Halldóra Halla Jónsdóttir fæddist 1. desember 1956. Hún lést 7. desember 2022.

Útförin fór fram 16. desember 2022.

Nú hefur hún elsku besta Halla vinkona okkar kvatt þessa jarðvist og er flogin í sumarlandið þar sem við viljum trúa að hún sé laus við allar þjáningar.

Halla var alltaf hörkudugleg, ósérhlífin, gríðarlega orðheppin, hlý og skemmtileg.

Það var yndislegt að eiga hana að vini síðastliðin 42 ár. Á Bolungarvíkurárum okkar kynntumst við Höllu fyrst, árið 1980, og frá þeim tíma höfum við átt margar góðar stundir. Við fórum í ferðir saman, á Hesteyri, fjölmargar sumarbústaðarferðir en auk þess var alltaf yndislegt að koma við á fallegu heimili þeirra Baldurs í Gröf í Hvalfjarðarsveit.

Það má með sanni segja að barnalán Höllu var mikið og miklir mannkostir í öllum hennar sex börnum. Um ævina vann hún margvísleg störf. Þegar hún fór að starfa á dekkjaverkstæði og keyra stóra vörubíla gekk hún svolítið fram af vinkonu sinni en hún skilaði þessum verkum vel eins og öllu öðru sem hún tók að sér. Hinn 1. desember 2016 brunuðum við í afmæli til hennar sem óvænt varð að brúðkaupi hennar og Baldurs, mikið var það falleg stund með ykkur.

Símtalið sem við fengum frá henni fyrir sex árum var mjög erfitt, Halla okkar komin með krabbamein og þá ákváðum við að reyna að styrkja hana eins og við gætum og hvetja hana í þeirri baráttu sem fram undan var. Við dáðumst að styrk hennar, dugnaði og krafti í þessari baráttu. Haustið 2017 má segja að styrkurinn hafi snúist við er dóttir okkar greindist með erfitt krabbamein á 4. stigi, þá var svo sannarlega gott að eiga hana elsku Höllu að og verðum við henni ávallt þakklát fyrir alla hlýjuna og ástúð sem hún sýndi okkur árið sem dóttir okkar var mikið veik sem og eftir andlát hennar.

Elsku Baldur, börn, tengdabörn og barnabörn, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ykkar vinir,

Álfhildur og Þór Ólafur.

Elsku hjartans vinkona okkar hún Halla er fallin frá og höggið er stórt og mikið. Þótt vitað væri í hvað stefndi var vonin alltaf innan seilingar. Halla var eiginkona, móðir, dóttir og góður vinur, hún vann mikið og var með stórt heimili en öllum þessum hlutverkum sinnti hún með mikilli prýði þannig að manni fannst stundum að hún hefði fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin.

Elsku vinkona, það var mikið áfall þegar þú greindist með krabbamein fyrir rúmum sex árum en harkan og seiglan sem þú sýndir í þessari baráttu var aðdáunarverð. Þú mættir í alla hittinga og ferðir þótt heilsan væri ekki góð og þrekið lítið, hugsaðir alltaf fyrst og fremst um hvernig aðrir hefðu það, sem lýsti þér svo vel. Við vinkonurnar munum ylja okkur við minningarnar frá öllum okkar samverustundum og ferðunum okkar góðu með ykkur hjónum. Við minnumst einstakrar manneskju með frábæra húmorinn og dillandi hláturinn sem fékk alla til að hrífast með.

Elsku Baldur, börnin öll, foreldrar, systkini og allir sem eiga um sárt að binda, innilegar samúðarkveðjur. Minningin um yndislega Höllu okkar lifir.

Þínar vinkonur,

Ásdís, Ísabella (Bella), Hrafnhildur (Habbý), Bryndís, Þórunn,

Hulda og Hrönn.

Sá Guð er öllu ræður

nú gefi miskunn sína,

græði dýpstu sárin

og þerri tár af kinn.

Inn í myrkur dauðans

mun endurminning skína

um elskulega konu

er kveðjum við um sinn.

Hún átti bros og hlýju

til allra á vegferð sinni

yl og birtu færði

í þennan jarðarheim.

Því þökkum við af alhug

þau alltof stuttu kynni

og allar liðnar stundir,

ei gleyma munum þeim.

Henni fylgja óskir

frá ótal vinahjörtum.

Með ástvinum við hryggjumst

en muna skulum þó

að mynd hennar við eigum

í minningunum björtum.

Mildi faðir gef oss

í hjörtun frið og ró.

(Þórey Jónsdóttir)

Þá er hún Halla vinkona okkar búin að fá hvíldina eftir vægast sagt hetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm krabbamein, sem hún ætlaði svo sannarlega að sigrast á. Við vinkonurnar vorum tíu saman í saumaklúbbi frá því við vorum unglingar en Halla er sú þriðja sem fer úr krabbameini úr þessum hópi. Það er erfitt að kveðja góða vinkonu sem var að okkar áliti á „besta aldri“ og átti svo margt ógert og margt til að lifa fyrir. Það er ótrúlega dýrmætt og gott að hittast reglulega og eldast saman í góðum vinahópi, það er okkar saumaklúbbur svo sannarlega.

