Einar Gunnarsson fæddist í Reykjavík 6. desember 1952. Hann lést á líknardeild Landspítalans 27. nóvember 2022. Hann var sonur hjónanna Gíslínu Ernu Einarsdóttur og Gunnars Hauks Eiríkssonar.

Systkini hans eru: Ragnar Georg, Eiríkur sem er látinn, Már, Gunnar sem er látinn, Sveinn, Aldís, Hulda og Örn.

Einar útskrifaðist sem vélfræðingur frá Vélskóla Íslands og síðar með framhaldsmenntun í rekstrarfræði og stjórnun frá Atlanta í Bandaríkjunum.

Hann starfaði lengst af sem verksmiðjustjóri hjá Vífilfelli á Íslandi en vann síðan sem rekstrarstjóri hjá Coca-Cola International, m.a. í Noregi, Danmörku, Sádi-Arabíu, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Síðustu árin starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Íslenska vatnsfélaginu (IWH) í Ölfusi.

Eftirlifandi eiginkona hans er Matthildur S. Gunnarsson kennari og eignuðust þau eina dóttur, Evu E. Gunnarsson arkitekt, og tvo dóttursyni sem heita Leifur O'Gorman og Axel O'Gorman.

Útför fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 13. desember 2022, klukkan 13.

Einar Gunnarsson vinur okkar hefur nú eftir erfið veikindi kvatt þennan heim. Fyrir margt löngu lágu leiðir okkar Einars saman við störf hjá Vífilfelli, framleiðanda Coca Cola á Íslandi. Einar var ábyrgur fyrir framleiðslu Vífilfells samkvæmt ströngum kröfum Coca Cola-fyrirtækisins. Einar sinnti starfi sínu af alúð og lagði líf sitt og sál í það. Sem kóngur ríkti hann í ríki sínu í verksmiðjunni og er öllum eftirminnilegur. Hann var ákveðinn, fastur fyrir, úrræðagóður og réttsýnn, en stundum nokkuð hávaðasamur. Ekki fór á milli mála þegar Einar var á staðnum enda ekki maður sem læddist með veggjum. Hann tókst á við fjölda áskorana sem oft virtust óviðráðanlegar, en málin leystust með útsjónarsemi hans og aðkomu margra annarra góðra manna sem lögðu hönd á plóginn.

Þekking Einars á verksmiðjurekstri vakti athygli út fyrir landsteinana. Honum var boðið starf sérfræðings á skrifstofu Coca Cola í Noregi árið 1995, sem ruddi þá braut sem hann fetaði næstu áratugina við störf í fjölda landa hjá Coca Cola við uppsetningu verksmiðja, gæðamál þeirra og fínstillingu framleiðsluferla.

Þau okkar sem voru honum samferða í Noregi við störf hjá Coca Cola minnumst samverustunda þar sem myndarskapur þeirra hjóna Einars og Möttu sýndi sig meðal annars í glæsilegum, vel undirbúnum og veglegum veislum á fallegu heimili þeirra. Þessi kynni við Einar og Möttu gerðu tímann okkar í Noregi sérstaklega ánægjulegan og eigum við góðar minningar frá þessum samverustundum. Einar og Matta voru einstaklega samrýnd hjón.

Fyrir fáum árum fluttu þau Einar og Matta aftur til ættjarðarinnar. Við erum þakklátir fyrir þau tækifæri sem við, Coca Cola-hópurinn, fengum til að hittast og ferðast aftur í tímann. Þá voru stundum gömul mál endurkrufin, eins og við værum föst í fortíðinni, í endurminningunni eru árin í Noregi skammt undan.

Að leiðarlokum er margs að minnast og margar góðar minningar koma upp í hugann.

Á þessari stundu er hugur okkar hjá því fólki sem Einari þótti vænst um, Möttu, Evu og barnabörnum. Þeim óskum við alls hins besta í framtíðinni. Megi minningin um góðan dreng lifa um ókomin ár.

Með kveðju frá

Friðberti Friðbertssyni, Jóni Sigurðssyni, Baldri Guðgeirssyni, Birni Kjartanssyni, Lýði Friðjónssyni, Jóni Diðriki Jónssyni, Bæring Ólafssyni og Sigurði Borgari Guðmundssyni.