Edda Íris Eggertsdóttir, alltaf kölluð Íris, fæddist 17. júlí 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 21. nóvember 2022.
Íris lauk gagnfræðaprófi frá gamla Austurbæjarskólanum og síðan hárgreiðslu- og meistaranámi frá Iðnskólanum. Amma hennar og afi, Ísfold Helgadóttir og Eggert Bjarni Kristjánsson, tóku Írisi í fóstur. Móðir Írisar var Margrét Eggertsdóttir. Vitað var að faðir Írisar var hermaður og þeir fáu einstaklingar sem vissu um faðerni hennar fóru með þá vitneskju í gröfina.
Uppeldissystkini og móðursystkini Írisar voru átta talsins. Á milli Írisar og móðursystkina þróaðist óslitin og einlæg vinátta. Í dag eru sjö þeirra látin. Eina móðursystirin sem eftir lifir er Ásta María Eggertsdóttir, enda aðeins tveimur árum eldri en Íris. Urðu þær alla tíð ómissandi hvor annarri. Íris varð jafnframt þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast sex hálfsystkini og eru tvö enn á lífi; Hjördís Bára Sigurðardóttir og Grétar Sigurðsson. Þar var Íris elst í hópi og var oft kölluð til þegar líta þurfti eftir hópnum. Ábyrgðartilfinning Írisar gagnvart þessum litlu hálfsystkinum sínum varð mikil og þótti henni alla tíð undurvænt um þau.
Íris giftist Stefáni Eiríkssyni, f. 4. feb. 1938, árið 1962, en þau slitu samvistum 20 árum síðar. Börn þeirra eru: Bryndís Valberg, f. 24. nóvember 1961, og Stefán E., f. 10. janúar 1963. Barnabörn eru þrjú, Stefán Mekkinósson, Atli Rafn Stefánsson og Andrea Stefánsdóttir. Barnabarnabörnin eru líka þrjú.
Fyrir tvítugt var Íris orðin tveggja barna móðir og þurftu þau hjónin að sjá fyrir fjölskyldunni. Íris kom upp hárgreiðslustofu heima í eldhúsinu og í áratugi rak hún sitt eigið hárgreiðslufyrirtæki, fyrst heima og síðar setti hún upp stofu úti í bæ.
Íris hafði mjög mikinn áhuga á og ánægju af tónlist. Hún spilaði smávegis á gítar, harmoniku og píanó og hafði fallega söngrödd. Það var lífsstíll Írisar að stunda líkamsrækt og dansa. Hún var stórkostlegur dansari og sótti dansstaði reglulega.
Í kringum 1990 fer Íris að draga sig hægt og rólega frá hárgreiðslunni og hugur hennar beindist að sjúkraliðanámi og ferðaþjónustu. Hún fór í sjúkraliðanám og vann í nokkur ár á hjúkrunarheimilinu Skjóli.
Íris lét draum sinn rætast og keypti hús í Svíþjóð. Húsið var sumarbústaður hennar í tæp 20 ár. Þetta var gömul járnbrautarstöð, sem Íris breytti og rak sem gistiheimili.
Á sama tíma og hún bauð upp á gistingu fyrir erlenda ferðamenn í Svíþjóð á sumrin réð hún sig í vinnu hjá Fataverslun Andrésar á Skólavörðustíg og vann þar við verslunarrekstur.
Fyrir þremur árum greindist Íris með Lewy body-heilabilunarsjúkdóminn og lést síðan eftir baráttu við sjúkdóminn á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 21. nóvember 2022.
Útförin fór fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 9. desember 2022.
Elsku mamma mín, hvernig á ég að kveðja þig? Það er svo erfitt að sætta sig við að þú sért farin.
Þú varst besta vinkona mín. Þú hvattir mig áfram í mínu lífi á öllum sviðum. Þú kenndir mér um gildi menntunar, þú kenndir mér öll heimilisstörf, bakstur og matseld. Þú kenndir mér að skíða, þú kenndir mér á hljóðfæri og þú kenndir mér að syngja öll gömlu lögin. Þú kenndir mér að meta leikhús, listsýningar og svo margt annað.
Ég var fimm ára þegar ég stalst í kjólana þína og snyrtivörurnar, því ég vildi vera eins og þú, alltaf smart til fara, hárið óaðfinnanlegt, andlitið snyrt og neglurnar málaðar. Þú varst alltaf svo mikil dama. Þú umbarst það að hárgreiðslustofan þín væri leikvöllur minn og vinkvenna minna. Þá fór ég í þitt hlutverk.
Við gátum endalaust leikið okkur saman og alveg frá því að ég man eftir mér varstu hlæjandi, lífsglöð og skemmtileg. Þær eru óteljandi samverustundirnar okkar yndislegu, sem við áttu saman bæði hér á Íslandi og í Svíþjóð. Á hverju sumri í næstum 20 ár dvaldi ég og stundum sonur minn hjá þér við leik og störf í Svíþjóð.
Það var unaður að fylgjast með því hve mikið þú elskaðir son minn, barnabarnið þitt Stefán Mekkinósson, og að sjálfsögðu hin barnabörnin. Ég er afskaplega þakklát fyrir það að börnin fengu að kynnast ömmu sinni eins og ég kynntist henni.