Nú þegar við kveðjum Höllu vinkonu okkar er ekki hægt annað en dást að því ótrúlega þreki og þeirri jákvæðni sem einkenndu hana allan þann tíma sem hún barðist við þennan sjúkdóm, sem eru orðin meira en sex ár. Það var ekki hennar háttur að kvarta en þess í stað gerði hún óspart grín að sjálfri sér og sínum óförum. Þennan yndislega húmor, kraft og ósérhlífni hefur hún alltaf haft en síðustu mánuði fannst okkur hún fá einhverja óútskýrða andlega orku sem gerði henni kleift að fara það sem hún ætlaði sér og njóta þess sem í boði var þótt máttfarin væri, því hún ætlaði sko að nýta tímann vel. Hún mætti alltaf í saumaklúbb eða morgunstund ef hún bara gat staðið og þá var sko ekki töluð vitleysan, slegið á létta strengi og mikið hlegið. Hún hafði einstakt lag á að sjá spaugilegar hliðar á lífinu og gerði óspart grín að sér og sínum.

Í gegnum tíðina höfum við farið í margar ferðir og gert margt skemmtilegt saman og eigum við eftir að sakna þess að hafa ekki þennan gleðipinna með í hópnum, sem alltaf hélt uppi fjörinu. Að fylgjast með henni í þessu stríði hefur kennt okkur margt, t.d. að meta lífið og taka ekki hlutum sem sjálfgefnum. Við eigum eftir að sakna þessara stunda en munum ylja okkur við þær góðu minningar sem við eigum frá þeim.

Ekki er hægt annað en að minnast á manninn hennar Höllu, hann Baldur, sem er búinn að standa með henni sem klettur í þessu stríði, alltaf á vaktinni og vildi helst ekki af henni líta.

Við saumaklúbbssystur og makar okkar vottum Baldri, börnum og barnabörnum, foreldrum hennar og systkinum okkar innilegustu samúð og biðjum góðan guð að styrkja þau.

Guðný, Ólöf, Jóhanna

Sigríður (Hanna Sigga), Kristín (Stína), Guðfinna, Björg og Ólöf Auður (Lóa).

Nú þögn er yfir þinni önd

og þrotinn lífsins kraftur.

Í samvistum á sæluströnd

við sjáumst bráðum aftur.

(Ingvar N. Pálsson)

Í dag kveðjum við með trega og þakklæti góða æskuvinkonu okkar hana Höllu Jóns.

Þessi góði vinskapur okkar hófst þegar við vorum litlar stelpur sem fæddar eru á árunum 1956 og '57 og bjuggum við á Höfðabraut, Garðabraut, Sandabraut og efst á Skagabraut og erum 10 talsins. Að eiga svona góðan og tryggan vinahóp sem spannar 50 ár+ er ekki sjálfgefið. En það er alveg sama hvort við hittumst daglega, á mánaða eða jafnvel ára fresti, það er alltaf eins og það hafi verið í gær. Halla er önnur í þessum vinkvennahópi sem kveður en Lóa Jóns kvaddi árið 2013.

Svo tóku unglingsárin við með miklum hvelli og mikið sem var gaman hjá okkur. Sveitaböllin stunduð af miklum móð og lítið slegið af þar. Minnisstæðar eru margar ferðir á sveitaböllin með rútu og þá var sungið eins og enginn væri morgundagurinn, enda við ungar og allt var tímalaust, engar áhyggjur, bara skemmtun. Svo tók alvaran við, barnastúss og bleyjur, en vinskapurinn gleymist ekki.

Svo fyrir rúmum þremur árum fórum við nokkrar af okkur, sem ekki vorum í vinnu, að hittast vikulega með prjónana okkar og spjalla og hafa gaman og eru þessar stundir okkur ógleymanlegar. Við skruppum í „bæjarferðir“ í Borgarnes, til Reykjavíkur og á Selfoss þar sem við skoðuðum prjónabúðir og fengum okkur kaffi og kruðerí.

Í þessum vikulegu hittingum var auðvitað mikið hlegið, rifjaðar upp skemmtilegar sögur af okkur á unglingsárunum, og mikið sem það var alltaf gaman og svo skiptumst við á uppskriftum og þáðum ráð ef upp kom eitthvert „prjónavesen“. Þar var hún Halla okkar með ráð undir rifi hverju enda mikil prjóna- og hannyrðakona og sat sko ekki með hendur í skauti, nei aldeilis ekki, því hún var þekkt fyrir vandvirkni, iðjusemi og dugnað.

Við vissum allar að þessi dagur kæmi og komið væri að leiðarlokum, en maður er aldrei tilbúinn, enda sannaði Halla það svo sannarlega með sínu baráttuþreki, von og jákvæðni hvað það getur hjálpað til, enda átti hún nóg af því.

Að leiðarlokum erum við fyrst og fremst þakklátar fyrir allt það sem hún var okkur, fallega vinskapinn, tryggðina, hlýjuna, hláturinn (maður minn) og ævarandi væntumþykju og ást í rúm 50 ár.

Hennar verður sárt saknað, en minningin um yndislega vinkonu mun lifa um alla eilífð.

Við biðjum algóðan Guð að styrkja fjölskyldu hennar og umvefja þau á þessum erfiða tíma.

Guð blessi minningu þína elsku vinkona.

Hanna Sigga, Sigþóra, Guðfinna, Sigga og Ásdís.