Inga Þórarinsdóttir fæddist 14. nóvember 1946 á Seyðisfirði. Hún lést á Landspítalanum 1. desember 2022.

Inga var dóttir Sigfríðar Hallgrímsdóttur, f. 14.6. 1927, d. 1.2. 2021, og Þórarins Guðlaugs Eyvindssonar, f. 11.10. 1925, en kjörforeldrar Ingu voru Guðlaugur Óskar Stefánsson, f. 12.8. 1916, d. 22.7. 1989, og Laufey Eyvindsdóttir, f. 19.12. 1917, d. 1.12. 1987. Systir Ingu heitir Guðfinna Guðlaugsdóttir, f. 14.10. 1948, en áður fæddist þeim Guðlaugi og Laufeyju andvana sonur þann 18.6. 1946. Inga og Guðfinna ólust upp á Fífilgötu 3 og Helgafellsbraut 21 í Vestmannaeyjum og eiga þaðan margar dýrmætar og góðar minningar.

Inga var einkabarn föður síns Þórarins en sammæðra hálfsystkini Ingu eru Bjarndís Harðardóttir, f. 16.11. 1948, d. 10.12. 2021, Valur Harðarson, f. 11.3. 1954, d. 24.10. 2018, Hjörtur Harðarson, f. 23.10. 1955, Hallgrímur Harðarson, f. 4.7. 1958, og Helena Harðardóttir, f. 19.4. 1964.

Hinn 16. október 1971 giftist Inga Ólafi Magnúsi Kristinssyni, f. 2.12. 1939, d. 4.1. 2018. Foreldrar hans voru Kristinn Magnússon, f. 1908, d. 1984, og Helga Jóhannesdóttir, f. 1907, d. 1993. Börn Ingu og Ólafs eru: 1) Helga, f. 20.8. 1970, barnsfaðir Örn Guðmundsson, f. 1969, d. 2022. Þeirra synir eru Ásgeir, f. 12.7. 1989, og Ólafur Ingi, f. 8.8. 1993. 2) Lilja, f. 17.2. 1972, gift Gunnari Sigurðssyni, f. 1970. Þeirra synir eru Gauti Þór, f. 4.2. 2002, og Kristinn Gunnar, f. 22.9. 2005. 3) Guðlaugur, f. 27.10. 1973, sambýliskona Kristín Sigurðardóttir, f. 1977. Þeirra dóttir er Helga Lilja, f. 16.2. 2011. 4) Kristinn, f. 10.2. 1978, d. 22.3. 2017, giftur Margréti A. Jónsdóttur, f. 1978. Þeirra dætur eru Sigríður Anna, f. 16.8. 2003, og Inga Guðrún, f. 18.3. 2008. 5) Hildur, f. 29.9. 1984, sambýlismaður Gregory John Dixon, f. 1985. Þeirra dóttir er Helena Christine, f. 15.4. 2014. Fyrir átti Hildur dóttur með Guðna Guðjónssyni, f. 1985, Emilíu, f. 5.7. 2007.

Inga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1966 og þaðan lá leið hennar í Kennaraháskólann í Reykjavík og útskrifaðist hún þaðan 1968. Inga hóf störf sem kennari strax eftir útskrift við Barnaskóla og Hamarsskóla Vestmannaeyja og kenndi þar til hún lét af störfum árið 2017 þá rúmlega sjötug að aldri. Inga hafði yndi af fallegri tónlist og söng í Kór Landakirkju í áratugi. Einnig gekk hún í Rebekkustúkuna Vilborgu í Oddfellowreglunni og var félagi þar allt til hinsta dags.

Útför Ingu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 17. desember 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku mamma,

Góða nótt

Guð geymi þig

og alla í heiminum

sömuleiðis

Þín

Hildur.

Elsku mamma okkar.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur. Þrátt fyrir gríðarlegan söknuð og sorg finnum við huggun í því að nú ert þú komin til pabba og Kidda sem þú saknaðir svo óendanlega mikið.

Það er skrýtið að koma heim á Höfðaveginn og hafa þig ekki til að taka brosandi á móti okkur í dyrunum, spennt að fá barnabörnin í heimsókn sem þú vildir allt fyrir gera og varst þeim svo óendanlega góð. Minningar þeirra um ömmu sína eru ómetanlegar og munu ylja þeim í söknuðinum.

Hvíl í friði, elsku mamma, við munum sakna þín.

Helga, Lilja,

Guðlaugur (Gulli)

og Hildur.

Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég hitti mömmu hans Kidda fyrst, hana Ingu Þórarinsdóttur. Ég var 19 ára stelpa að fara til Vestmannaeyja í fyrsta skipti en á döfinni var m.a. að hitta fjölskyldu kærasta míns. Eðlilega var ég aðeins kvíðin að hitta fólkið en sá kvíði reyndist með öllu óþarfur. Þau hjónin tóku mér opnum örmum og streymdi hlýjan frá Ingu. Mér varð ljóst að ef við Kiddi myndum festa ráð okkar fengi ég yndislega tengdamóður í henni. Inga reynist mér afskaplega vel alla tíð.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún kom og var hjá okkur Kidda og sinnti nöfnu sinni um nokkurt skeið, sem þá var nokkurra mánaða, vegna þess að ég átti erfitt með umönnun hennar eftir aðgerð. Mikið óskaplega var ég þakklát fyrir þá aðstoð og hennar góða félagsskap. Það var alltaf jafn yndislegt að koma á Höfðaveginn þar sem oft var margt um manninn og góðar minningar skapaðar í kringum eldamennsku, bakstur og borðspil og auðvitað mikið punt þegar lagt var á borðið. Hún var yndisleg amma, og lagði sig alla fram til þess að dætur okkar Kidda ættu skemmtilegar og spennandi stundir í Vestmannaeyjum, slíkt var dekrið. Þessarar góðu konu, Ingu Þórarinsdóttur, er og verður sárt saknað. Ég samhryggist, elsku Helga, Lilja, Gulli og Hildur, og bið þess að mamma ykkar sé komin í faðminn á pabba ykkar og Kidda.

Margrét Arnheiður Jónsdóttir.

Í dag kveðjum við kæra frænku og vinkonu, Ingu Þórarinsdóttur. Hennar verður saknað mikið og aðventan í ár er ekki jafn björt og áður í kjölfar fráfalls hennar.

Inga var hluti af fjölskyldu sem var ákaflega samhent í einu og öllu. Oft var grínast með að fjölskyldan væri eins og baunabelgur, allir saman í einum hóp. Þessi samlíking á vel við því mæður okkar Ingu og fjölskyldur voru mjög nánar og mikill samgangur á milli.

Inga var alin upp í Vestmannaeyjum, gekk í Menntaskólann á Akureyri og tók síðan kennarapróf. Hún starfaði við kennslu alla sína starfsævi og tók þátt í félagsstörfum eins og hún hafði tíma til með fjölskyldunni. Hún söng í Kirkjukór Landakirkju í mörg ár og tók þátt í starfi Oddfellowstúkunnar Vilborgar í Vestmannaeyjum.

Inga og eiginmaður hennar Ólafur M. Kristinsson eignuðust fimm börn. Heimilið var stórt og mikið líf á því. Inga var nátengd börnum sínum og reyndi að eyða eins miklum tíma og hún gat með þeim og á síðustu árum, eftir fráfall Ólafs, voru börnin dugleg að koma til Vestmannaeyja og eyða tíma með móður sinni. Allar hátíðir var fullt hús af börnum og barnabörnum og Inga naut þess að hafa fjölskylduna sína hjá sér. Barnabörnin níu voru ömmu sinni dýrmæt og alltaf velkomin í heimsókn.

Inga missti son sinn, Kristin, og mann sinn, Ólaf, með tiltölulega stuttu millibili og var það henni þungbær missir. Hún barðist við erfiðan sjúkdóm síðasta árið og tókst á við veikindi sín af yfirvegun til þess síðasta með stuðningi fjölskyldu sinnar. Inga hefði án efa viljað taka þátt í lífi barna og barnabarna mikið lengur en hún hafði tækifæri til en þau eiga eftir góðar minningar um móður og ömmu.

Lilja Þorsteins og fjölskylda.

Inga vinkona mín og samstarfskona til margra áratuga er fallin frá svo allt of snemma og óvænt þrátt fyrir veikindi. Við kynntumst sem samstarfskennarar í Barnaskóla Vestmannaeyja og síðan þróaðist samstarfið í vináttu okkar og svo barnanna okkar. Inga bjó á Höfðavegi 39 og þar var alltaf líf og fjör með stóra barnahópnum þeirra Óla og vinum barnanna en alltaf virtist vera nóg rými fyrir alla og ekki talið nákvæmlega þegar sest var við matarborðið hvort þar væru einhverjir aukameðlimir. Þau voru samhent í þessu Inga og Óli og krakkarnir fundu að þarna voru þau velkomin.

En Inga lét sig líka aðra varða og vil ég þakka fyrir þá umhyggju og væntumþykju sem hún sýndi mér og börnunum mínum. Alltaf fann maður sig velkominn á Höfðaveginn eins og maður væri í fjölskyldunni. Inga hafði mjög gaman af tónlist og oftar en ekki var sett plata á fóninn með söng heimssöngvara eins og Callas, Carreras eða Pavarotti til yndisauka.

Inga var mjög umhyggjusöm móðir og var í afar góðu og miklu sambandi við börnin sín og svo síðar barnabörnin. Það var því mikill harmur þegar Kiddi sonur hennar lést svo óvænt aðeins 39 ára gamall og svo missti hún Óla tæpu ári síðar. En Inga hélt vel utan um hópinn sinn og ræktaði sambandið vel og börnin og barnabörnin voru dugleg að koma til Eyja og eiga samvistir við hana. Þau sýndu líka mömmu sinni einstaka umhyggju í þeim erfiðu veikindum sem hún gekk í gegnum.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til Ingu, þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við og fjölskyldurnar áttum saman.

Elsku Helga, Lilja, Gulli, Hildur, tengdabörn og barnabörn, megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og styrkja og munið að Inga lifir áfram í ykkur, megi minningin um yndislega mömmu og ömmu létta ykkur sorgina.

Hjálmfríður.