar fer fram í dag, 13. desember 2022, klukkan 13 frá Dómkirkjunni.

Elsku besta mamma mín, vá hvað það er erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig. Takk fyrir lífið sem þú gafst mér, takk fyrir að vera besta mamma sem ég hefði getað hugsað mér og takk fyrir að vera besta vinkona mín og minn stærsti stuðningsaðili.

Takk fyrir að vera besta amma sem ég hefði getað hugsað fyrir börnin mín, þau sakna þín svo mikið. Þó síðustu ár hafi verið krefjandi og erfið að þá var alltaf svo gott að koma að heimsækja þig. Það veitti manni svo mikla ró að koma til þín, fá að knúsa þig og tala við þig og bara horfa á þig.

Ég mun aldrei gleyma síðustu stundinni sem við áttum saman, bara við tvær að spjalla. Ég trúi því ekki ennþá að ég var bara hjá þér rúmum tveim tímum áður en þú kvaddir þessa veröld, við tókum myndir af okkur saman og spjölluðum við pabba á Facetime. Takk fyrir að gefa mér þessa dýrmætu minningu elsku besta mamma mín.

Ég sakna þín svo djúpt og mikið og verkjar í hjartað að hafa þig ekki lengur hjá mér. Á sama tíma er ég þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og allt sem þú kenndir mér. Þú varst mín fyrirmynd í einu og öllu og ég mun halda minningu þinni á lofti alla tíð.

Sem ungu barni þú ruggaðir mér

í svefninn, með söng á vörum þér

svaf ég þá vel og svaf ég fast

því ég vissi, alla þína ást mér gafst

Er erfitt ég átti þú studdir mig

kenndir mér hvernig á að virða sjálfan sig

vera góð og heiðarleg

muna það, virða hvar sem ég dvel

Ólst mig upp með von í hjarta

mér til handa um framtíð bjarta.

Hamingjusöm ég á að vera

elskuleg móðir sem allt vill gera.

Með þessum orðum vil ég þakka þér

alla þá ást og umhyggju sem gafst þú mér.

Ég elska þig mamma og mun ávallt gera,

vil ég þú vitir það hvar sem ég mun vera.

Þín dóttir,

Björg Aðalheiður Ásgeirsdóttir.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

Með þessu litla, fallega versi Sveinbjörns Egilssonar kveð ég elskulega vinkonu mína Steinunni eftir tæplega fimmtíu ára vináttu sem aldrei féll skuggi á.

Við Steinunn kynntumst árið 1974. Hún var þá nýflutt aftur heim til Íslands eftir að hafa búið í Bandaríkjunum í tæp tuttugu ár. Hún hafði lokið háskólaprófi í málvísindum í Baltimore og fannst nú kominn tími til að endurnýja kynnin við lífið í Reykjavík. Steinunni fylgdi ferskur og framandi blær. Hún var mjög skemmtileg, mikill húmoristi og afar hugmyndarík. Hún var líka mjög handlagin og gilti þá einu hvort um var að ræða fatasaum, viðgerðir innanhúss eða bílaviðgerðir. Steinunn lét sér ekki bregða við að skipta um dekk á bílnum eða kíkja undir húddið ef bíllinn gaf frá sér einhver aukahljóð og skipti þá engu máli þótt við værum spariklæddar á leið í Klúbbinn eða Óðal. Tvö sumur í röð dvaldi ég á heimili foreldra Steinunnar, þeirra Bjargar og Ásgeirs, í Maryland. Þarna upplifði ég sannkölluð ævintýri sem aldrei gleymast. Steinunn hafði lært flug hjá pabba sínum og tók sólóflugið sitt á meðan ég var þarna úti. Léttirinn var ósegjanlegur þegar vélin lenti glæsilega á vellinum. Steinunn hafði erft hæfileika sína í saumaskap frá Björgu mömmu sinni, sem var þekkt fyrir handverk sitt. Dag nokkurn hringdi ritari forsetafrúar Bandaríkjanna og spurði hvort Björg væri fáanleg til að sauma fyrir sig nokkra kjóla og dragtir. Hún gerði það og þegar fötin voru tilbúin vorum við vinkonurnar drifnar af stað til Washington á appelsínugulum sportbíl. Þegar við komum á áfangastað opnaði þjónustustúlka, sem þorði ekki að snerta fötin, svo við urðum að fylgja á eftir henni upp á efri hæð hússins, þar sem okkur var vísað inn í risastórt fataherbergi. Þar hengdum við fötin upp og flýttum okkur út. Þegar við svo komum út að bílnum uppgötvuðum við að við höfðum læst lykilinn inni í honum!