Svo kom höggið. Lewy body, næstalgengasti heilabilunarsjúkdómurinn á eftir alzheimer, stal nánast áratug af ævi þinni. Hún var þungbær sorgin sem fylgdi því að takast á við persónuleikabreytingar sem versnuðu jafnt og þétt síðustu ár ævi þinnar. Ákvörðun að vista þig á hjúkrunarheimili var mjög erfið og samviskubitið yfir því að hafa brugðist þér beit fast. Það nísti hjarta mitt að fara frá þér, þegar þú vildir fá aðstoð við að strjúka frá hjúkrunarheimilinu, þegar þú horfðir á eftir mér ganga út um læstar dyr, á þessari lokuðu deild sem þú varst vistuð á, með biðjandi augu.
Gerði Covid-faraldurinn dvöl þína á sjúkrahúsinu og hjúkrunarheimilinu jafnframt mun erfiðari fyrir vikið þar sem aðgangur að þér var mjög takmarkaður og oft alveg lokaður. Þú varst hrædd, einangruð, kvíðafull og öryggislaus á þessum tíma, sem jók enn meira á vanlíðan okkar systkina.
Sænska þjóðlagið „Hvem kan segla forutan vind?“ kemur í hugann þegar ég hugsa til þín. Þú kenndir mér að vera sterk og fyrir vikið ég get siglt án vinds og róið án ára, en ég get ekki misst bestu vinkonu mína, án þess að fella tár.
Ég elska þig, elsku mamma mín.
Þín
Bryndís Valberg.
Það eru margar minningarnar sem við áttum saman sem og sækja á hugann Það var alltaf gaman hjá okkur, allar vitleysurnar sem okkur datt í hug og komu okkur sjálfum á óvart þegar við litum til baka, þá var hlegið þar til tárin runnu.
Hún var systir okkar og þó að hún væri alin upp hjá móðurömmu og -afa þá skipti það hreint engu máli.
Við áttum alltaf vin og systur í henni hvað sem á gekk enda mikill samgangur milli heimilanna. Í bernsku okkar systkina passaði hún okkur á meðan mamma og pabbi fóru til útlanda, gerðist þá ráðskona heima og fataðist hvergi sú ábyrgð þótt ung væri sjálf.
Íris var stórhuga kona sem þorði að láta drauma sína rætast, réðst í að kaupa sér stórt hús í Svíþjóð seint í lífinu sem hún átti í yfir tuttugu ár og notaði sem sumardvalarstað. Seinni árin eftir að hún hætti að vinna dvaldist hún frá vori að hausti, það var endalaus gestagangur, allir voru velkomnir og á sinn glæsilega og höfðinglega hátt tók hún á móti gestum enda með afbrigðum gestrisin.
Hún var sú gjafmildasta manneskja sem ég þekkti enda stórhuga í öllu sem hún gerði og datt í hug. Hún gat aldrei komið nema að færa manni eitthvað sem gladdi hvort sem það voru litlu börnin eða fullorðnir. Íris var svo mikil barnagæla, fylgdist vel með öllum börnum sem fæddust í fjölskyldunni og var endalaust hreykin af börnunum sínum og afkomendum.
Hún lét sig ekkert muna um að bjóða mér í siglingu á skemmtiferðaskipi um Karíbahafið eitt árið með skemmtilegum fjölskylduvinum. Hún hætti ekki fyrr en hún gat laumað fallegum gullhring í öskju eitt kvöldið á koddann minn sem hún hafði séð mig handleika í verslun, þegar ég brást við sneri hún upp á sig og sagði: „Nú ég varð að gera eitthvað, þú vildir ekki leyfa mér að borga farið.“ Ég mun alltaf varðveita þennan fallega grip og minninguna um þessa skemmtilegu og ógleymanlegu ferð.
Íris var mikill menningarviti og sótti leikhús og tónleika, safnaði málverkum, lék á nokkur hljóðfæri og dansaði eins og engill ásamt því að stunda reglulega íþróttir. Það var með ólíkindum hvað hún var fjölhæf manneskja.
Það var venja að þegar fjölskyldan kom saman þá var sest niður, sungið, spilað á hljóðfæri ef um afmæli eða önnur tímamót í lífi fjölskyldunnar var að ræða, alltaf var glatt á hjalla. Íris var oftast í forsvari við þessar uppákomur enda með afbrigðum söngelsk og músíkölsk, hafði hún mjög góða söngrödd.
Þökkum henni umhyggjuna í garð okkar langveika bróður Helga sem hún gleymdi ekki eftir andlát foreldra okkar, lagði mikið af mörkum til hans en Helgi lést árið 2019.
Við erum svo rík af fallegum minningu um elskulega stórhuga og lífsglaða systur sem auðgaði líf okkar systkinanna sex.
Elsku Bryndís Íris, Stefán Eiríkur og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.
Með söknuði kveðjum við þig, elsku systir, hvíl í friði.
Hjördís Bára (Bíbí) og Grétar Sigurðarbörn.