Árin liðu og Steinunn kynntist Ásgeiri eiginmanni sínum og eignuðust þau fjögur mannvænleg börn. Þegar börnin voru komin á legg fór vinkona mín að vinna hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Ekki leið á löngu fyrr en Steinunn var byrjuð að knipla og baldýra af mikilli list og linnti ekki látum fyrr en hún var búin að sauma búninga bæði á sig og börnin. Seinna hóf hún nám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún naut þess virkilega og því er það þyngra en tárum taki að hún veiktist rétt um það bil sem hún var að ljúka lokaritgerð sinni.

Þegar ég kvaddi Steinunni í síðasta sinn sagðist ég koma fljótlega aftur, því að það væri svo margt skemmtilegt sem við gætum rifjað upp saman. Ó, já, sagði vinkona mín og hló, kankvís á svip. Nú hefur hún kvatt okkur og söknuðurinn er mikill. Ég sendi Ásgeiri manni hennar og Ásgeiri, Björgu, Karólínu og Árna og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð geymi Steinunni og haldi verndarhendi yfir afkomendum hennar sem hún var svo stolt af.

Ósa Knútsdóttir.

Látin er kær vinkona mín, Steinunn Jóhanna Ásgeirsdóttir, eftir löng og erfið veikindi. Sú vinátta hefur staðið alla tíð frá því að ég tengdist fjölskyldu hennar. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Ung fluttist hún með foreldrum sínum frá Íslandi til Bandaríkjanna þar sem faðir hennar starfaði sem einkaflugmaður. Þar var Steinunn sín unglingsár, og fékk sína menntun og komst í gegnum það með góðum árangri. Hún hafði þá stefnu að koma aftur til Íslands og búa hér, sem hún og gerði er hún hafði aldur til. Hér datt hún í lukkupottinn, fann ástina sína, Ásgeir Hallgrímsson. Þau gengu í hjónaband og fluttu saman á Óðinsgötu 23, sem varð síðan þeirra heimili. Og þau endurbyggðu af miklum dugnaði. Eignuðust fjögur mannvænleg börn. Faðir hennar féll frá á besta aldri, er hann var í heimsókn á Íslandi, en móðir hennar bjó áfram í Bandaríkjunum meðan hún hafði heilsu og getu til. Er heilsu móður hennar hrakaði tóku Steinunn og Ásgeir hana til sín og var hún hjá þeim í allmörg ár. Þar fékk hún að njóta samvista við barnabörnin, sem voru henni afar kær. Hún lést hér í hárri elli. Þau eru bæði jarðsett á Íslandi. Steinunn var ættrækin og hélt góðu sambandi við ættingjana og var tengiliður. Þar áttum við sameiginlegt áhugamál og skráðum báðar ættir okkar að einhverju leyti í Espólín ættfræðiforritinu, fyrir daga Íslendingabókar. Okkur til mikillar ánægju. Við höfðum líka áhuga fyrir þjóðbúningum og þjóðbúningasaumi. Hún var framkvæmdastjóri Heimilisiðnaðarfélagsins og skólastjóri Heimilisiðnaðarskólans þegar hópur kvenna stofnaði Faldafeyki sem starfaði innan Heimilisiðnaðarfélagsins í nokkur ár. Hópurinn setti sér það markmið að rannsaka og endurvekja áhuga á íslenska faldbúningnum og öðrum íslenskum búningum. Á þeim tíma voru líka prentuð kortin með öllum fallegu íslensku þjóðbúningunum okkar, sem Heimilisiðnaðarfélagið gaf út og selur. Allt þetta starf hefur borið góðan árangur. Var hún ötul við að leita innanlands og utan að upplýsingum og lesefni og efni til sauma og skreytinga. Svo og að finna og birta gagnlegar heimasíður í fréttabréfum félagsins. Hún innritaðist í þjóðfræði í Háskóla Íslands með áherslu á þjóðbúninga sem henni entist ekki heilsa til að klára. Það var sárt fyrir hana og alla sem næst henni stóðu. Góð tengsl voru milli heimila okkar og á ég þar góðar og dýrmætar minningar. Á heimili þeirra nutum við alltaf mikillar gestrisni og góðvildar hjá þeim öllum. Ég kveð Steinunni vinkonu mína með þakklæti, eftirsjá og virðingu. Veit að nú er hún komin á betri stað, sem linar þjáningar hennar. Ég votta Ásgeiri eiginmanni hennar og börnum þeirra: Ásgeiri Hallgrími, Björgu Aðalheiði, Karólínu Vigdísi og Árna Sigurði, mökum þeirra og börnum, mína innilegustu samúð. Bið þeim Guðs blessunar og megi þeim farnast vel. Blessuð sé minning Steinunnar Jóhönnu Ásgeirsdóttur.

Margrét

Sigurðardóttir.